Fara á efnissvæði

Sláðu inn leitarorð

Spurt og svarað

Hvenær get ég byrjað að taka út?

Þú getur valið að hefja töku lífeyris frá 60 ára aldri og allt til 80 ára aldurs.  Þegar þú hefur ákveðið að hefja töku lífeyris sækir þú um og færð fyrstu lífeyrisgreiðsluna síðasta virka dag þess mánaðar sem þú velur.

Athugaðu að sækja þarf um fyrir 20. hvers mánaðar til að fá greitt í lok sama mánaðar en þú getur líka sótt um fram í tímann. 

Hvaða áhrif hefur frestun eða flýting lífeyristöku á lífeyrinn minn?

Þú átt alltaf sömu réttindin en ef þú byrjar að fá lífeyri fyrir 67 ára viðmiðunaraldurinn þá verður mánaðarleg upphæð lægri því gera þarf ráð fyrir því að þú fáir greitt í hverjum mánuði í lengri tíma. 

Með sama hætti þá hækkar mánaðarleg greiðsla þeirra sem fresta lífeyristöku fram yfir 67 ára aldur. 

Í meðfylgjandi töflu sjást áhrif á mánaðarlegar greiðslur eftir því hvenær sjóðfélagi byrjar að fá greiddan lífeyri. Taflan miðast við spár um ævilengd Íslendinga hverju sinni og getur því tekið breytingum.

Aldur við upphaf eftirlauna Breyting mánaðargreiðslu
60 ára 36,2% lægri greiðsla
65 ára 12,8% lægri greiðsla
67 ára -
68 ára 7,4% hærri greiðsla
69 ára 15,6% hærri greiðsla
70 ára 24,7% hærri greiðsla
75 ára 90,5% hærri greiðsla
80 ára 222,9% hærri greiðsla

*Töfluna er að finna í samþykktum LV og ganga þær framar ef þeim ber ekki saman við þennan texta.

Oft vaknar sú spurning hjá fólki sem er að komast á lífeyrisaldur hvenær hagstæðast sé að hefja lífeyristöku. Það veit enginn fyrr en yfir lýkur því það ræðst af lífaldri hvers og eins, þ.e. hvort þú lifir lengur eða skemur en meðallífaldur.

Þetta er háð fleiri forsendum í ákvarðanatökunni, s.s. samspil skatta og annarra tekna við úttekt, heilsufar og fleira. Það er því þitt að meta hvað best er fyrir þig. Ef þú vilt skoða möguleikana hafðu samband við ráðgjafa okkar.  

Hálfur lífeyrir 50%

Þú getur valið að byrja að fá hálfan lífeyri frá 60 ára aldri.

 • Helmingurinn sem þú byrjar að fá greiddan verður þá föst upphæð sem breytist mánaðarlega í takt við vísitölu neysluverðs (verðtrygging).
 • Sá hluti sem þú frestar tekur þá breytingum samkvæmt samþykktum hvers tíma. 

Athugaðu að hægt er að sækja um hálfan lífeyri frá TR frá 65 ára aldri. Nánar á vef TR

 

Borga ég skatt af lífeyrisgreiðslum?

Já, lífeyrisgreiðslur eru skattskyldar með sama hætti og almennar launatekjur. Þú þarft því að gera ráð fyrir að greiða skatt af þeim tekjum sem þú færð frá sjóðnum eftir því skattþrepi sem þú ert í.

Sjóðurinn sér um að skila staðgreiðslu af lífeyrisgreiðslum til skattayfirvalda. Skattkort eru rafræn og nauðsynlegt er að láta vita hversu hátt hlutfall af skattkorti þú vilt nýta hjá sjóðnum.

Persónuafsláttur

Skattkort lækkar skattinn því það veitir rétt til persónuafsláttar á staðgreiðsluári.  Eigi lífeyrisþegi ónýttan persónuafslátt er mikilvægt að láta sjóðinn vita.

Lífeyrisþegar geta nýtt allt að 100% af ónýttu skattkorti maka til skattalækkunar.

Við fráfall maka geta lífeyrisþegar nýtt skattkort makans í 9 mánuði frá og með andlátsmánuði.

Þarf ég að sækja um að fá lífeyrisgreiðslur?

Já, það þarf að sækja sérstaklega um þær. Það er gert rafrænt á mínum síðum og sækja þarf um fyrir 20. hvers mánaðar til að fá greitt í lok sama mánaðar. Þar getur þú valið hvort þú óskar eftir greiðslu frá öðrum sjóðum líka, valið rétt skattþrep og fleira. 

Hvernig kemst ég að því hvað ég mun fá í lífeyri?

Besta leiðin er að skrá sig inn á mínar síður og skoða lífeyrisáætlun. Þar getur þú valið mismunandi forsendur og séð hver áætluð greiðsla verður. Þar geturðu líka sótt allar upplýsingar um réttindi hjá öðrum sjóðum sem þú hefur greitt í yfir starfsævina. Þannig geturðu stillt upp heildstæðri mynd af lífeyrisgreiðslum og séreign. 

Athugaðu að eingöngu séreign þín hjá LV birtist á mínum síðum en séreignarsparnaður sem þú kannt að eiga hjá öðrum þarf að skrá inn handvirkt í lífeyrisáætlun. 

Önnur góð leið er að fara inn á mínar síður og skoða yfirlit sem þú hefur fengið inn í skjalasafnið þitt. Þar er bæði staða áunninna réttinda og áætlaðar útgreiðslur miðað við upphaf lífeyris á mismunandi aldri. 

Erfist ævilangi lífeyririnn minn?

Réttindi þín sem slík erfast ekki. Hins vegar er rík fjárhagsleg vernd fyrir fjölskylduna ef þú fellur frá. Almenna reglan er að maki fær makalífeyri í að lágmarki 5 ár en er oft greiddur lengur eða þar til yngsta barn nær 23 ára aldri. Þá er barnalífeyrir greiddur fyrir hvert barn fram að 20 ára aldri þess. 

Þannig er verndin mest fyrir þá sem eiga ung börn og mestu skiptir fyrir fjölskylduna að hafa fjárhagslegt öryggi. 

 

Getur maki fengið hluta réttinda minna til ævilangs lífeyris?

Já, hjónum og sambúðarfólki er heimilt að gera samning um skiptingu áunninna réttinda og framtíðarréttinda.  Eins er hægt að gera samkomulag um skiptingu lífeyrisgreiðslna eftir að taka lífeyris er hafin.

Skiptingu réttinda þarf að skoða mjög vel svo báðir aðilar séu vel upplýstir um áhrifin. Við hvetjum alla sem vilja kanna hvort skipting réttinda henti þeim að koma í viðtal til ráðgjafa okkar. 

Hvaða reglur gilda um skiptingu réttinda hjóna/sambúðaraðila?

Öllum er heimilt að skipta lífeyrisréttindum sínum með maka sínum eða sambúðarmaka með samkomulagi. Skiptingin felur í sér gagnkvæma og jafna skiptingu, sem þýðir að hvor aðilinn fyrir sig skal veita hinum sama hlutfall lífeyrisréttinda sinna. Skiptingin er óafturkræf og felur í sér að hvor maki fyrir sig öðlast sjálfstæð réttindi og skerðast þá réttindi sjóðfélagans sem nemur aukningu maka.

Samkomulag um skiptingu réttinda þarf að vera gert áður en lífeyristaka hefst og áður en sá maki sem er eldri er orðinn 65 ára gamall. Þá er krafist læknisvottorðs um að sjúkdómar eða heilsufar dragi ekki úr lífslíkum sjóðfélaga og maka hans.

Athugaðu að eingöngu má skipta þeim réttindum sem myndast meðan á hjónabandi eða sambúð stendur.

Hvernig get ég kynnt mér áhrif skiptingar réttinda nánar?

Við hvetjum þig til að skoða reiknivélina okkar um áhrif skiptingar réttinda. Þar má skoða megináhrif af slíku samkomulagi en við hvetjum alla til að skoða málið með ráðgjafa okkar áður en ákvörðun er tekin. 

Til að sjá heildarmyndina þarf að skoða skiptingu í öllum sjóðum sem báðir aðilar eiga inneign í.

Hvernig er skattlagning lífeyris ef ég bý erlendis?

Ef lífeyrisþegi býr í landi sem Ísland hefur gert tvísköttunarsamning við og samningurinn kveður á um að lífeyristekjur eigi að skattleggja í búseturíki, þarf hann að sækja um undanþágu frá greiðslu skatta árlega á heimasíðu Skattsins.

Lífeyrissjóðnum ber að halda eftir staðgreiðslu nema samþykkt undanþága liggi fyrir.

Norðurlönd

Samkvæmt tvísköttunarsamningi Norðurlandanna skal lífeyrir skattlagður í því landi sem hann er greiddur. Allur lífeyrir sem aðilar búsettir á Norðurlöndunum fá héðan er samkvæmt því skattlagður á Íslandi og aldrei gefnar út undanþágur.

Lífeyrissjóðnum ber samkvæmt því að halda eftir staðgreiðslu en persónuafsláttur miðast við greiðslutíma. Ef um eingreiðslu er að ræða fær viðkomandi persónuafslátt miðað við greiðslumánuðinn (engin uppsöfnun).

Hvað gerist við skilnað eða andlát?

Samkomulag um skiptingu áunnins ævilangs lífeyris (ellilífeyrisréttinda) hefur eftirfarandi í för með sér:

 • Við skilnað er tryggt að áunninn ævilangur lífeyrir komi til skipta.
 • Við andlát sjóðfélaga fær eftirlifandi maki helming ævilangs lífeyris sjóðfélagans, auk þess sem maki fær greiddan makalífeyri út á áunnin og framreiknuð réttindi sjóðfélagans eins og ekki hefði komið til skiptingarinnar.
 • Áfallaverndin (örorkulífeyrir, makalífeyrir, barnalífeyrir) er ennþá til staðar hjá sjóðfélaga eftir skiptinguna. Verði sjóðfélagi öryrki eftir að lífeyrisréttindum til ævilangs lífeyris hefur verið skipt, fær hann því samt sem áður örorkulífeyri eins og ekki hefði komið til skiptingarinnar.
 • Sá sem fær réttindin til ævilangs lífeyris frá sjóðfélaga öðlast ekki rétt til örorku- eða barnalífeyris út á þau réttindi. 

Fyrir hvaða tímabil má skipta réttindum?

Skipting miðast við tímabil sambúðar/hjúskaps samkvæmt staðfestingu frá Þjóðskrá. Einungis má skipta réttindum sem myndast meðan á hjónabandi eða sambúð stendur. 

Samning um skiptingu áunninna réttinda þarf að gera fyrir 65 ára aldur þess maka sem eldri er. Eftir skiptinguna, verða lífeyrisréttindi beggja aðila sjálfstæð og fær hvor aðili greiddan lífeyri til æviloka.

 • Áunnin réttindi 
 • Verður að gerast fyrir 65 ára aldur
 • Verður að gerast áður en lífeyristaka hefst

Hvaða lög gilda um skiptingu réttinda?

Skipting lífeyrisréttinda byggir á heimild í 3. mgr. 14. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og 12. greinar samþykkta Lífeyrissjóðs verzlunarmanna.

Hver er upphæð barnalífeyris?

Mánaðarlegur barnalífeyrir með hverju barni er [childPension]. 

Hver telst vera maki?

Maki er sá sem hefur verið í hjúskap eða sambúð með sjóðfélaga í tvö ár, að minnsta kosti. Viðmiðið er að hjón eða sambúðarfólk hafi haft sameiginleg fjármál í tvö ár. Hjón mega ekki vera skilin að borði og sæng því þá fellur niður réttur til makalífeyris.

Hvaða skilyrði eru fyrir rétti til makalífeyris og hversu hár er hann?

Makalífeyrir er alltaf að lágmarki 60% af áunnum réttindum sjóðfélagans við 67 ára aldur. 

Mun meiri verðmæti felast alla jafna í rétti til framreiknings á makalífeyri. Það þýðir að til útgreiðslu eru þau réttindi sem sjóðfélagi hafði þegar áunnið sér við andlátið en við bætast réttindi eins og sjóðfélaginn hefði greitt til sjóðsins af sömu launum til 65 ára aldurs. Makinn fær 60% af þeim rétti. 

Til að fá bæði áunninn og framreiknaðan rétt til makalífeyris þarf sjóðfélagi: 

 • Að hafa greitt í sjóðinn í a.m.k. 3 af síðustu 4 árum fyrir andlát.

 • Að hafa greitt í sjóðinn í a.m.k. 6 mánuði síðasta árið fyrir andlát.

 • Að hafa greitt iðgjald í sjóðinn að lágmarki 178.435* krónur hvert þessara þriggja ára.

* 178.435 kr. er grunnupphæð og skal verðbætt í byrjun hvers árs skv. vísitölu neysluverðs, miðað við grunnvísitölu 513 í janúar 2022.  

Hversu lengi er makalífeyrir greiddur?

Í stuttu máli er makalífeyrir greiddur í að lágmarki í fimm ár og einnig þar til yngsta barn verður 23 ára, auk barnalífeyris til 20 ára aldurs yngsta barns.

 • Ef þið eigið börn undir 23 ára aldri: Maki þinn fær makalífeyri þangað til yngsta barnið hefur náð 23 ára aldri.

 • Ef maki þinn er öryrki og er yngri en 65 ára: Makalífeyrir er greiddur á meðan makinn er öryrki en að hámarki til 67 ára aldurs. 

 • Nánari upplýsingar um eldri greinar má finna í samþykktum.

Hefur skipting réttinda við fyrri maka áhrif?

Skipting réttinda milli hjóna hefur ekki áhrif á makalífeyri, hún hefur eingöngu áhrif á ævilangan lífeyri.

Hver eru skilyrðin fyrir greiðslu barnalífeyris?

Skilyrði fyrir greiðslu barnalífeyris er að foreldri hafi greitt í sjóðinn í tvö ár á síðustu þremur árum eða í að minnsta kosti sex mánuði síðasta árið fyrir fráfall.

Hvaða gögnum þarf að skila með umsókn um makalífeyri?

Þú sækir um makalífeyri á mínum síðum. Ef hjón eru gift þá þarf ekki nein gögn því sjóðurinn hefur aðgang að þjóðskrá. Ef um sambúð er að ræða  þarf að koma staðfesting á að sambúð hafi varað í tvö ár.

Hvað gerist ef ég gifti mig eða hef sambúð á meðan ég fær greiddan makalífeyri?

Ef makinn giftist aftur eða stofnar til sambúðar innan þess tíma sem hann/hún á rétt á makalífeyri fellur sá réttur niður.

Get ég notað skattkort maka?

Þú getur notað skattkort maka í níu mánuði, að meðtöldum mánuðinum þegar maki lést. 

Er greiddur skattur af makalífeyri?

Já, greiddur er tekjuskattur af makalífeyri eins og öðrum tekjum.

Hversu lengi er barnalífeyrir greiddur og hversu hár er hann?

Barnalífeyrir er nú í ágúst 2023 25.463 kr. á mánuði fyrir hvert barn og er greiddur til 20 ára aldurs þess. Barnalífeyrir er verðtryggður miðað við vísitölu neysluverðs.

Hver telst sem barn sjóðfélaga?

Barnalífeyrir er greiddur með börnum sjóðfélaga ásamt fósturbörnum og stjúpbörnum sem voru á framfærslu sjóðfélaga.

Hver fær greiddan barnalífeyri?

Barnalífeyrir vegna andláts foreldris er greiddur inn á reikning barnsins.

Hvað ef ég bý erlendis?

Á hverju ári þurfa þeir sem búa erlendis og fá lífeyri greiddan frá sjóðnum að senda svokallað lífsvottorð til staðfestingar dvalar í viðkomandi landi. Viðeigandi yfirvöld á hverjum stað; þjóðskrá, bæjarskrifstofur, skattstofa eða aðrir opinberir aðilar gefa út slíkt vottorð. Það þarf að berast sjóðnum fyrir 15. maí ár hvert. 

Sjóðfélagar sem búa erlendis þurfa að koma upplýsingum um netfang sitt til sjóðsins eða skrá það inn á Mínar síður

Eru allir sjóðir með sömu réttindi til maka- og barnalífeyris?

Nei, mikill munur getur verið á því hver réttindi sjóðfélaga eru til áfallaverndar. Ákveðin lögbundin lágmörk eru skilgreind í lögum en samtryggingarsjóðir bjóða almennt talsvert betri vernd. LV er þar fremstur í flokki og veitir mun betri áfallavernd en lög kveða á um. Almennt eru sjóðir sem leggja áherslu á séreign umfram samtryggingu með rýrari réttindi til áfallaverndar í staðinn.

Hvenær á ég rétt á örorkulífeyri?

Þú þarft að vera yngri en 67 ára og hafa greitt ákveðin lágmarksiðgjöld í lífeyrissjóð í samtals 24 mánuði fyrir slys eða sjúkdóm sem veldur starfsorkutapinu. 

Skilyrði fyrir því að umsókn verði samþykkt er að þú hafir tapað að minnsta kosti 50% starfsorku til þess starfs sem þú hafðir í að minnsta kosti 6 mánuði og hafir tapað tekjum vegna þessa.

Tapa ég rétti á ævilöngum lífeyri ef ég fer á örorkulífeyri?

Nei, ef þú ert á örorkulífeyri til 67 ára aldurs tekur við ævilangur lífeyrir sem veitir sömu réttindi áfram og til æviloka.

Má ég vinna þó ég fái örorkulífeyri?

Þú mátt afla þér allra þeirra tekna sem þú getur og vilt. Hins vegar er örorkulífeyri aðeins ætlað að tryggja þér þær tekjur sem þú hafðir áður en þú misstir starfsorkuna. Þess vegna eru launagreiðslur og greiðslur frá TR dregnar frá örorkulífeyri. Þú mátt ekki hafa meiri tekjur á örorkulífeyri en þegar þú varst í vinnu.

Greiði ég af örorkulífeyri í lífeyrissjóð?

Nei, iðgjöld í lífeyrissjóð eru ekki greidd af örorkulífeyri.

Get ég greitt félagsgjald af örorkugreiðslum til stéttarfélags?

Samkvæmt lögum VR er öryrkjum heimilt að greiða 0,7% félagsgjald af örorkulífeyri sem renni í sjóði félagsins til að tryggja réttindi þeirra úr sjóðunum.

Skilyrði sem öryrki þarf að uppfylla til að öðlast þennan rétt er að hann hafi verið félagsmaður VR óslitið í fimm ár áður en til örorku kom og að árlegar greiðslur félagsgjalds af örorkulífeyri nái lágmarksfélagsgjaldi VR hverju sinni.

Hvenær má taka út tilgreinda séreign?

Tilgreind séreign er laus til útborgunar frá 62 ára aldri, en þá er greiðslunum dreift þar til þú nærð 67 ára aldri. Sé innstæða undir ákveðnum viðmiðum, kr. 1.616.426*, átt þú rétt á að óska eftir því að innstæðan verði greidd út í eingreiðslu eða á skemmra tímabil en fyrrgreind sjö ár. 

* 1.janúar 2023. Viðmiðunarfjárhæð þessi breytist árlega í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs.

Hver er munurinn á séreign og tilgreindri séreign?

Séreign er valfrjáls sparnaður, viðbót við lögbundin lífeyrissparnað. Ef þú sparar 2-4% af þínum launum þá greiðir launagreiðandi 2% mótframlag. Þú getur hafið úttekt við 60 ára aldur og fengið allt greitt í einu ef þú vilt. 

Tilgreind séreign er hluti af lögbundnum lífeyrissparnaði.  Þú hefur val um að ráðstafa næstum fjórðungi af 15,5% lögbundna iðgjaldinu þínu í tilgreinda séreign eða 3,5% af 15,5%. Hægt er að taka út tilgreinda séreign frá 62 ára með ákveðnum skilyrðum.

Erfist tilgreind séreign?

Já, tilgreind séreign erfist við fráfall og skiptist inneign þín á milli maka og barna þinna samkvæmt reglum hjúskapar- og erfðalaga. Samkvæmt þeim fær maki 2/3 og börn 1/3. Ekki er greiddur erfðafjárskattur en reiknaður er tekjuskattur við útborgun séreignarsparnaðar. Ef þú lætur ekki eftir þig maka eða börn rennur inneignin til dánarbúsins.

Börn eða maki geta afsalað sínum hluta og er þá útbúin sérstök yfirlýsing þess efnis á skrifstofu sjóðsins sem aðilar þurfa að undirrita.

Inneignin er laus til útgreiðslu eftir að skipting hefur verið framkvæmd en erfingjum stendur einnig til boða að ávaxta inneignina áfram hjá sjóðnum. Kynntu þér fjárfestingarleiðir séreignarnarsparnaðar.

Ef ég veikist eða lendi í slysi?

Verðir þú að hætta störfum vegna örorku af völdum slyss eða veikinda áttu rétt á að fá inneign þína í séreignar greidda út á minnst sjö árum eða á þeim tíma sem vantar upp á 60 ára aldur. Sé innstæða undir ákveðnum viðmiðum, kr. 1.616.426*, átt þú rétt á að óska eftir því að innstæðan verði greidd út í eingreiðslu eða á skemmra tímabil en fyrrgreind sjö ár. 

 

* 1.janúar 2023. Viðmiðunarfjárhæð þessi breytist árlega í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs.

Geta allir greitt í tilgreinda séreign?

Allir þeir sem greiða 15,5% lágmarksiðgjald hafa val um að ráðstafa 3,5% í tilgreinda séreign.

Greiði ég skatt af greiðslum úr tilgreindri séreign?

Greiðslur úr lífeyrissjóðum og greiðslur séreignar eru skattlagðar eins og aðrar launatekjur en þú getur nýtt persónuafslátt þinn til þess að lækka skattana. 

Við sjáum um að skila staðgreiðslu af lífeyrisgreiðslum til skattayfirvalda. Skattkort eru rafræn og nauðsynlegt er að láta vita hversu hátt hlutfall af skattkorti þú vilt nýta hjá sjóðnum.

Persónuafsláttur

 • Skattkort lækkar skattinn því það veitir rétt til persónuafsláttar á staðgreiðsluári.  Eigi lífeyrisþegi ónýttan persónuafslátt er mikilvægt að láta sjóðninn vita.
 • Lífeyrisþegar geta nýtt allt að 100% af ónýttu skattkorti maka til skattalækkunar.
 • Við fráfall maka geta lífeyrisþegar nýtt skattkort makans í 9 mánuði frá og með andlátsmánuði.

Skerðir tilgreind séreign lífeyri frá TR?

Já, tilgreind séreign og önnur séreign sem tilheyrir 15,5% lágmarksiðgjaldinu skerðir greiðslur frá TR frá og með 1. janúar 2023 og er sömuleiðis ekki undanþegin þátttöku í dvalarkostnaði á stofnun fyrir aldraða og fleira.

Ein undantekning er þó á því; Þeir sem þegar hafa hafið töku lífeyris hjá TR fyrir 1. janúar 2023 munu ekki verða fyrir skerðingu. 

Hefur tilgreind séreign áhrif á örorku- og makalífeyri?

Já, með því að ráðstafa hluta af iðgjaldi í tilgreinda séreign þá lækkar á móti sú áfallavernd sem fæst með fullu iðgjaldi í samtryggingu. Áfallaverndin er þó áfram til staðar af því iðgjaldi sem greitt er til samtryggingar.

Get ég nýtt tilgreinda séreign skattfrjálst til kaupa á fyrstu íbúð?

Já, með breytingum á lögum um lífeyrissjóði í janúar 2023 er það hægt að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, sjá nánar á vef Skattsins.

 • Ef að þú ert með séreignarsparnað þá þarft þú fyrst að nýta hann áður en þú nýtir tilgreindu séreignina. 
 • Tilgreind séreign er greidd í lok hvers almanaksár, eða þegar liggur fyrir að hvaða marki hámarksfjárhæð hefur verið nýtt með greiðslu séreignarsparnaðar.
 • Ráðstöfun tilgreindar séreignar inn á lán er að jafnaði í formi eingreiðslu
 • Nýta má iðgjöld vegna tilgreindrar séreignar sem greidd eru frá og með 1.janúar 2023

Ég á íbúð get ég nýtt tilgreinda séreign inn á lán?

Nei, ef þú átt íbúð þá er ekki í boði að nýta tilgreinda séreign. Ef þú ert með séreignarsparnað þá getur þú nýtt hann til að greiða inn á lán.

Hefur tilgreind séreign áhrif á greiðslur hjá TR?

Já, tilgreind séreign hefur áhrif á greiðslur hjá TR. Séreign sem er hluti lögbundins framlags í lífeyrissjóð eins og tilgreind séreign lækka greiðslur lífeyris frá TR.

Get ég nýtt tilgreinda séreign skattfrjálst til kaupa á fyrstu fasteign?

Já, með breytingum á lögum um lífeyrissjóði í janúar 2023 er það hægt að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

 • Þú þarft ekki að vera með séreignarsparnað til að geta nýtt tilgreindu séreignina. En ef þú ert að greiða í séreignarsparnað þá þarft þú fyrst að nýta hann áður en þú nýtir tilgreindu séreignina.
 • Tilgreind séreign er greidd í lok hvers almanaksár, eða þegar liggur fyrir að hvaða marki hámarksfjárhæð hefur verið nýtt með greiðslu viðbótariðgjalds.
 • Ráðstöfun tilgreindrar séreignar inn á lán er að jafnaði í formi eingreiðslu.
 • Nýta má iðgjöld vegna tilgreindrar séreignar sem greidd eru vegna starfa frá og með 1.janúar 2023.

Heimild þess sem hefur ekki átt íbúð síðastliðin fimm ár.

 • Þú getur nýtt skattfrjálsa úttekt séreignar ef þú hefur ekki átt íbúðarhúsnæði síðastliðinn fimm ár áður en þú sækir um ráðstöfun séreignarsparnaðar, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum:
 • Þú hefur ekki áður fullnýtt skattfrjáls úrræði um ráðstöfun séreignarsparnaðar
 • Tekjuskattstofn að meðtöldum heildarfjármagnstekjum skal ekki vera hærri fjárhæð en 11.125.045 kr. skv. 3 tölul. 1 mgr. 66. gr. laga um tekjuskatt.
 • Hjón eða einstaklingar sem uppfylla skilyrði til samsköttunar skv. 3. mgr. 62.gr. laga um tekjuskatt, mega hvorugt hafa verið eigandi að íbúðarhúsnæði.

Nánar

Lög um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð

Reglugerð um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð

 

Skattahagræði

Ef þú greiðir í séreignarsparnað er ekki tekinn skattur af þeim greiðslum. Þannig lækka skattgreiðslur þínar í hverjum mánuði sem því nemur.

Tökum dæmi af aðila sem er með 500.000 kr. í mánaðarlaun.

 Dæmi m.v. miðþrep skatthlutfalls 2023 2% 4% 
Mánl. framlag í séreignarsparnað 10.000 20.000 
Skattalækkun á mánuði 3.795  7.590
Skattalækkun á ári 45.540  91.080

Á sama tíma og lægra hlutfall launa þinna fer í skatt ertu að tryggja þér aukinn sparnað síðar á ævinni. Þar er ekki eingöngu um að ræða framlag þitt heldur einnig mótframlag atvinnuveitanda þíns auk ávöxtunar. 

Hvenær má ég taka út séreignarsparnaðinn?

Séreign er laus til útborgunar við 60 ára aldur. Þú getur valið um að taka inneign þína út í einu lagi eða dreift henni eins og hentar þér best.

Ef ég veikist eða lendi í slysi?

Verðir þú að hætta störfum vegna örorku af völdum slyss eða veikinda áttu rétt á að fá inneign þína í séreignardeild greidda út á minnst sjö árum eða á þeim tíma sem vantar upp á 60 ára aldur. Sé innstæða undir ákveðnum viðmiðum, kr. 1.616.426*, átt þú rétt á að óska eftir því að innstæðan verði greidd út í eingreiðslu eða á skemmra tímabil en fyrrgreind sjö ár. 

* 1.janúar 2023. Viðmiðunarfjárhæð þessi breytist árlega í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs.

Erfist séreignin mín?

Já, inneign þín í séreign erfist og skiptist á milli maka og barna þinna samkvæmt reglum hjúskapar- og erfðalaga. Samkvæmt þeim fær maki 2/3 og börn 1/3. Ekki er greiddur erfðafjárskattur en reiknaður er tekjuskattur við útborgun séreignarsparnaðar. Ef þú lætur ekki eftir þig maka eða börn rennur inneignin til dánarbúsins.

Börn eða maki geta afsalað sér sínum hluta og er þá útbúin sérstök yfirlýsing þess efnis á skrifstofu sjóðsins sem aðilar þurfa að undirrita.

Inneignin er laus til útgreiðslu eftir að skipting hefur verið framkvæmd en erfingjum stendur einnig til boða að ávaxta inneignina áfram hjá sjóðnum. 

Get ég nýtt séreignarsparnað til að kaupa fyrstu íbúð?

Já, allir þeir sem eiga séreignarsparnað og eru að kaupa eða byggja íbúðarhúsnæði geta nýtt uppsafnaðan séreignarsparnað til útborgunar á fyrstu íbúðarkaupum. Þá er einnig hægt að nýta séreign til að greiða inn á lán og/eða lækka mánaðarlega afborgun á óverðtryggðu láni. Skilyrði til að geta sótt um;

 • Þú þarft að vera með séreignarsamning
 • Þú þarft að vera að kaupa fyrstu íbúð eða mátt ekki hafa átt íbúð í 5 ár.
 • Þú  þarft að eiga að minnsta kosti 30% í eigninni
 • Þú þarft að sækja um innan 12 mánaða frá undirritun kaupsamnings

Einstaklingur getur nýtt að hámarki 500.000kr á ári í samfellt 10 ár.

Nánari upplýsingar á vef Skattsins .
Sótt er um úrræðið á vef Skattsins.

Hvernig geri ég lífeyrisáætlun á mínum síðum?

Skráðu þig inn og smelltu á „Réttindi“ í valmyndinni, veldu „Lífeyrisáætlun“. Þar getur þú skráð inn þau laun sem þú vilt miða við, ráðstöfun í séreign og áætlaða ávöxtun. Þannig geturðu séð hverjar áætlaðar greiðslur verða þegar þú vilt taka út. 

Lífeyrisáætlunin birtir sjálfkrafa þann rétt og séreign sem þú átt hjá sjóðnum auk réttinda til ævilangs lífeyris hjá öðrum sjóðum. Uppsöfnuð eign í séreignarsparnaði hjá öðrum kemur hins vegar ekki fram nema þú fyllir inn í þann reit.

Get ég nýtt uppsafnaðan séreignarsparnað til að kaupa fasteign?

Já, þú getur nýtt uppsafnaðan séreignarsparnað til að kaupa fasteign. Þetta þarf ekki að vera þín fyrsta fasteign en það er einungis hægt að nýta viðbótariðgjald sem safnaðist á meðan þú eða maki þinn voru ekki skráðir eigendur fasteignar.

Nánar má kynna sér þetta á vef Skattsins.

Get ég greitt niður lán með séreignarsparnaði mínum?

Já, það er hægt að nýta séreignarsparnað til að greiða mánaðarlega inn á húsnæðislán. En til þess að eiga rétt á því þá þarft þú að uppfylla ákveðin skilyrði: 

 • Þú þarft að vera með séreignarsamning.

 • Þú þarft að hafa lán sem er tryggt með veði.

 • Lánið þarf að vera tekið til öflunar á íbúðarhúsnæði til eigin nota.

Hámarksheimild á ári er 500.000 kr fyrir einstakling og 750.000 kr fyrir hjón/sambúðarfólk. Nánari upplýsingar eru á vef Skattsins.

 

Greiði ég skatt af greiðslum úr séreignarsparnaði?

Já, greiðslur úr séreign eru skattlagðar eins og aðrar tekjur.

Hafa greiðslur úr séreign áhrif á greiðslur hjá TR?

Nei, séreignarsparnaður sem takmarkast við allt að 4% framlag sjóðfélaga og 2% framlag launagreiðanda hefur ekki áhrif á greiðslur hjá TR. 

Þú þarft þó að hafa í huga að séreignarsparnaður umfram 6% (4% þitt framlag og 2% framlag launagreiðanda) sem þú eignaðist frá og með 1.janúar 2023, hefur áhrif á greiðslur eftirlauna frá TR, til skerðingar

Hvað má launagreiðandi greiða hátt mótframlag?

Launagreiðendur hafa heimild til að greiða 12% mótframlag af launum + 2 milljónir á ári, samanlagt mótframlag í lögbundið lífeyrisframlag og séreignarsparnað. Greiðslur umfram það eru tekjuskattskyldar. 

Samkvæmt lögum greiða launagreiðendur 11,5% mótframlag í lögbundinn lífeyrissparnað og 2% mótframlag í séreignarsparnað, samtals 13,5%.

Hver og einn þarf því að skoða vel hversu mikið svigrúm er til staðar til að auka mótframlag launagreiðanda.

Á ég rétt á láni?

Þú átt rétt á láni ef þú hefur greitt iðgjöld í 6 af s.l. 12 mánuðum fyrir umsókn eða í samtals 36 mánuði fyrir umsókn.

Skráðu þig með rafrænum skilríkjum inn á Mínar síður til að staðfesta hvort þú átt lánsrétt. 

Hvaða tryggingu þarf ég að veita fyrir láninu?

Aðeins er lánað gegn íbúðarhúsnæði á Íslandi í eigu lántaka. 

Áhvílandi uppreiknaðar veðskuldir að viðbættu láni sjóðsins, mega við lánveitingu ekki vera umfram 70% af verðmæti veðs eins og það er tilgreint í grein þessari. 

Ef veðsetning vegna lántöku eða veðflutnings lána hjá sjóðnum er umfram 65% er almennt gerður áskilnaður um að veðsetning til þriðja aðila (annars en Lífeyrissjóðs verzlunarmanna) nemi ekki hærra hlutfalli en 20% af metnu virði veðsins. 

Veðsetning skal reiknuð út frá söluverði samkvæmt kaupsamningi þegar um lánveitingar í tengslum við fasteignaviðskipti er að ræða. Annars skal miða við gildandi fasteignamat. 

Hver er hámarks- og lágmarksfjárhæð láns?

Hámarksfjárhæð sjóðfélagaláns til einstaklings, hjóna eða sambúðarmaka er kr. 75.000.000.

Lágmarksfjárhæð láns er kr. 1.000.000.

 

Hvert er hámarksveðhlutfall láns?

Að hámarki er lánað 70% af fasteignamati eða kaupverði eignar ef um er að ræða fasteignakaup. Ekki er miðað við verðmat.

Ef hlutfall lána frá öðrum lánastofnunum er umfram 20% af veðrými, þá er hámarks veðsetning 65% af fasteignamati eða kaupsamningsverði, ef um er að ræða fasteignakaup.

Ef áhvílandi uppreiknaðar veðskuldir að viðbættu láni sjóðsins eru hærri en hámarkslán hjá sjóðnum þá er lagt mat á það út frá hagsmunum sjóðsins, þrátt fyrir reglur um veðsetningarhlutfall.

Hver er hámarkslánstími?

Val er um lánstíma frá 5 árum til 40 ára.

Fjöldi gjalddaga er 12 á ári.

Hvað þýðir að lán sé með jöfnum afborgunum?

Þegar lán er með jöfnum afborgunum þá er greitt jafnt af höfuðstól allan tímann. Mánaðarleg greiðslubyrði er því hærri í upphafi, en fer svo lækkandi þar sem að vaxtabyrði minnkar. Eignamyndun er hraðari.

Hvað þýðir að lán sé með jöfnum greiðslum (annuitet)?

Þegar lán er með jöfnum greiðslum þá er mánaðarleg greiðslubyrði jöfn út lánstímann (ef lánið er verðtryggt þá hækkar hún). Mánaðarlegar greiðslur eru því lægri í upphafi, en eignamyndun er hægari.

Hvernig finn ég út hver greiðslubyrði láns verður?

Lánareiknivélin reiknar úr greiðslubyrði láns og hvernig greiðslur skiptast á lánstímanum.

Get ég fengið lán út á eign sem annar en maki á með mér?

Ef annar aðili en maki, sem er giftur eða í staðfestri sambúð með lántaka, á eignarhlut með lántaka er ekki hægt að fá lán út á þá eign.

Þarf maki minn að gerast samskuldari?

Já, í þeim tilvikum ef hann á fasteignina sem boðin er fram sem veð í heild eða hluta á móti lántaka. Einnig þarf maki að gerast samskuldari ef hann er greiðslumetinn ásamt lántaka.

Get ég greitt upp lán eða inn á höfuðstól?

Já, lán má greiða upp hvenær sem er án nokkurs kostnaðar.

Vinsamlega setjið lánsnúmer í skýringu greiðslu / tilvísun.
Greiða má inn á reikning 0515-26-010200 kt: 430269-4459.

Get ég fengið lánsveð?

Nei, lánsveð eru ekki í boði.

Hvað gerist með vexti óverðtryggðra lána þegar 3 ára vaxtatímabili lýkur?

Tilkynning er send viðkomandi aðila að minnsta kosti 30 dögum áður en vaxtabreyting á sér stað sbr. við 35. gr. laga nr. 118/2016 um fasteignalán til neytenda.  Ef þú aðhefst ekkert festast vextir á láninu þínu aftur til þriggja ára og þá á þeim kjörum sem eru í boði á slíkum lánum á þeim tíma, en upplýsingar um vaxtakjör á hverjum tíma má nálgast á vefsíðu sjóðsins. Þú hefur jafnframt val um að færa þig í verðtryggt lán á þessum tíma án lántökugjalds.

Hvað gerist með vexti verðtryggðra lána þegar 5 ára vaxtatímabili lýkur?

Tilkynning er send viðkomandi aðila að minnsta kosti 30 dögum áður en vaxtabreyting á sér stað sbr. við 35. gr. laga nr. 118/2016 um fasteignalán til neytenda. Ef þú aðhefst ekkert festast vextir á láninu þínu aftur til fimm ára og þá á þeim kjörum sem eru í boði á slíkum lánum á þeim tíma, en upplýsingar um vaxtakjör á hverjum tíma má nálgast á vefsíðu sjóðsins.

Er greiðslumat frá öðrum en Lífeyrissjóði verzlunarmanna tekið gilt?

Nei eingöngu greiðslumat frá Lífeyrissjóði verzlunarmanna er tekið gilt. Áður en samningur um fasteignalán er gerður skal meta lánshæfi og greiðslumat allra umsækjanda.

Um lánshæfismat og greiðslumat er vísað til 6. tl. og 15. tl. 1. mgr. 4. gr., 20. gr., 22. gr., 23. gr. og 24. gr. laga nr. 118/2016 um fasteignalán til neytenda.

Get ekki fengið lán ef tekjur mínar eru í erlendum gjaldmiðli?

Það er ekki hægt að taka mið af erlendum tekjum í greiðslumati.

Ef þú ert einnig með launatekjur í íslenskum krónum, getur greiðslumat grundvallast á þeim tekjum, til samræmis við gjaldmiðil lánsins.

Umsækjandi verður að hafa lögheimili á Íslandi.