Fara á efnissvæði

Sláðu inn leitarorð

Ævilangur lífeyrir

Þú ávinnur þér tryggingu fyrir ævilöngum mánaðarlegum lífeyrisgreiðslum frá því að taka lífeyris hefst. Greiðslur eru verðtryggðar og endast ævina á enda.

Við greiðum öll hlutfall af launum okkar í lífeyrissjóð til 70 ára aldurs í formi iðgjalda og fáum í staðinn tryggingu fyrir verðtryggðum mánaðarlegum lífeyrisgreiðslum ævina á enda.

Greiðslur

Þú ávinnur þér rétt til ákveðinnar fjárhæðar ævilangs lífeyris en fjárhæð lífeyrisins ræðst af því:

 • hversu mikið þú hefur greitt til sjóðsins um ævina
 • þróun á ávöxtun sjóðsins
 • þróun á lífslíkum sjóðfélaga

Greiðslur ævilangs lífeyris eru verðtryggðar.

Hvernig virka réttindi?

Launagreiðandi þinn greiðir iðgjöldin sem réttindi þín byggja á. Þitt framlag er 4% en 11,5% er greitt af launagreiðandanum.

Því fyrr sem þú byrjar að greiða í lífeyrissjóð, því hærri verða lífeyrisgreiðslurnar við starfslok vegna þess að iðgjöldin ávaxtast lengur.

Upp úr fertugu er fjárhagstaða okkar oft orðin betri en þegar við erum yngri og börnin orðin stærri. Þá gæti verið skynsamlegt að ráðstafa hluta af iðgjöldunum í tilgreinda séreign.

Hvernig virka aldurstengd réttindi?

Þegar þú safnar réttindum þá færð þú mest fyrir hvern þúsundkall þegar þú ert yngri. Til dæmis færðu 2.773 kr. í árleg réttindi fyrir hverja 10.000 kr. greiðslu til sjóðsins þegar þú ert 18 ára. Þegar þú ert 45 ára færðu 1.101 kr. fyrir sömu greiðslu. 

Réttindatafla

Mikilvægt að fylgjast með iðgjöldunum

Mikilvægt er að fylgjast með að iðgjöld þín skili sér til sjóðsins. Þú getur ávallt skoðað greiðslur og réttindi á Mínum síðum en þar færðu einnig rafræn yfirlit yfir stöðuna tvisvar á ári. Ef þú hefur skráð netfang þitt færðu ábendingu um nýtt yfirlit. 

Sé misbrestur á skilum iðgjalda hafðu samband sem fyrst og við leitum skýringa.

Úttekt frá 60 ára aldri

Almennur eftirlaunaaldur miðast við 67 ár sem má kalla núllpunkt. Þú hefur þó val um að byrja á hálfum eða fullum lífeyri frá 60 ára og allt til 80 ára aldurs. Þú færð lægri mánaðarlegar greiðslur ef þú byrjar úttekt fyrir 67 ára og hærri mánaðarlegar greiðslur ef úttekt hefst eftir 67 ára. 

Mikilvægt er að kanna réttindi sín hjá TR því þau skipta máli þegar ákvörðun er tekin um lífeyristöku.

Algengar spurningar um ævilangan lífeyri

Hvenær get ég byrjað að taka út?

Þú getur valið að hefja töku lífeyris frá 60 ára aldri og allt til 80 ára aldurs.  Þegar þú hefur ákveðið að hefja töku lífeyris sækir þú um og færð fyrstu lífeyrisgreiðsluna síðasta virka dag þess mánaðar sem þú velur.

Athugaðu að sækja þarf um fyrir 20. hvers mánaðar til að fá greitt í lok sama mánaðar en þú getur líka sótt um fram í tímann. 

Hvaða áhrif hefur hvenær ég byrja á lífeyri á mánaðarlega upphæð?

Þú átt alltaf sömu réttindin en ef þú byrjar að fá lífeyri fyrir 67 ára viðmiðunaraldurinn þá verður mánaðarleg upphæð lægri því gera þarf ráð fyrir því að þú fáir greitt í hverjum mánuði í lengri tíma. 

Með sama hætti þá hækkar mánaðarleg greiðsla þeirra sem fresta lífeyristöku fram yfir 67 ára aldur. 

Í meðfylgjandi töflu sjást áhrif á mánaðarlegar greiðslur eftir því hvenær sjóðfélagi byrjar að fá greiddan lífeyri. Taflan miðast við spár um ævilengd Íslendinga hverju sinni og getur því tekið breytingum.

Aldur við upphaf eftirlauna Breyting mánaðargreiðslu
60 ára 36,2% lægri greiðsla
65 ára 12,8% lægri greiðsla
67 ára -
68 ára 7,4% hærri greiðsla
69 ára 15,6% hærri greiðsla
70 ára 24,7% hærri greiðsla
75 ára 90,5% hærri greiðsla
80 ára 222,9% hærri greiðsla

*Töfluna er að finna í samþykktum LV og ganga þær framar ef þeim ber ekki saman við þennan texta.

Oft vaknar sú spurning hjá fólki sem er að komast á lífeyrisaldur hvenær hagstæðast sé að hefja lífeyristöku. Það veit enginn fyrr en yfir lýkur því það ræðst af lífaldri hvers og eins, þ.e. hvort þú lifir lengur eða skemur en meðallífaldur.

Þetta er háð fleiri forsendum í ákvarðanatökunni, s.s. samspil skatta og annarra tekna við úttekt, heilsufar og fleira. Það er því þitt að meta hvað best er fyrir þig. Ef þú vilt skoða möguleikana hafðu samband við ráðgjafa okkar.  

Hálfur lífeyrir 50%

Þú getur valið að byrja að fá hálfan lífeyri frá 60 ára aldri.

 • Helmingurinn sem þú byrjar að fá greiddan verður þá föst upphæð sem breytist mánaðarlega í takt við vísitölu neysluverðs (verðtrygging).
 • Sá hluti sem þú frestar tekur þá breytingum samkvæmt samþykktum hvers tíma. 

Athugaðu að hægt er að sækja um hálfan lífeyri frá TR frá 65 ára aldri. Nánar á vef TR

 

Borga ég skatt af lífeyrisgreiðslum?

Já, lífeyrisgreiðslur eru skattskyldar með sama hætti og almennar launatekjur. Þú þarft því að gera ráð fyrir að greiða skatt af þeim tekjum sem þú færð frá sjóðnum eftir því skattþrepi sem þú ert í.

Á vef Skattsins er reiknivél sem áætlar skattgreiðslur af tekjum sem gott er að skoða. 

Sjóðurinn sér um að skila staðgreiðslu af lífeyrisgreiðslum til skattayfirvalda. Skattkort eru rafræn og nauðsynlegt er að láta vita hversu hátt hlutfall af skattkorti þú vilt nýta hjá sjóðnum.

Persónuafsláttur

Skattkort lækkar skattinn því það veitir rétt til persónuafsláttar á staðgreiðsluári.  Eigi lífeyrisþegi ónýttan persónuafslátt er mikilvægt að láta sjóðinn vita.

Lífeyrisþegar geta nýtt allt að 100% af ónýttu skattkorti maka til skattalækkunar.

Við fráfall maka geta lífeyrisþegar nýtt skattkort makans í 9 mánuði frá og með andlátsmánuði.

Get ég fengið eingreiðslu á lífeyri?

Ef mánaðargreiðsla ævilangs lífeyris er undir kr. 6.585 á mánuði m.v. vísitölu neysluverðs í janúar 2024. Upphæðin hækkar í hverjum mánuði m.v. vísitölu neysluverðs. 

Þarf ég að sækja um að fá lífeyrisgreiðslur?

Já, það þarf að sækja sérstaklega um þær. Það er gert rafrænt á mínum síðum og sækja þarf um fyrir 20. hvers mánaðar til að fá greitt í lok sama mánaðar. Þar getur þú valið hvort þú óskar eftir greiðslu frá öðrum sjóðum líka, valið rétt skattþrep og fleira. 

Verð ég að sækja um ævilangan lífeyri í lífeyrissjóðum þegar ég byrja á lífeyri hjá TR?

Já, samkvæmt lögum ber þér að sækja fyrst um í lífeyrissjóðum áður en þú sækir um hjá TR. Ef þú átt rétt á eingreiðslum í einhverjum lífeyrissjóðum borgar sig að taka þær fyrst út áður en þú sækir um hjá TR. Þegar réttindi eru lítil hjá tilteknum sjóði  er oft í boði að fá þau greidd út með eingreiðslu.

Þarf ég að sækja um lífeyri hjá öllum lífeyrissjóðum sem ég hef greitt til?

Í umsókn um ævilangan lífeyri getur þú valið hvort þú vilt að við sendum hana áfram til afgreiðslu hjá öðrum sjóðum sem þú hefur greitt til. Greiðslurnar koma þó alltaf frá hverjum sjóði fyrir sig. Þó greiðir Greiðslustofa lífeyrissjóða fyrir nokkra sjóði í einu.

Hvernig kemst ég að því hvað ég mun fá í lífeyri?

Besta leiðin er að skrá sig inn á mínar síður og skoða lífeyrisáætlun. Þar getur þú valið mismunandi forsendur og séð hver áætluð greiðsla verður. Þar geturðu líka sótt allar upplýsingar um réttindi hjá öðrum sjóðum sem þú hefur greitt í yfir starfsævina. Þannig geturðu stillt upp heildstæðri mynd af lífeyrisgreiðslum og séreign. 

Athugaðu að eingöngu séreign þín hjá LV birtist á mínum síðum en séreignarsparnaður sem þú kannt að eiga hjá öðrum þarf að skrá inn handvirkt í lífeyrisáætlun. 

Önnur góð leið er að fara inn á mínar síður og skoða yfirlit sem þú hefur fengið inn í skjalasafnið þitt. Þar er bæði staða áunninna réttinda og áætlaðar útgreiðslur miðað við upphaf lífeyris á mismunandi aldri. 

Erfist ævilangi lífeyririnn minn?

Réttindi þín sem slík erfast ekki. Hins vegar er rík fjárhagsleg vernd fyrir fjölskylduna ef þú fellur frá. Greiddur er makalífeyrir í að lágmarki 5 ár en hann er oft greiddur lengur eða þar til yngsta barn nær 23 ára aldri. Þá er barnalífeyrir greiddur fyrir hvert barn fram að 20 ára aldri þess. 

Þannig er verndin mest fyrir þá sem eiga ung börn og mestu skiptir fyrir fjölskylduna að hafa fjárhagslegt öryggi. 

 

Hvað ef ég bý erlendis?

Á hverju ári þurfa þeir sem búa erlendis og fá greiddan lífeyri frá sjóðnum að senda lífsvottorð. Viðeigandi yfirvöld á hverjum stað; þjóðskrá, bæjarskrifstofur, skattstofa eða aðrir opinberir aðilar gefa út slíkt vottorð. Það þarf að berast sjóðnum fyrir 15. maí ár hvert. 

Sjóðfélagar sem búa erlendis þurfa að koma upplýsingum um netfang sitt til sjóðsins eða skrá það inn á Mínar síður.

Hvernig er skattlagning lífeyris ef ég bý erlendis?

Ef lífeyrisþegi býr í landi sem Ísland hefur gert tvísköttunarsamning við og samningurinn kveður á um að lífeyristekjur eigi að skattleggja í búseturíki, þarf hann að sækja um undanþágu frá greiðslu skatta árlega á heimasíðu Skattsins.

Lífeyrissjóðnum ber að halda eftir staðgreiðslu nema samþykkt undanþága liggi fyrir.

Norðurlönd

Samkvæmt tvísköttunarsamningi Norðurlandanna skal lífeyrir skattlagður í því landi sem hann er greiddur. Allur lífeyrir sem aðilar búsettir á Norðurlöndunum fá héðan er samkvæmt því skattlagður á Íslandi og aldrei gefnar út undanþágur.

Lífeyrissjóðnum ber samkvæmt því að halda eftir staðgreiðslu en persónuafsláttur miðast við greiðslutíma. Ef um eingreiðslu er að ræða fær viðkomandi persónuafslátt miðað við greiðslumánuðinn (engin uppsöfnun).

Skerða laun lífeyri?

Nei, laun hafa ekki áhrif á ævilangan lífeyri. Þetta er réttur, sem sjóðfélaginn hefur áunnið sér með iðgjöldum sínum og tryggir honum ævilangan lífeyri, óháð tekjum. Þetta er stjórnarskrárvarinn eignarréttur sem er einnig varinn gegn aðför að lögum eins og fjárnámi.

Get ég haldið áfram að vinna eftir að ég byrja á lífeyri?

Já, lífeyrir er endurreiknaður í mánuðinum sem þú átt afmæli og þeim réttindum bætt við sem hafa bæst við eftir að þú hófst lífeyristöku. 

Eru mismunandi reglur í lífeyrissjóðum?

Já, samþykktir eru mismunandi en samþykktir eru reglurnar sem sjóðirnir vinna eftir. Almennt miða sjóðir við lífeyri frá 67 ára aldri. Blandaðir sjóðir eða svokallaðir séreignarsjóðir miða hins vegar við 70 ára aldur Almennt má segja að með aukinni séreign verða réttindi til ævilangs lífeyris og áfallaverndar rýrari á móti.

Réttindi til áfallaverndar, örorku-, maka- og barnalífeyris eru líka mjög mismunandi. Ákveðin lágmarksréttindi eru tryggð í lögum en samþykktir sjóða bæta mismiklu við. Lífeyrissjóður verzlunarmanna veitir áfallavernd í fremstu röð sjóða.

Hvaða lög gilda um skiptingu réttinda?

Skipting lífeyrisréttinda byggir á heimild í 3. mgr. 14. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og 12. greinar samþykkta Lífeyrissjóðs verzlunarmanna.

Getur maki fengið hluta réttinda minna til ævilangs lífeyris?

Já, hjónum og sambúðarfólki er heimilt að gera samning um skiptingu áunninna réttinda og framtíðarréttinda.  Eins er hægt að gera samkomulag um skiptingu lífeyrisgreiðslna eftir að taka lífeyris er hafin.

Skiptingu réttinda þarf að skoða mjög vel svo báðir aðilar séu vel upplýstir um áhrifin. Við hvetjum alla sem vilja kanna hvort skipting réttinda henti þeim að koma í viðtal til ráðgjafa okkar. 

Hvað gerist við skilnað eða andlát?

Samkomulag um skiptingu áunnins ævilangs lífeyris (ellilífeyrisréttinda) hefur eftirfarandi í för með sér:

 • Við skilnað er tryggt að áunninn ævilangur lífeyrir komi til skipta.
 • Við andlát sjóðfélaga heldur eftirlifandi maki skiptum réttindum, auk þess sem maki fær greiddan makalífeyri út á áunnin og framreiknuð réttindi sjóðfélagans eins og ekki hefði komið til skiptingarinnar.
 • Áfallaverndin (örorkulífeyrir, makalífeyrir, barnalífeyrir) er ennþá til staðar hjá sjóðfélaga eftir skiptinguna. Verði sjóðfélagi öryrki eftir að lífeyrisréttindum til ævilangs lífeyris hefur verið skipt, fær hann því samt sem áður örorkulífeyri eins og ekki hefði komið til skiptingarinnar.
 • Sá sem fær réttindin til ævilangs lífeyris frá sjóðfélaga öðlast ekki rétt til örorku- eða barnalífeyris út á þau réttindi. 

Hvernig get ég kynnt mér áhrif skiptingar réttinda nánar?

Við hvetjum þig til að skoða reiknivélina okkar um áhrif skiptingar réttinda. Þar má skoða megináhrif af slíku samkomulagi en við hvetjum alla til að skoða málið með ráðgjafa okkar áður en ákvörðun er tekin. 

Til að sjá heildarmyndina þarf að skoða skiptingu í öllum sjóðum sem báðir aðilar eiga inneign í.

Hvaða reglur gilda um skiptingu réttinda hjóna/sambúðaraðila?

Öllum er heimilt að skipta lífeyrisréttindum sínum með maka sínum eða sambúðarmaka með samkomulagi. Skiptingin felur í sér gagnkvæma og jafna skiptingu, sem þýðir að hvor aðilinn fyrir sig skal veita hinum sama hlutfall lífeyrisréttinda sinna. Skiptingin er óafturkræf og felur í sér að hvor maki fyrir sig öðlast sjálfstæð réttindi og skerðast þá réttindi sjóðfélagans sem nemur aukningu maka.

Samkomulag um skiptingu réttinda þarf að vera gert áður en lífeyristaka hefst og áður en sá maki sem er eldri er orðinn 65 ára gamall. Þá er krafist læknisvottorðs um að sjúkdómar eða heilsufar dragi ekki úr lífslíkum sjóðfélaga og maka hans.

Athugaðu að eingöngu má skipta þeim réttindum sem myndast meðan á hjónabandi eða sambúð stendur.

Fyrir hvaða tímabil má skipta réttindum?

Skipting miðast við tímabil sambúðar/hjúskaps samkvæmt staðfestingu frá Þjóðskrá. Einungis má skipta réttindum sem myndast meðan á hjónabandi eða sambúð stendur. 

Samning um skiptingu áunninna réttinda þarf að gera fyrir 65 ára aldur þess maka sem eldri er. Eftir skiptinguna, verða lífeyrisréttindi beggja aðila sjálfstæð og fær hvor aðili greiddan lífeyri til æviloka.

 • Áunnin réttindi 
 • Verður að gerast fyrir 65 ára aldur
 • Verður að gerast áður en lífeyristaka hefst

Get ég greitt félagsgjald VR af ævilöngum lífeyri?

Ekki er hægt að greiða félagsgjald af ævilöngum lífeyri. 

Þeir sjóðfélagar sem greitt hafa til VR í 5 ár áður en þeir fara á ævilangan lífeyri eru fullgildir félagar í VR samkvæmt nánari upplýsingum á vef VR. Við hvetjum sjóðfélaga til að kynna sér nánar rétt sinn hjá VR.  

Endurgreiðsla iðgjalda til erlendra ríkisborgara þegar flutt er frá Íslandi

Heimilt er að endurgreiða iðgjöld erlendra ríkisborgara þegar þeir flytja frá Íslandi að því gefnu að það sé ekki bannað samkvæmt milliríkjasamningum sem Ísland er aðili að.

Ísland er nú þegar með milliríkjasamninga við yfir þrjátíu ríki. Þau eru Bandaríkin, Kanada og EES ríkin, auk Sviss þ.e. öll EFTA- og ESB ríkin.

 • EFTA ríkin eru Ísland, Noregur, Liechtenstein og Sviss.
 • ESB ríkin eru Austurríki, Belgía, Búlgaría, Danmörk, Eistland, Finnland, Frakkland, Grikkland, Holland, Írland, Ítalía, Króatía, Kýpur (gríski hlutinn), Lettland, Litháen, Lúxemborg, Malta, Portúgal, Pólland, Rúmenía, Slóvakía, Slóvenía, Spánn, Svíþjóð, Tékkland. Ungverjaland, Þýskaland.

Sá sem er með ríkisborgararétt í einhverju af þessum ríkjum getur ekki sótt um endurgreiðslu iðgjalda vegna flutninga frá Íslandi.

Ef einstaklingur er með ríkisfang í tveimur eða fleiri löndum er ekki heimilt að endurgreiða iðgjöld nema bæði eða öll ríkisföng séu utan þessara ríkja.

Sérreglur gilda um breska ríkisborgara þar sem iðgjöld frá 1.janúar 2021 má endurgreiða en iðgjöld fyrir þann tíma þegar Bretland var enn hluti af ESB má ekki endurgreiða.

Hvernig sæki ég um endurgreiðslu iðgjalda erlends ríkisborgara við flutning frá Íslandi?

Fylltu út umsókn og skilaðu til sjóðsins ásamt meðfylgjandi upplýsingum: 

 1. Staðfestingu síðasta launagreiðanda á lokum ráðningarsambands. 
 2. Afrit af vegabréfinu þínu. 
 3. Afrit af farmiða til heimalands eða sambærilegt. 
 4. Afrit af síðasta launaseðli. 
 5. Númer á bankareikningi þínum á Íslandi.  

Ég er komin á lífeyri og er mjög ánægð með þjónustuna. Vona bara að sjóðurinn eflist og nái að sinna sínu hlutverki um ókomna tíð.

Úr könnun meðal sjóðfélaga

Umsóknir ævilangs lífeyris

Hér finnur þú umsóknir tengdar ævilöngum lífeyri. Umsóknir eru rafrænar og krefjast innskráningar með rafrænum skilríkjum. 

Veldu umsókn

Error
Umsókn