Fara á efnissvæði

Sláðu inn leitarorð

Ertu að kaupa fyrstu íbúðina?

Vissir þú að séreignarsparnaður þinn getur hjálpað þér til við að fjármagna þína fyrstu íbúð - og það skattfrjálst!

LIV Lifeyrissjodur Verzlunarmanna Myndabanki 7 0223 LIV Lifeyrissjodur Verzlunarmanna Myndabanki 7 0223

Auðveldaðu íbúðakaupin 

Allir þeir sem eiga séreignarsparnað og eru að kaupa eða byggja íbúðarhúsnæði geta nýtt uppsafnaðan séreignarsparnað til útborgunar á fyrstu íbúðarkaupum upp að vissu marki. Þá er einnig hægt að nýta séreign til að greiða inn á lán og/eða lækka mánaðarlega afborgun. 

Helstu atriði til að hafa í huga:

 • Hægt er að greiða niður lán eða lækka mánaðarlega afborgun.
 • Úrræðið varðar kaup á fyrstu íbúð eða ef þú hefur ekki átt íbúðarhúsnæði í fimm ár.
 • Samningur um séreignarsparnað þarf að vera fyrir hendi.
 • Þú þarft að að eiga að minnsta kosti 30% eignarhlut í eigninni.
 • Þú getur nýtt að hámarki 500.000 kr. á ári í samfellt 10 ár.

Góður kostur en hentar ekki öllum 

Hugmyndin að baki séreignarsparnaði er að minnka tekjufall sem verður hjá flestum við töku lífeyris. Ef þú ráðstafar séreign inn á lán lækkar séreignin sem þú hefur til útgreiðslu eftir 60 ára aldur. Á móti kemur að skattfrjáls niðurgreiðsla lána eykur eigið fé þitt hraðar í húseigninni sem lækkar afborganir á efri árum. Mikilvægt er að halda áfram að spara reglulega til að eiga fyrir lífinu eftir vinnu.

Rétt er að benda á að séreignarsparnaður er ekki aðfararhæfur, sem þýðir til dæmis að ekki er hægt að ganga að honum í tilfelli gjaldþrots. 

Jenný Jóhannsdóttir Jenný Jóhannsdóttir

Jenný Ýr Jóhannsdóttir

lífeyrissvið

Það er erfitt að finna hagkvæmari sparnað en séreignarsparnað þar sem þú færð strax mótframlag frá launagreiðanda sem jafngildir frá 50-100% ávöxtun. Að geta nýtt sparnaðinn skattfrjálst til að eignast eigið húsnæði er svo enn meiri ávinningur.

Greitt Inn Á Lán

Byrjaðu að spara í séreign!

Það er einfalt að stofna séreignarsparnað hjá okkur. Skráðu þig inn á Mínar síður með rafrænum skilríkjum og við látum launagreiðandann vita.

Gera samning um séreignarsparnað

Spurt og svarað um fyrstu kaup og séreignarsparnað

Hvar sæki ég um?

Þú sækir um á vef skattsins. Í umsókninni þarftu að tilgreina hjá hverjum sparnaðurinn er (vörsluaðili), hvar lánið þitt er og hvert upphafstímabil á að vera. 

Skoðaðu vel hvaða upphafstímabil þú velur. Það getur verið óhagkvæmt að velja að nýta séreignarsparnað sem safnaðist á tímabili sem  þú varst ekki í fullri vinnu því þá nærðu ekki að fullnýta heimildina, sem er 500.000 kr á ári.

Þetta er einstaklingsúrræði og þarf því hver og einn að sækja um fyrir sig, hvort sem hann er í hjúskap, sambúð eða einhleypur.

Ég er ekki með séreignarsparnað, hvað get ég gert?

Fyrsta skrefið er að gera samning um séreignarsparnað hér á síðunni og sækja svo um á vef Skattsins.

Kostar þjónustan mig eitthvað?

Nei, Lífeyrissjóður verzlunarmanna annast umsýslu við að greiða inn á lán án kostnaðar fyrir sjóðfélaga og án nokkurra takmarkana annarra en lagaheimilda. 

Við hvetjum þá sem eru að skoða þennan kost og eru með séreignarsparnað hjá öðrum vörsluaðila til að kanna sérstaklega hvort þeirra vörsluaðili innheimtir kostnað eða setur takmörk á notkun séreignar en það er raunin hjá sumum erlendum aðilum.

Get ég nýtt tilgreinda séreign?

Já, með breytingu á lögum um lífeyrissjóði í janúar 2023 er hægt að nýta tilgreinda séreign við fyrstu kaup að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

 • Ef þú ert að greiða í séreignarsparnað þarft þú fyrst að nýta hann áður en þú nýtir tilgreindu séreignina.

 • Tilgreind séreign er að jafnaði greidd með eingreiðslu í lok hvers almanaksárs, eða þegar liggur fyrir hversu há upphæð hefur verið nýtt með séreignarsparnaði. 

 • Hægt er að nýta iðgjöld tilgreindrar séreignar sem greidd hafa verið frá og með 1. janúar 2023.

Ég hef átt íbúð en ekki síðastliðin fimm ár, get ég nýtt séreignarsparnaðinn minn?

Já, þú getur nýtt séreignarsparnað þinn ef þú hefur ekki átt íbúðarhúsnæði síðastliðin fimm ár áður en þú sækir um ef:

 • þú hefur ekki áður fullnýtt skattfrjáls úrræði um ráðstöfun séreignarsparnaðar.

 • þú hefur ekki hærri tekjuskattsstofn að meðtöldum heildarfjármagnstekjum en 12.481.272 kr. fyrir árið 2022. 

 • hvorki þú né samskattaður maki þinn hafið verið eigendur að íbúðarhúsnæði.