Fara á efnissvæði

Sláðu inn leitarorð

Fjárfestingarstefna 2024 birt

Fjárfestingarstefnan er afrakstur greiningar á væntri ávöxtun og áhættu á fjármálamörkuðum næstu misserin. 

LIV Lífeyrissjodur Verslunarmanna 1416 1022 LIV Lífeyrissjodur Verslunarmanna 1416 1022

Fjárfestingarstefna LV fyrir árið 2024 hefur nú litið dagsins ljós. Venju samkvæmt hefur vinna við stefnuna staðið yfir í töluverðan tíma þar sem vænt ávöxtun og áhætta á fjármálamörkuðum næstu misserin eru lögð til grundvallar tillögu um eignasamsetningu 2024.

Undirbúningsvinnan er unnin af eignastýringu, sem fundar með fjölda innlendra og erlendra sérfræðinga og styðst m.a. við mat þeirra um vænta þróun eignamarkaða næstu ár.   Stjórn hefur fjallað um stefnuna á tveimur stjórnarfundum venju samkvæmt og samþykkti endanlega útgáfu stefnunnar í lok nóvember s.l.

Litlar breytingar eru fyrirhugaðar á samsetningu innlendra eignasafna sjóðsins en töluverðar breytingar er að finna í erlendum eignasöfnum þar sem gert er ráð fyrir auknu vægi erlendra skuldabréfa.  Eftir hækkun vaxta undanfarin tvö ár eru erlend skuldabréf orðin álitlegri kostur en þau hafa verið um langt skeið, einkum ef horft er til áhættuleiðréttrar ávöxtunar þeirra samanborið við hlutabréf.  Slík breyting felur í sér aukna áhættudreifingu og gerir eignasöfnin betur í stakk búin til að takast á við væntar markaðssveiflur næstu missera.

Fyrirhuguð aukning erlendra skuldabréfa, sem áætlað er að framkvæma á árinu 2024, er einna mest í sameignardeild sjóðsins þar sem stefnt er að jöfnu vægi erlendra hlutabréfa og skuldabréfa. 

Rétt er að ítreka að mat á bestu samsetningu eignasafna er í stöðugri endurskoðun.  Að undanförnu hafa verið töluverðar verðbreytingar á fjármálamörkuðum og hugsanlegt er að það hafi áhrif á vænta samsetningu eignasafnsins í árslok 2024.    Vikmörk eignaflokka eru því höfð tiltölulega rúm til að gefa sjóðnum svigrúm til viðbragða eftir því hvernig árinu vindur fram.

Fjárfestingarstefna 2024