Lífeyrissjóður verzlunarmanna tekur þátt í fjármögnun nýrrar Ölfusárbrúar


23. okt. 2025
23. okt. 2025
Lífeyrissjóður verzlunarmanna er meðal lánveitenda framkvæmdafjármögnunar nýrrar Ölfusárbrúar sem ÞG Verk ehf. er að byggja. Aðrir lánveitendur eru Íslandsbanki og tveir aðrir lífeyrissjóðir. Fjármögnun lífeyrissjóðanna þriggja fór fram í gegnum samstarfsvettvang Innviðafélags Íslands.
Gert er ráð fyrir að umferð verði hleypt á brúna haustið 2028. Vegagerðin undirritaði verksamning við ÞG Verk í nóvember 2024 og nemur áætlaður kostnaður samkvæmt samningnum 15,7 milljörðum króna. Að verkefninu loknu er áætlað að um 10 þúsund ökutæki fari um brúna dag hvern.
Þetta eru góð tímamót og gleðilegt fyrir okkur sem fjárfesti að taka þátt í að fjármagna vel undirbúið innviðaverkefni sem uppfyllir viðmið sjóðsins um ávöxtun og áhættu. Vonandi sjáum við fleiri slík koma inn á okkar borð á næstunni.
Hægt er að fylgjast með framvindu verkefnisins á vef Vegagerðarinnar.