Séreign

Séreignarlífeyrir er laus til útgreiðslu þegar sjóðfélaginn nær 60 ára aldri. Einnig ef sjóðfélaginn fer á örorkulífeyri fyrir þann aldur en þá gilda sérstakar reglur um útgreiðsluna. 

Aldur

Þegar þú nærð 60 ára aldri geturðu tekið inneign þína í séreign út í einu lagi eða dreift henni í þann tíma sem þú óskar.

Veikindi eða slys

Verðir þú að hætta störfum vegna örorku af völdum slyss eða veikinda áttu rétt á að fá inneign þína í séreignardeild greidda út á minnst 7 árum eða á þeim tíma sem vantar upp á 60 ára aldur. Sé innstæða undir ákveðnum viðmiðum, kr. 1.616.426*, átt þú rétt á að óska eftir því að innstæðan verði greidd út í eingreiðslu eða á skemmra tímabil en fyrrgreind 7 ár. 

* 1.janúar 2023. Viðmiðunarfjárhæð þessi breytist árlega í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs. 

Andlát

Ef þú átt inneign í séreignardeild og fellur frá, skiptist inneign þín á milli maka og barna þinna samkvæmt reglum hjúskapar- og erfðalaga. Samkvæmt þeim fær maki 2/3 og börn 1/3. Ekki er greiddur erfðafjárskattur en reiknaður er tekjuskattur við útborgun séreignarsparnaðar. Ef þú lætur ekki eftir þig maka eða börn rennur inneignin til dánarbúsins.

Sereign-skipting-milli-erfingja

Börn eða maki geta afsalað sínum hluta og er þá útbúin sérstök yfirlýsing þess efnis á skrifstofu sjóðsins sem aðilar þurfa að undirrita.

Inneignin er laus til útgreiðslu eftir að skipting hefur verið framkvæmd en erfingjum stendur einnig til boða að ávaxta inneignina áfram hjá sjóðnum, sjá nánar um fjárfestingarleiðir hér

Hvernig tek ég séreignina mína út?

Þú fyllir út umsókn um útgreiðslu séreignalífeyris.

Greitt er úr séreignardeild síðasta virka dag hvers mánaðar. Umsókn þarf að berast sjóðnum fyrir 20. dag útgreiðslumánaðar.

Á valstikunni hér til hliðar er að finna reiknivél sem þú getur notað til að finna út endurgreiðslur úr séreignarsjóði með þínum forsendum.

Skattfrjáls ráðstöfun vegna íbúðarhúsnæðis

Þeir sem greiða í séreignarsjóð geta nýtt inneign sína skattfrjálst upp að ákveðinni fjárhæð til greiðslu inn á höfuðstól lána sem tekin eru vegna íbúðarhúsnæðis.

Þeir sem eru að huga að íbúðarkaupum geta fengið séreign útgreidda í samræmi við lög og reglur á hverjum tíma.

Nánari upplýsingar um skattfrjálsa ráðstöfun vegna íbúðarhúsnæðis má finna hér

Greiði ég skatt af greiðslum úr séreignarsjóðnum?

Greiðslur úr lífeyrissjóðum eru skattlagðar eins og aðrar tekjur en lífeyrisþegar geta nýtt persónuafslátt sinn til þess að lækka skattana.  Greiðslur úr séreignarsjóði lúta sömu lögum.

Sjóðurinn sér um að skila staðgreiðslu af lífeyrisgreiðslum til skattayfirvalda. Skattkort eru rafræn og nauðsynlegt er að láta vita hversu hátt hlutfall af skattkorti þú vilt nýta hjá sjóðnum.

Hér eru ítarlegri upplýsingar um tekjuskatt og persónuafslátt.

Skattgreiðsla barna

Börn sem ná ekki 16 ára aldri á árinu, greiða 6% skatt af tekjum sínum umfram 180.000 kr.

Börn fá persónuafslátt í byrjun þess árs sem þau verða 16 ára og dregst þá staðgreiðsla skatts af barnalífeyri í samræmi við gildandi lög um skattlagningu tekna.

Tilkynna þarf sjóðnum ef nýta á persónuafslátt við útgreiðslu barnalífeyris, hægt er að gera það hér

Dæmi um greiðslur úr séreignardeildinni

Miðað er við að greitt sé af 500.000 kr. mánaðarlaunum og 4% raunávöxtun.

Framlag launþega 4%  -  framlag launagreiðanda 2%

 

 Tími Mánaðarlegur 
lífeyrir í 7 ár 
 Mánaðarlegur 
lífeyrir í 10 ár
10 ár 52.896 39.143
20 ár 138.309 102.348
30 ár 264.741 195.908
40 ár 451.891 334.399

Framlag launþega 2%  -  framlag launagreiðanda 2%

 

 Tími Mánaðarlegur
lífeyrir í 7 ár
 Mánaðarlegur
lífeyrir í 10 ár
10 ár 35.264 26.095
20 ár 92.206 68.232
30 ár 176.494 130.605
40 ár 301.261 222.933