Breytingar á lögum um lífeyrissjóði

Í júní sl. samþykkti Alþingi nokkrar breytingar á lögum um lífeyrissjóði auk annarra laga. Meðal breytinga sem varða sjóðfélaga beint er að lágmarksiðgjald af launum í lífeyrissjóð hækkar. Þá mun breytingin einnig hafa áhrif á meðferð tilgreindrar séreignar.

Meðal breytinga sem taka gildi 1. janúar 2023 eru:  

  • Að lágmarksiðgjald í lífeyrissjóð hækkar úr 12% í 15,5%.
  • Heimilt verður að bjóða sjóðfélögum að ráðstafa allt að 3,5% af launum til tilgreindrar séreignar með þrengri útborgunarheimildir en hefðbundinn séreignarsparnaður.
  • Séreign af lágmarksiðgjaldi verður ekki lengur undanþegin skerðingu greiðslna frá TR eða þátttöku í dvalarkostnaði á stofnun fyrir aldraða og fleira.
  • Sjóðfélaga verður heimilt að ráðstafa tilgreindri séreign skattfrjálst til kaupa á fyrstu fasteign að tilteknum skilyrðum uppfylltum.

 Nánari upplýsingar um fyrirhugaða lagabreytingu má finna á vef Alþingis

Við bendum sjóðfélögum á að kynna sér efni á vef TR um breytinguna þar sem skoða má dæmi og spurt og svarað.  Þar á meðal þessa skýringarmynd sem fylgdi kynningu fjármála- og efnahagsráðuneytis við kynningu á breytingunum.

TR-mynd-v-tilgreind-alm-sjodir

Sjóðfélagar eru hvattir til að leita til Þjónustuvers ef þeir hafa frekari spurningar um áhrif lagabreytinganna.

Mun séreign skerða lífeyri frá TR eftir að lögin taka gildi?

Tilgreind séreign sem myndast hefur af lágmarksiðgjaldi mun skerða greiðslur frá TR frá og með 1. janúar 2023. Ein undantekning er þó á því; Þeir sem þegar hafa hafið töku lífeyris hjá TR fyrir 1. janúar 2023 munu ekki verða fyrir skerðingu. 

Þurfa sjálfstæðir atvinnurekendur að greiða 15,5% iðgjald í lífeyrissjóð?

Já, öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi ber að greiða lágmarksiðgjald 15,5% í lífeyrissjóð, frá og með 1. janúar 2023.

Verður einhver breyting á viðbótarlífeyrissparnaði?  

Nei, engin breyting verður á viðbótarlífeyrissparnaði sem takmarkast við allt að 4% framlag sjóðfélaga og 2% framlag launagreiðanda. Hann mun áfram ekki teljast til tekna við útreikning á lífeyri frá TR og því ekki skerða þær greiðslur.