Fara á efnissvæði

Sláðu inn leitarorð

12. Ellilífeyrir (Ævilangur lífeyrir)

12. Ellilífeyrir (Ævilangur lífeyrir)

12.1. Sjóðfélagi á rétt til að hefja töku ellilífeyris, skv. 11. gr. frá 60 ára aldri til 80 ára aldurs.

12.2. Árlegur ellilífeyrir sjóðfélaga sem hefur töku ellilífeyris við 67 ára aldur er jafn samtölu lífeyrisréttinda hans reiknaðra skv. ákvæðum gr. 11.1. og 11.16., skv. töflu I í viðauka A, sbr. þó ákvæði gr. 12.8. um gagnkvæma og jafna skiptingu ellilífeyrisréttinda.

12.3. Ef taka lífeyris hefst fyrir eða eftir 67 ára aldur breytist ellilífeyrir í samræmi við grein 11.1, þ.e. til lækkunar ef taka lífeyris hefst fyrir 67 ára aldur og til hækkunar ef taka lífeyris hefst eftir 67 ára aldur samkvæmt töflu II í viðauka A.

12.4. Þegar sjóðfélagi hefur töku ellilífeyris er sú ákvörðun endanleg. Réttur til örorkulífeyris fellur því niður frá þeim tíma er greiðsla ellilífeyris hefst.

12.5. Haldi sjóðfélagi áfram að ávinna sér réttindi eftir að hann hefur töku ellilífeyris skal lífeyrir hans endurreiknaður árlega við upphaf hvers aldursárs sjóðfélaga í samræmi við töflu I í viðauka A.

Skipting ellilífeyris á milli hjóna

12.6. Á grundvelli samkomulags sjóðfélaga og maka hans getur sjóðfélagi ákveðið, að ellilífeyrisgreiðslur, sem renna eiga til hans, skuli allt að hálfu renna til maka hans eða fyrrverandi maka. Skal lífeyrissjóðurinn þá skipta greiðslum í samræmi við ákvörðun sjóðfélagans, en þær falla niður við andlát hans. Deyi makinn eða fyrrverandi maki, sem nýtur slíkra greiðslna, hins vegar á undan sjóðfélaganum, skulu greiðslurnar allar renna til sjóðfélagans.

12.7. Á grundvelli samkomulags sjóðfélaga og maka hans getur sjóðfélagi ekki síðar en fyrir 65 ára aldur og ef sjúkdómar eða heilsufar draga ekki úr lífslíkum hans, ákveðið, að verðmæti uppsafnaðra ellilífeyrisréttinda hans skuli allt að hálfu renna til að mynda sjálfstæð ellilífeyrisréttindi fyrir maka hans eða fyrrverandi maka og skerðast þá ellilífeyrisréttindi sjóðfélagans, sem því nemur. Ellilífeyrir makans skal ákvarðast af mati tryggingastærðfræðings sem miðast við, að heildarskuldbindingar sjóðsins aukist ekki við þessa ákvörðun sjóðfélagans. 

12.8. Samkomulag sjóðfélaga og maka hans, skv. 3. mgr. 14. gr. laga nr. 129/1997, sbr. gr. 10.11., 12.6. og 12.7. í samþykktum þessum, skal eftir því sem við á fela í sér gagnkvæma og jafna skiptingu áunninna ellilífeyrisréttinda beggja aðila, meðan hjúskapur, staðfest samvist eða óvígð sambúð hefur staðið eða stendur.

Heimild til töku hálfs ellilífeyris

12.9. Sjóðfélagi sem ekki hefur hafið töku ellilífeyris hjá sjóðnum getur ákveðið að hefja töku ellilífeyris í 50% hlutfalli hvenær sem er eftir að 60 ára aldri er náð og telst hann þá hafa ráðstafað þeim hluta ellilífeyrisréttinda sinna, sbr. grein 12.4. Ákvæði 12.3 skal gilda um þann hluta sem ráðstafað er fyrir 67 ára aldur. Ákvæði 12.3. skal gilda um hinn frestaða hluta eftir að 67 ára aldri er náð.