Fara á efnissvæði

Sláðu inn leitarorð

"Ég er meira svona hamingjuhlaupari"

Hildur Ósk Brynjarsdóttir er 43 ára sérfræðingur í verkefna- og gæðastjórnun hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna. Hún starfaði áður í Arion verðbréfavörslu og SPRON en hefur unnið hjá LV í um 13 ár. Hildur lauk námi í hagfræði og meistaranámi í forystu og stjórnun með áherslu á mannauðsmál. 

20220702 142401 20220702 142401

Hver eru þín helstu verkefni í vinnunni? 

Við erum tvær sem sjáum um verkefna- og gæðamál hjá sjóðnum. Við höldum utan um stærri verkefni eins og kerfisinnleiðingar eða þegar lagabreytingar eru og við þurfum að gera breytingar í mörgum kerfum og upplýsa sjóðfélaga eða launagreiðendur til dæmis. Við pössum upp á það sem þarf að gera og að allir sem þurfa séu með í verkefninu. Svo er mögulega það mikilvægasta að passa vel upp á forgangsröðun og að bæði gögn og ferli séu uppfærð. 

Undanfarið ár eða svo hefur mestur tími hjá mér farið í að byggja upp viðskiptamannakerfi og vinna að stafrænu stefnunni okkar. Við erum markvisst að vinna í að samþætta kerfin, gera ferlana betri og ánægjulegri fyrir starfsfólk og viðskiptavini. Helstu verkefnin snúa að því og taka í raun allan minn tíma núna.

Við sjáum svo mikil tækifæri í þessu og höfum metnað til að vera leiðandi í stafrænni þjónustu  því það gerir allt auðveldara og eykur ánægju. 

Eða eins og einn af okkar samstarfsaðilum orðaði þetta þá viljum við gera okkar þjónustu jafn auðvelda og að panta á Amazon og jafn ánægjulegt og að fara í Disneyland. 

Nú hefur þú unnið í fleiri deildum innan sjóðsins og hefur mikla þekkingu á lífeyrismálum á breiðum grunni. Hvað finnst þér einna áhugaverðast við lífeyrismálin?

Hiklaust er það hversu ótrúlega víðtæk þau eru og skipta miklu máli. Hvað lífeyrisréttindin veita manni sterkar tryggingar ef maður verður fyrir áföllum á lífsleiðinni og maður getur ekki unnið vegna veikinda eða slyss.

Lífeyrissjóðsréttindin þín eru að grípa þig alla ævi. Ef þú missir heilsuna áttu rétt á greiðslum, ef þú fellur frá á makinn rétt á greiðslum. Svo fær maður sparnaðinn greiddan til æviloka þegar maður hættir að vinna,  og klárast aldrei sama hversu gamall maður verður.

20240201 105259
20240201 105259

Hildur Ósk og Jenný Ýr voru glæsilegir fulltrúar sjóðsins á Framadögum í HR 2024

Hvað kannt þú best að meta á vinnustaðnum?

Ég er mjög ánægð með tækifærin sem eru hjá sjóðnum til að vaxa og dafna í starfi. Ég er að fá innsýn í mörg verkefni og hef fengið tækifæri til að þroskast í starfi. Ég byrjaði t.d. í deildinni sem sér um iðgjaldaskráningar, fór í lánadeildina og svo núna í verkefna- og gæðastjórnun. Ég vil fá áskoranir í starfi og þrífst síður í rútínuvinnu. Þess vegna hlakka ég til að fara í vinnuna á hverjum degi.

Og auðvitað skiptir fólkið ekki síður máli. Það þarf að vera gaman að mæta í vinnuna. Ég hef eignast marga góða vini á vinnustaðnum sem fá mann til að hlægja og brosa alla daga.

Er eitthvað sem þú vilt deila með sjóðfélögum? Góð ráð eða innsýn í eitthvað sem fáir vita um?

Það er kannski helst varðandi séreignarsparnaðinn. Það ættu bara allir að nýta sér hann óháð öllu. Kostirnir eru einfaldlega svo miklir. Mér finnst að foreldrar unglinga sem eru að byrja á vinnumarkaði ættu að fara yfir þetta með krökkunum sínum.

Það má byrja í séreign bara um leið og maður fer að fá laun – líka áður en þú byrjar að borga í lífeyrissjóð við 16 ára aldur. Dóttir mín er 15 ára og byrjuð að spara í séreign í sumarvinnunni. Þetta getur skipt ótrúlega miklu máli því þau geta nýtt þennan sparnað skattfrjálst upp í útborgun í fyrstu íbúð. Því fyrr sem þú byrjar því meiri ávöxtun.

Received 974809807159251
Received 974809807159251

Hildur Ósk með vinkonum að hlaupa og njóta á Ítalíu í maí

Svo finnst mér mjög mikilvægt að eldra fólk átti sig á að þó það byrji að taka út sparnaðinn sinn eftir 60 ára aldur þá ætti það að halda áfram að spara á meðan það er að fá greidd laun. Ekki missa af mótframlaginu frá launagreiðanda. Leggur 4% fyrir og færð 2% á móti og getur svo tekið út eins og af bankareikningi þegar þér hentar.

Hvernig lítur sumarið út? Ætlar þú í gott sumarfrí?

Já, heldur betur. Ég er reyndar ennþá dáldið „hátt uppi“ eftir frábæra hlaupaferð til Cinque Terre á Ítalíu í vor sem var stórkostleg upplifun. Ég ætla að vera mikið uppá hálendinu. Þórsmörk, Landmannalaugar og Kerlingarfjöll eru mínir uppáhaldsstaðir.

Stefni á blöndu af hlaupa- og gönguferðum. Planið er að þetta verði hlaupasumarið mikla. Ég er enginn keppnishlaupari en samt skráð í 2 hlaup. 

Ég er meira svona hamingjuhlaupari – það er svo gott að vera úti í náttúrunni.

Smelltu til að kynnast sjóðfélögum okkar