Fara á efnissvæði

Sláðu inn leitarorð

Niðurstaða héraðsdóms vegna samþykktabreytinga 

Dómurinn dæmir ógilt ákvæði sem varðar umreikning áunninna lífeyrisréttinda vegna spár um hækkandi lífaldur.  

Stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna mun nú yfirfara dóminn og taka ákvörðun um áfrýjun. 

logo a vegg logo a vegg

Í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp í dag var fallist á kröfur stefnanda sem er sjóðfélagi í sameignardeild, þar sem krafist var ógildingar á tilteknu ákvæði samþykktabreytinga sem tóku gildi um sl. áramót. Kjarni þeirra breytinga var að áunnin réttindi sjóðfélaga í sameignardeild voru umreiknuð þannig að mánaðarlegar greiðslur lækkuðu mismikið eftir aldri. Markmiðið var að mæta hækkandi lífaldri sjóðfélaga þar sem spáð er að ævi yngri sjóðfélaga lengist meira en þeirra sem eldri eru. Þessi spá byggir á lífslíkutöflum sem gefnar eru út af Félagi íslenskra tryggingastærðfræðinga og staðfestar af fjármála- og efnahagsráðherra. 

 

Samþykktabreytingarnar staðfestar af fjármála- og efnahagsráðherra 

Samþykktabreytingarnar voru vandlega undirbúnar af stjórnendum og stjórn LV í samráði við tryggingastærðfræðing sjóðsins og lögmannsstofur, sem og með samtali við stjórnvöld. Breytingarnar voru samþykktar af stjórn og í framhaldi af því af fulltrúaráði LV á ársfundi í mars 2022 og hlutu samþykki fjármála- og efnahagsráðherra í framhaldi af því. 

 

Áfrýjun  

Stjórn LV mun nú yfirfara dóminn og taka ákvörðun um næstu skref. Í ljósi rýni sjóðsins með fjölda ráðgjafa sem og staðfestingar ráðuneytisins á samþykktabreytingunum er viðbúið að horft verði til þess að áfrýja dómnum og óska eftir flýtimeðferð. Fyrir liggur að meirihluti lífeyrissjóðakerfisins fór áþekka leið varðandi aldursháða lækkun áunninna réttinda vegna hækkandi lífaldurs. Því er mikilvægt fyrir alla sjóðfélaga og lífeyriskerfið í heild sinni að lyktir þess byggi á traustum grunni.  

 

Áhrif á réttindi sjóðfélaga 

Bein áhrif dómsins á réttindi og lífeyrisgreiðslur til sjóðfélaga munu ráðast af endanlegri niðurstöðu dómstóla. Lífeyrissjóðurinn mun innan tíðar veita nánari upplýsingar um næstu skref.