Fara á efnissvæði

Sláðu inn leitarorð

Greinar 16-25. greiðslur, séreignardeildir, breytingar samþykkta og gildistaka

16. Tilhögun lífeyrisgreiðslna

16.1. Umsókn um lífeyri skal vera á því formi sem lífeyrissjóðurinn ákveður.

16.2. Lífeyrir greiðist mánaðarlega eftir á.

16.3. Lífeyrir skal greiddur fyrir þann mánuð, sem réttur til hans stofnast, og fyrir þann mánuð, sem réttur til hans fellur úr gildi.

16.4. Örorku- og makalífeyri skal ekki greiða lengur aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn barst sjóðnum. Greiðslur samkvæmt þessu ákvæði skulu vera á verðlagi hvers tíma. Vextir greiðast ekki á lífeyrisgreiðslur. Ellilífeyrir er greiddur eftir að umsókn berst til sjóðsins og greiðist ekki aftur í tímann. Hafi ekki borist umsókn um ellilífeyri við 70 ára aldur sjóðfélaga skal senda bréf til sjóðfélaga með upplýsingum um lífeyrisrétt.

16.5. Lífeyrir greiðist lífeyrisþeganum (sbr. þó gr. 15.5.) eða þeim, sem hann veitir til þess skriflegt umboð.

16.6. Lífeyrisgreiðslur, sem ekki er vitjað innan fjögurra ára, renna til sjóðsins. 

16.7. Nú nær lífeyrisgreiðsla ekki fjárhæð, er svarar til a.m.k 5.576 kr. á mánuði og er þá heimilt að inna greiðsluna af hendi í einu lagi. Fjárhæðin breytist mánaðarlega í samræmi við breytingu á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar miðað við 513,0 stig í janúar 2022. 

17. Endurgreiðsla iðgjalda

17.1. Heimilt er skv. umsókn að endurgreiða iðgjöld erlendra ríkisborgara sem hverfa úr sjóðnum vegna brottflutnings úr landi, enda sé slík endurgreiðsla ekki óheimil samkvæmt milliríkjasamningum, sem Ísland er aðili að eða viðkomandi hafi verið íslenskur ríkisborgari þegar réttindin urðu til. Heimilt er að draga frá endurgreiddu iðgjaldi að viðbættum vöxtum kostnað vegna tryggingaverndar, sem sjóðfélaginn hefur notið, og kostnað vegna umsýslu samkvæmt forsendum tryggingastærðfræðings. Óheimilt er að endurgreiða iðgjöld ríkisborgara annarra ríkja Evrópska efnahagssvæðisins (EES) skv. gildandi milliríkjasamningum.

17.2. Hafi iðgjöld verið endurgreidd, fellur niður sá lífeyrisréttur, sem grundvallaðist á þeim.

18. Samningar um gagnkvæm réttindi, o.fl.

18.1. Heimilt er stjórn sjóðsins að gera samninga við aðra lífeyrissjóði um tilhögun réttindaflutnings o.fl. Í slíkum samningum má víkja frá biðtíma og bótaákvæðum samþykkta þessara í því skyni að koma í veg fyrir niðurfall réttinda, þegar sjóðfélagi skiptir um starf, og tvítryggingu réttinda, sem ekki miðast við liðinn iðgjaldagreiðslutíma. Ennfremur er þar heimilt að ákveða, að sjálfstæð réttindi í einstökum sjóðum skuli samanlagt ekki vera meiri en
heildarréttindin mundu verða hjá einum og sama sjóði. Slíkir samningar eru þó ekki bindandi fyrir sjóðinn fyrr en þeir hafa hlotið samþykki VR og þeirra samtaka atvinnurekenda, sem að sjóðnum standa, sbr. 2. mgr. 2. gr.

18.2. Stjórn sjóðsins skal heimilt, að fengnu samþykki aðildarsamtaka sjóðsins, að yfirtaka eignir og skuldbindingar annarra lífeyrissjóða, enda séu tryggingafræðilegir útreikningar lagðir til grundvallar við yfirtökuna.

19. B-deild – séreignardeild

Samningur - endurgreiðsla 

19.1. Þeir, sem óska eftir aðild að B-deild, sbr. gr. 4.8., skulu gera um það skriflegan samning við sjóðinn samkvæmt ákvæðum laga nr. 129/1997, reglugerðar nr. 391/1998 og reglugerðar nr. 698/1998.

19.2. Samningi skv. gr. 19.1. er hægt að segja upp með tveggja mánaða fyrirvara. Samningi má segja upp ef rétthafi skv. samningnum hættir því starfi, sem var forsenda fyrir greiðslu hans til B-deildar. Uppsögn slíks samnings veitir ekki rétt til útborgunar innstæðu eða réttinda. Óski rétthafi þess er heimilt að gera samning um flutning innstæðu eða réttinda eftir uppsögn til aðila, sem heimild hefur skv. lögum nr. 129/1997 til að taka við séreignarsparnaði og gera samning þar um. 

19.3. Inneign rétthafa í B-deild greiðist út samkvæmt eftirfarandi reglum þó aldrei fyrr en tveimur árum eftir fyrstu greiðslu iðgjalds.

19.3.1. Lífeyrisgreiðslur úr B-deild geta hafist þegar rétthafi er orðinn 60 ára, heimilt er að greiða út lífeyrissparnað ásamt vöxtum hvort heldur sem er í eingreiðslu eða jöfnum greiðslum.

19.3.2. Verði rétthafi öryrki og orkutapið sem hann verður fyrir er metið 100% af trúnaðarlækni sjóðsins á hann rétt á að fá inneign sína í B deild greidda út með jöfnum árlegum greiðslum á sjö árum eða á þeim tíma sem vantar uppá 60 ára aldur. Nú er örorkuprósentan lægri en 100% og lækkar þá árleg útborgun í hlutfalli við lækkun örorkuprósentunnar og úttektartíminn lengist samsvarandi. Óski rétthafi þess er heimilt að víkja frá fyrrgreindum útgreiðslutíma ef innstæðan er undir 1.478.386 kr. Fjárhæðin breytist í byrjun hvers árs í samræmi við breytingu á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar miðað við 513,0 stig í janúar 2022.

19.3.3. Við andlát rétthafa, sem á inneign á séreignarreikningi í B-deild, greiðist inneign hans til erfingja hans og skiptist milli þeirra eftir reglum erfðalaga um lögerfðir. Láti rétthafi ekki eftir sig börn eða maka, skal innstæðan renna til dánarbús rétthafa án takmarkana samanber 2. málslið 2. mgr. 8. gr. laga nr. 129/1997.

19.4. Stjórn sjóðsins er heimilt að bjóða upp á fleiri en eina ávöxtunarleið í B-deild og móta sérstaka fjárfestingarstefnu fyrir hverja einstaka ávöxtunarleið í samræmi við ákvæði 36. gr. laga nr. 129/1997, sem rétthafi getur valið um í samningi sínum við sjóðinn. Bjóði sjóðurinn upp á fleiri en eina ávöxtunarleið fyrir séreignardeild getur sjóðfélagi óskað eftir flutningi á milli ávöxtunarleiða eftir þeim reglum sem stjórn sjóðsins setur.

20. C-deild – tilgreind séreign

Samningur - endurgreiðsla

20.1. Sjóðfélaga er heimilt að ráðstafa allt að 3,5% iðgjaldi af iðgjaldsstofni umfram 12% af iðgjaldsstofni í tilgreinda séreign sem vistað skal í C-deild, enda sé gert ráð fyrir slíku í kjarasamningi eða ráðningarsamningi. Fram til 1. júlí 2018 skal 3,5% viðmiðið í 1. málslið þessarar greinar vera 2%.

20.2. Þeir, sem óska eftir aðild að C-deild, sbr. gr. 4.8., skulu tilkynna það til sjóðsins með sannanlegum hætti eftir þeim reglum sem sjóðurinn setur í samræmi við ákvæði gildandi laga og reglugerða. Sjóðfélagar geta með sama hætti tilkynnt um að þeir óski þess að láta af greiðslum til tilgreindrar séreignar að hluta eða fullu og rennur iðgjaldið þá eftirleiðis til sameignardeildar.

20.3. Lífeyrissjóðurinn skal gera breytingar á ráðstöfun iðgjalds til samræmis við tilkynnta ákvörðun sjóðfélaga, eins fljótt og kostur er og eigi síðar en innan tveggja almanaksmánaða frá því að tilkynning berst með sannanlegum hætti. Ákvörðun um breytingu á ráðstöfun iðgjalds til framtíðar hefur ekki áhrif á þegar ráðstafað iðgjald.

20.4. Inneign rétthafa í C-deild greiðist út samkvæmt eftirfarandi reglum. 

20.4.1. Sjóðfélaga er heimilt að hefja úttekt úr C-deild frá 62ja ára aldri og skulu greiðslur þá dreifast að lágmarki á þann tíma sem hann á eftir fram að 67 ára aldri. Óski rétthafi þess er heimilt að víkja frá fyrrgreindum útgreiðslutíma ef innstæðan er undir 1.478.386 kr. Fjárhæðin breytist í byrjun hvers árs í samræmi við breytingu á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar miðað við 513,0 stig í janúar 2022.

20.4.2. Verði rétthafi öryrki og orkutapið sem hann verður fyrir er metið 100% af trúnaðarlækni sjóðsins á hann rétt á að fá inneign sína í C-deild greidda út með jöfnum árlegum greiðslum á sjö árum eða á þeim tíma sem vantar uppá 60 ára aldur. Nú er örorkuprósentan lægri en 100% og lækkar þá árleg útborgun í hlutfalli við lækkun örorkuprósentunnar og úttektartíminn lengist samsvarandi. Óski rétthafi þess er heimilt að víkja frá fyrrgreindum útgreiðslutíma ef innstæðan er undir 1.478.386 kr. Fjárhæðin breytist í byrjun hvers árs í samræmi við breytingu á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar miðað við 513,0 stig í janúar 2022.

20.4.3. Við andlát rétthafa, sem á inneign á séreignarreikningi í C-deild, greiðist inneign hans til erfingja hans og skiptist milli þeirra eftir reglum erfðalaga um lögerfðir. Láti rétthafi ekki eftir sig börn eða maka, skal innstæðan renna til dánarbús rétthafa án takmarkana samanber 2. málslið 2. mgr. 8. gr. laga nr. 129/1997.

20.5. Stjórn sjóðsins er heimilt að bjóða upp á eina eða fleiri ávöxtunarleiðir í C deild. Móta skal sérstaka fjárfestingarstefnu fyrir hverja einstaka ávöxtunarleið í samræmi við ákvæði 36. gr. laga nr. 129/1997, með síðari breytingum. Ef boðið er upp á fleiri en eina ávöxtunarleið tilkynnir sjóðfélagi um val milli leiða með tilkynningu til sjóðsins á formi sem sjóðurinn ákveður. Bjóði sjóðurinn upp á fleiri en eina ávöxtunarleið fyrir C-deild getur sjóðfélagi
óskað eftir flutningi á milli ávöxtunarleiða eftir þeim reglum sem stjórn sjóðsins setur.

21. Upplýsingaskylda

21.1. Til viðbótar við upplýsingagjöf skv. gr. 10.8 skal einu sinni á ári birta opinberlega með auglýsingu í dagblaði eða á annan skilmerkilegan hátt helstu niðurstöður úr starfsemi sjóðsins, þar sem m.a. komi fram helstu niðurstöður úr rekstri, efnahag og tryggingafræðilegri athugun.

22. Framsal, veðsetning og aðför lífeyris

22.1. Réttur til lífeyris verður eigi af hendi látinn né veðsettur.

22.2. Lífeyrisgreiðslur eru undanþegnar aðför.

22.3. Inneignir í B-deild og C-deild verða hvorki framseldar né veðsettar, hvort heldur sem heild eða hluti þeirra, né ráðstafað á annan hátt en heimilt er samkvæmt samþykktum þessum eða ákvæðum laga nr. 129/1997, með síðari breytingum.

23. Gerðardómur

23.1. Rísi ágreiningur um samþykktir þessar milli samtaka, er að sjóðnum standa, skal vísa honum til gerðardóms, sem skipaður skal þremur mönnum. Ágreiningsaðilar tilnefna hvor um sig einn gerðardómsmann og oddamaður, sem jafnframt er formaður dómsins, skal skipaður af Hæstarétti Íslands.

23.2. Vilji sjóðfélagi ekki una úrskurði stjórnar sjóðsins í máli, er hann hefur skotið til hennar, getur hann vísað málinu til gerðardóms. Skal það gert innan þriggja mánaða frá því tilkynnt var bréflega um úrskurðinn. Gerðardómurinn skal skipaður þremur mönnum, einum tilnefndum af sjóðfélaga, einum af  lífeyrissjóðnum og oddamanni tilnefndum af Hæstarétti Íslands, sem skal vera formaður dómsins. Gerðardómurinn skal úrskurða í málinu á grundvelli þeirra krafna, sönnunargagna, málsástæðna og annarra upplýsinga, sem lágu fyrir sjóðsstjórn, er hún tók ákvörðun sína í málinu.

Komi fram ný sönnunargögn, málsástæður eða upplýsingar við meðferð málsins fyrir gerðardómi, skal málinu vísað aftur til sjóðsstjórnar til endurupptöku. Sjóðsstjórn er þá skylt að taka málið upp að nýju til úrskurðar. Úrskurður gerðardóms er bindandi fyrir báða aðila. Málskostnaði skal skipt milli málsaðila eftir mati dómsins, en þó skal sjóðfélaginn ekki greiða meira en 1/3 hluta málskostnaðar.

23.3. Um málsmeðferð samkvæmt gerðardómi fer samkvæmt lögum um samningsbundna gerðardóma.

24. Breytingar á samþykktunum

24.1. Breytingar á samþykktum þessum eru samningsatriði milli VR og þeirra samtaka atvinnurekenda sem að sjóðnum standa, sbr. gr. 2.2. og 5.1.

24.2. Til að breyting á samþykktum öðlist gildi þarf hún samþykki allra aðildarsamtaka sjóðsins sbr. gr. 2.2., samþykki fulltrúaráðs á ársfundi lífeyrissjóðsins og staðfestingu fjármálaráðherra.

24.3. Tillaga til breytinga á samþykktunum skal lögð fram og kynnt hverju aðildarsamtaka sjóðsins fullum tveimur mánuðum áður en afstaða til tillögunnar þarf að liggja fyrir. Breytingartillaga skal tekin til afgreiðslu hjá aðildarsamtökum sjóðsins, þegar gerð hefur verið grein fyrir henni á ársfundi sjóðsins. Miði tillaga að aukningu réttinda eða ætla má að hún geti haft áhrif á getu sjóðsins til greiðslu lífeyris skal henni fylgja tryggingafræðileg athugun á
afleiðingum breytingartillögunnar á gjaldhæfi sjóðsins. 

24.4. Stjórn sjóðsins er heimilt að gera breytingar á samþykktum þessum án þess að bera þær undir aðildarsamtök sjóðsins og fulltrúaráð á ársfundi, ef þær leiða af ófrávíkjanlegum ákvæðum laga eða reglugerða. Breytingar sem gerðar eru með heimild í þessu ákvæði skulu kynntar á næsta ársfundi sjóðsins. 

25. Gildistaka

25.1. Samþykktarbreytingar taka gildi, að fengnu samþykki aðildarsamtaka lífeyrissjóðsins og fulltrúaráðs á ársfundi, sbr. gr. 24 í samþykktum sjóðsins og staðfestingu ráðherra, sbr. 28. gr. laga nr. 129/1997, með síðari breytingum.

25.2. Samþykktabreytingar sem samþykktar voru af stjórn 3. mars 2022 og á ársfundi 29. mars 2022 taka gildi 1. september 2022. Hafi ráðherra ekki staðfest breytingarnar fyrir þann tíma taka breytingarnar gildi 1. virka dag næsta mánaðar á eftir staðfestingu ráðherra.

25.3. Réttindatöflur í viðauka A og ákvæði 1 til bráðabirgða taka gildi 1. janúar 2023.

25.4. Lífeyrisþegar, sem áttu betri rétt samkvæmt eldri samþykktum, skulu halda þeim rétti. Þetta ákvæði hefur ekki áhrif á innleiðingu breytinga samkvæmt viðaukum A og B við samþykktirnar.

Ákvæði 1 til bráðabirgða:

Á árunum 2023-2025 skal margfalda niðurstöðu framreiknings réttinda skv. grein 13.5. með stuðlinum úr eftirfarandi töflu fyrir þá sem úrskurðaðir verða á örorkulífeyri á hverju ári um sig: 

  • Árið 2023 1,06
  • Árið 2024 1,04
  • Árið 2025 1,02

Eftir 2025 verður framreikningur réttinda í samræmi við grein 13.5 og þessi grein fellur brott.

Samþykktir með breytingum sem samþykktar voru á ársfundi Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, 29. mars 2022. 

Jón Ólafur Halldórsson, formaður stjórnar
Stefán Sveinbjörnsson, varaformaður stjórnar
Árni Stefánsson
Bjarni Þór Sigurðsson
Guðrún Johnsen
Guðrún Ragna Garðarsdóttir
Helga Ingólfsdóttir
Sigrún Helgadóttir
Guðmundur Þ. Þórhallsson, framkvæmdastjóri