Fara á efnissvæði

Sláðu inn leitarorð

13. Örorkulífeyrir

13. Örorkulífeyrir

13.1. Sjóðfélagi, sem ekki er orðinn 67 ára og verður fyrir orkutapi, sbr. gr. 13.2., á rétt á örorkulífeyri úr sjóðnum í samræmi við áunnin réttindi skv. 11. gr. fram að orkutapi, enda hafi hann greitt í lífeyrissjóð í samtals 24 mánuði og sannanlega orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins.

Örorkumat og endurmat

13.2. Örorkulífeyrir er greiddur ef sjóðfélagi er metinn a.m.k. 50% öryrki af trúnaðarlækni sjóðsins. Hundraðshluta orkutaps og tímasetningu þess skal ákvarða að fengnum upplýsingum um heilsufarssögu og starfsorku sjóðfélagans aftur í tímann. Örorku skal meta á þriggja ára fresti eða eftir mati trúnaðarlæknis.

13.3. Örorkumat samkvæmt gr. 13.2. skal fyrstu þrjú árin miða við vanhæfni sjóðfélagans til þess að gegna starfi því, sem hann hefur gegnt og veitti honum aðild að sjóðnum. Að því tímabili loknu skal miða örorkumatið við vanhæfni sjóðfélagans til almennra starfa.

Endurhæfing

13.4. Heimilt er sjóðnum að fengnu áliti trúnaðarlæknis hans að setja það skilyrði fyrir greiðslu örorkulífeyris að sjóðfélagi fari í endurhæfingu, sem bætt geti heilsufar hans.

Framreikningur

13.5. Til grundvallar örorkulífeyri á sjóðfélagi, til viðbótar áunnum réttindum skv. 11. gr., rétt á framreikningi réttinda, sbr. þó gr. 11.14., uppfylli hann eftirgreind skilyrði:

  1. hefur greitt iðgjöld til sjóðsins a.m.k. þrjú af undanfarandi fjórum almanaksárum og a.m.k. 178.435 kr. hvert þessara þriggja ára. Fjárhæðin breytist í byrjun hvers árs í samræmi við breytingu á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar miðað við 513,0 stig í janúar 2022.
  2. hefur greitt iðgjald til sjóðsins a.m.k. 6 mánuði á undanfarandi 12 mánuðum.
  3. hefur ekki orðið fyrir orkutapi, sem rekja megi til ofnotkunar áfengis, lyfja eða fíkniefna.

Við framreikning réttinda skal, auk áunninna réttinda, miða við þau réttindi, sem sjóðfélaginn hefði áunnið sér til 65 ára aldurs miðað við meðaltal iðgjalda hans næstu þrjú almanaksár fyrir orkutapið sbr. gr. 11.17.

13.6. Reynist þriggja ára meðaltal sjóðfélagans samkvæmt gr. 13.5. óhagstætt vegna sjúkdóma eða atvinnuleysis, er heimilt að leggja til grundvallar meðaltal réttinda átta almanaksára fyrir orkutapið og sleppa því almanaksári sem lakast er sem og því almanaksári sem hagstæðast er. Hafi sjóðfélagi greitt iðgjöld í skemmri tíma en átta ár fyrir orkutapið skal reikna út frá viðkomandi árafjölda. 

13.7. Nú hafa iðgjaldagreiðslur sjóðfélaga til lífeyrissjóða verið svo stopular að þær hafa fallið niður eða verið innan við 178.435 kr. á ári fleiri en eitt almanaksár eftir lok þess árs er sjóðfélagi náði 25 ára aldri, skal þá framreikningstími styttur í hlutfallinu milli fjölda almanaksára sem árleg iðgjöld hafa verið undir 178.435 kr. og fjölda almanaksára frá 25 ára aldri fram til orkutaps. Fjárhæðin breytist í byrjun hvers árs í samræmi við breytingu á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar miðað við 513,0 stig í janúar 2022.

13.8. Hafi sjóðfélagi öðlast rétt til framreiknings skv. gr. 13.5, sem fallið hefur niður vegna tímabundinnar fjarveru af vinnumarkaði í allt að 36 mánuði, vegna náms, leyfis frá störfum, barneigna eða sambærilegra ástæðna eftir mati sjóðsins, skal framreikningsréttur stofnast á nýjan leik eftir sex mánuði frá því að hann hefur aftur greiðslu iðgjalds til sjóðsins. Lífeyrissjóðurinn getur óskað eftir gögnum til sönnunar á því að sjóðfélagi hafi ekki haft tekjur á umræddu tímabili, sem og kallað eftir öðrum gögnum sem þörf er á til að meta skilyrði
ákvæðisins, og sett slík gagnaskil sem skilyrði fyrir beitingu greinarinnar.

13.9. Ekki er greiddur örorkulífeyrir, ef orkutap skv. gr. 13.2. hefur varað skemur en í sex mánuði. Örorkulífeyrir greiðist ekki fyrstu þrjá mánuði frá orkutapi.

13.10. Örorkulífeyrir er jafnhár lífeyrisréttindum skv. gr. 13.1. og 13.5. margfölduðum með örorkuprósentunni skv. gr. 13.2. 

Viðmiðunartekjur, samspil örorkulífeyris og tekjutaps 

13.11. Aldrei skal samanlagður örorkulífeyrir og barnalífeyrir vera hærri en sem nemur þeim tekjumissi, sem sjóðfélaginn hefur sannanlega orðið fyrir vegna örorkunnar. Við mat á tekjumissi er tekið tillit til atvinnutekna örorkulífeyrisþegans, lífeyris- og bótagreiðslna frá almannatryggingum og frá öðrum lífeyrissjóðum svo og kjarasamningsbundinna tryggingabóta sem hann nýtur vegna örorkunnar. Því til sönnunar getur lífeyrissjóðurinn krafist vottorða frá skattstofu, vinnuveitanda o.s.frv.

13.12. Til mats á því hvort tekjuskerðing hafi orðið vegna örorkunnar skal úrskurða sjóðfélaganum viðmiðunartekjur, sem skulu vera meðaltal tekna sjóðfélagans síðustu þrjú almanaksár fyrir orkutapið verðbættar til úrskurðardags, sbr. lokamálsgrein gr. 13.5., gr. 13.6. og gr. 13.8. um framreikning. Frá úrskurðardegi skulu viðmiðunartekjurnar taka breytingum í samræmi við breytingar sem verða á vísitölu neysluverðs.

Umsókn um örorkulífeyri 

13.13. Skylt er sjóðfélaga, sem sækir um örorkulífeyri eða nýtur hans, að láta sjóðnum í té allar upplýsingar um heilsufar sitt og tekjur, sem nauðsynlegar eru, til þess að dæma um rétt hans til örorkulífeyris. Þá er örorkulífeyrisþegum skylt að upplýsa sjóðinn um breytingar á högum sínum að því marki sem þær kunna að hafa áhrif á rétt til greiðslu lífeyris eða fjárhæð hans, svo sem er varðar heilsufar eða tekjur.

Mörk örorkulífeyris og ellilífeyris

13.14. Örorkulífeyrir fellur niður við 67 ára aldur eða fyrr ef starfsorka eykst eða tekjur aukast þannig að skilyrðum gr. 13.11. er ekki lengur fullnægt. Ellilífeyrir skal þá ákveðinn þannig, að auk áunninna réttinda skal reikna að þeim hluta, er hundraðshluti örorku á hverjum tíma segir til um, réttindi, sem við úrskurð örorkulífeyris voru reiknuð sjóðfélaganum fram til 65 ára aldurs í samræmi við gr. 13.5.