Fara á efnissvæði

Sláðu inn leitarorð

Ábyrgar fjárfestingar og umboðsskylda lífeyrissjóða

Arne Vagn Olsen, forstöðumaður eignastýringar skrifar um samhengi ábyrgra fjárfestinga og hagsmuna sjóðfélaga. 

Arnevagnolsen 1 Vefupplausn Arnevagnolsen 1 Vefupplausn

Greinin birtist fyrst í Lífeyrisbók Arion banka sem kom út í júní. 

"Samtal um ábyrgar fjárfestingar er flókið og viðamikið og oft er erfitt að henda reiður á kjarna þess. Snýst samtalið um að „sofa vel á nóttunni“, að „uppfylla lagaskyldur“ eða að „bjarga heiminum“? Svörin eru jafnmörg og þátttakendur samtals hverju sinni og það eru einmitt kostirnir og gallarnir við aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga, að það er ekki til eitt rétt svar. 

Lífeyrissjóður verzlunarmanna gerðist aðili að alþjóðlegu samtökunum, UN PRI, árið 2006 og umfjöllun um ábyrgar fjárfestingar hefur um árabil verið hluti af fjárfestingarstefnu sjóðsins. Árið 2021 gaf sjóðurinn út sérstaka stefnu um ábyrgar fjárfestingar. Grunnur hennar er sú bjargfasta skoðun að áhættuleiðrétt ávöxtun eignasafna sjóðsins verði hærri til lengri tíma litið sé tekið mið af aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga við stýringu þeirra. 

Lítum aðeins betur á þær forsendur sem þar búa að baki. Í sinni einföldustu mynd ræðst virði fjárfestingar af væntu sjóðstreymi til framtíðar. Þegar um skuldabréf er að ræða er sjóðstreymið samningsbundið og þekkt en þegar um hlutabréf er að ræða er óvissan meiri og leggja þarf mat á vænt sjóðstreymi félags með þeirri óvissu sem slíku mati fylgir. 

Hefðbundin fjármálagreining er bæði hlutlæg greining sem byggist á tölum úr ársreikningi og huglægt mat á framtíðarsjóðstreymi. Aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga bætir við áhættuþáttum sem kunna að hafa töluverð áhrif á framtíðarsjóðstreymi félags og þar með virði þess í nærtíma. 

Dæmi um slíka áhættuþætti eru t.d. stjórnarhættir félags. Eru þeir þess eðlis að þeir stuðli að farsælum rekstri? Munu áhrif félagsins á umhverfi sitt leiða til aukins rekstrarkostnaðar? Er líklegt að félagið lendi í mótbyr vegna félagslegra þátta sem aftur geta haft áhrif á tekjur þess og arðsemi?

Upplýsingar sem þessar liggja ekki fyrir í ársreikningi heldur þurfa sérstakrar skoðunar við og þar birtist mikilvægi aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga í sinni einföldustu mynd. Hún varpar skýrara ljósi á áhættuþætti í starfsemi félags og rennir þar með stoðum undir forsendur verðmats þess. 

Við innleiðingu á aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga er að mörgu að huga. Eitt mikilvægasta veganestið er að spyrja „af hverju“ og í framhaldinu „hvernig“ hún getur stutt við langtímaárangur við ávöxtun eignasafna. Án skýrrar sýnar í upphafi er hætta á að vegferðin verði ómarkviss og þjóni ekki tilgangi sínum. 

Samtal um umboðsskyldu lífeyrissjóða er í eðli sínu afmarkaðra viðfangsefni. Í lögum um lífeyrissjóði stendur að þeim sé falið að „hafa hagsmuni sjóðfélaga að leiðarljósi“, „byggja allar fjárfestingar á viðeigandi greiningu“ og „setja sér siðferðisleg viðmið í fjárfestingum“. Í ljósi þessa er erfitt að rökstyðja greiningu á fjárfestingarkostum án þess að horft sé til aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga. Mun líklegra er að lífeyrissjóður bregðist umboðsskyldu sinni geri hann það ekki."