Hugtakaskrá

Heimild hugtakaskrár -  Iceland Sif  

Ábyrgar fjárfestingar (e. Responsible Investment (RI))

Ábyrgar fjárfestingar eru fjárfestingaraðferðir sem taka mið af umhverfislegum og félagslegum þáttum og stjórnarháttum (UFS) við fjárfestingarákvarðanir með það að markmiði að draga úr áhættu og skila sjálfbærri ávöxtun til langs tíma.

Nánari upplýsingar á vef UN PRI

Umhverfislegir og félagslegir þættir og stjórnarhættir (UFS) (e. Environmental, Social and Governance (ESG))

Hvað er átt við með viðmiðum umhverfislegra og félagslegra þátta og stjórnarhátta (UFS)?
Umhverfislegir og félagslegir þættir og stjórnarhættir (UFS) eru viðmið sem fjárfestar nota til að meta fjárfestingar út frá aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga. Umhverfisleg viðmið snúa að því hvernig fyrirtæki gætir að umhverfislegum áhrifum starfsemi sinnar. Félagsleg viðmið snúa að því hvernig fyrirtæki kemur fram við starfsfólk sitt, birgja, viðskiptavini og samfélagið sem það starfar í. Viðmið um stjórnarhætti snúa t.d. að stjórnun fyrirtækja, launum framkvæmdastjóra, innra eftirliti og réttindum hluthafa.

Umhverfislegir og félagslegir þættir og stjórnarhættir (UFS) samanstanda af fjölmörgum og síbreytilegum atriðum, m.a:

Umhverfislegir þættir

  • Loftslagsbreytingar
  • Gróðurhúsalofttegundir
  • Skerðing auðlinda, þar með talið vatns
  • Úrgangur og mengun
  • Skógeyðing


Félagslegir þættir

  • Vinnuskilyrði, þ.m.t. þrælahald og barnavinna
  • Nærsamfélög, þ.m.t. frumbyggjasamfélög
  • Átök
  • Heilbrigði og öryggi
  • Samskipti og tengsl fyrirtækis og starfsfólks Fjölbreytileiki


Stjórnarhættir

  • Laun framkvæmdastjóra
  • Mútuþægni og spilling
  • Starfsemi þrýstihópa (e. political lobbying) og framlög til stjórnmála
  • Fjölbreytni og fyrirkomulag stjórnar
  • Skattastefna


Nánar á vef Investopedia

UFS leiðbeiningar Nasdaq (e. ESG Metrics)

Staðlaráð að frumkvæði Festu, IcelandSIF og Nasdaq Iceland/Kauphallarinnar, hefur þýtt fyrirsagnir ESG leiðbeininga Nasdaq (ESG Metrics) yfir á íslensku. Circular Solutions og Ábyrgar Lausnir veittu sérfræðiaðstoð við þýðinguna. Kauphallir Nasdaq á Norðurlöndum birtu uppfærða útgáfu af leiðbeiningunum í mars sl.

Leiðbeiningunum er ætlað að aðstoða fyrirtæki að birta upplýsingar um samfélagsábyrgð; eða umhverfismál, félagslega þætti og stjórnarhætti, á skýran og aðgengilegan hátt fyrir fjárfesta og aðra hagsmunaaðila. Leiðbeiningunum er fyrst og fremst ætlað að hjálpa fyrirtækjum að koma til móts við auknar kröfur fjárfesta og samfélagsins um birtingu upplýsinga er varða samfélagsábyrgð.

Sjá nánar UF leiðbeiningar Nasdaq febrúar 2020

Félagslega ábyrgar fjárfestingar (e. Social Responsible Investments (SRI))

Ábyrgar fjárfestingar eru ekki það sama og félagslega ábyrgar fjárfestingar eða áhrifafjárfestingar. Að því er varðar ýmis málefni, þar með talin umhverfismál, félagsleg málefni og sjálfbærni, er ýmislegt líkt með ábyrgum fjárfestingum og fjárfestingaraðferðum á borð við:

  • félagslega ábyrgar fjárfestingar
  • áhrifafjárfestingar
  • sjálfbærar fjárfestingar
  • siðferðilegar fjárfestingar
  • grænar fjárfestingar


Ofangreindar aðferðir leitast við að sameina fjárhagslegan og siðferðilegan ávinning. Þeir fjárfestar sem hafa einungis fjárhagslegan ávinning í huga geta og eiga að leitast við að nota aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga.

Ef ekki er tekið tillit til umhverfislegra og félagslegra þátta og stjórnarhátta (UFS) er hætta á að jafnframt sé litið fram hjá áhættu og tækifærum sem hafa veruleg áhrif á ávinning viðskiptavina og annarra sem njóta góðs af fjárfestingunum.

Einnig beinast margar þessara fjárfestingaraðferða að tilteknum málefnum, eins og að einblína eingöngu á umhverfismál, á meðan ábyrgar fjárfestingar er heildræn nálgun sem miðar að því að taka inn í myndina hvers kyns upplýsingar sem gætu skipt máli fyrir fjárfestingarárangur.

Sjá nánar á vef UN PRI   

Sjálfbærni (e. Sustainability)

Sjálfbærni lýsir því þegar áhersla er lögð á að nýta það sem í boði er án þess að það hafi skaðleg áhrif á jörðina og með því vonandi varðveita auðlindir jarðar fyrir komandi kynslóðir. (Wikipedia)

https://www.youtube.com/watch?v=eec0UYGIeo4

Sustainability explained with simple natural science

UN Global Compact

Samstarfsverkefni Sameinuðu þjóðanna og atvinnulífsins. Felur í sér 10 grunnreglur á sviði mannréttinda, vinnumarkaðs, umhverfismála og baráttu gegn spillingu. Rúmlega 12.000 fyrirtæki og stofnanir frá yfir 160 löndum eru aðilar að reglunum.

Nánari upplýsingar á UN Global Compact

UN PRI – Principles for Responsible Investment

Principles for Responsible Investment eru alþjóðleg samtök fjárfesta sem vinna saman að því að innleiða tiltekin grundvallarviðmið um ábyrgar fjárfestingar og njóta til þess stuðnings Sameinuðu þjóðanna. Samtökin voru stofnuð árið 2005 fyrir tilstuðlan Kofi Annan þáverandi ritara Sameinuðu þjóðanna (SÞ) þegar hann bauð hópi stofnanafjárfesta til þátttöku í að þróa grunnstoðir ábyrgra fjárfestinga. Þær voru kynntar í apríl 2006 Kauphöllinni í New York. Síðan þá hefur aðildarfélögum fjölgað úr 100 í yfir 1.900 víðsvegar að úr heiminum.

Sex meginreglur PRI

  • Við munum taka mið af umhverfislegum og félagslegum þáttum og stjórnarháttum (UFS) við greiningu fjárfestingarkosta og við ákvörðunartöku
  • Við ætlum að vera virkur eigandi sem tekur tillit til UFS bæði í eigendastefnum og í verki
  • Við munum kalla eftir viðeigandi upplýsingagjöf um UFS frá aðilum sem við fjárfestum í
  • Við munum beita okkur fyrir viðurkenningu á og innleiðingu þessara meginreglna í fjárfestingarstarfsemi
  • Við munum vinna saman að því að efla árangur við innleiðingu meginreglnanna
  • Við skilum öll skýrslum um starfsemi okkar og upplýsum um árangur við innleiðingu meginreglnanna

Nánar um PRI á vef SÞ

GRI – Global Initative Report

Markmið með samfélagsskýrslu er að sýna að fyrirtæki viti hver eru samfélagsáhrif starfseminnar, það sé verið að vakta þau og fyrirtæki vilja sýna stöðugar framfarir.
Í desember 2014 samþykkti Evrópusambandið að fyrirtæki að ákveðinni stærðargráðu verði skyldug að skila slíkri skýrslu árið 2018 fyrir fjárhagsárin 2017 – 2018. Íslensk fyrirtæki munu því í auknum mæli fara að skila slíkum skýrslum.