Algengar spurningar

Hér eru svör við nokkrum algengum spurningum um sjóðinn og lífeyriskerfið. Vanti ítarlegri upplýsingar er hægt að hafa samband við skrifstofu sjóðsins, einnig er mikið ítarefni að finna víða hér á vefnum.

Þarf ég að sækja um ævilangan lífeyri í öllum sjóðum sem ég hef greitt í

Nei, hægt er að merkja við á umsókninni að sjóðurinn sendi umsóknina í alla aðra lífeyrissjóði.

Greiði ég skatt af lífeyrisgreiðslum

Lífeyrisgreiðslur frá lífeyrissjóðum eru skattskyldar með sama hætti og almennar launatekjur.

Við hvaða aldur byrjar maður að greiða í lífeyrissjóð?

Aðild skal hefjast frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að sjóðfélagi hefur náð 16 ára aldri.

Hvar sæki ég um útgreiðslu úr lífeyrissjóðnum?

 Sótt er um rafrænt hér á vef sjóðsins.

Hvað ef ég bý erlendis

Á hverju ári þurfa þeir sem búa erlendis og fá elli-, maka- og/eða barnalífeyri greiddan frá sjóðnum að senda svokallað lífsvottorð til staðfestingar dvalar í viðkomandi landi. Viðeigandi yfirvöld á hverjum stað; þjóðskrá, bæjarskrifstofur, skattstofa eða aðrir opinberir aðilar gefa út slíkt vottorð. Það þarf að berast sjóðnum fyrir 15. maí ár hvert. Sjóðfélagar sem búa erlendis þurfa að koma upplýsingum um heimilisfang sitt til sjóðsins.

Sjóðfélagar sem búa erlendis og fá greiddan örorkulífeyri, þurfa að senda afrit af staðfestu skattframtali frá búsetulandi vegna ársins áður. 

Hvert er viðmiðið (upphæð fjárhæðar) við eingreiðslu?

Eingreiðsla miðast við fjárhæð sem svarar til a.m.k. 5.576 á mánuði. Fjárhæðin breytist mánaðarlega í samræmi við breytingu á vísitölu neysluverðs miðað við 513 stig í janúar 2022.

Greiðir hver og einn lífeyrissjóður inná reikning minn eða kemur sameiginleg greiðsla frá einum sjóð?

Hver lífeyrissjóður greiðir fyrir sig, þó greiðir Greiðslustofa lífeyrissjóða fyrir nokkra sjóði í einu.

Er hægt að skipta  upp iðgjaldinu í samtryggingu og séreign?

Sjóðfélagi getur kosið að setja allt að 3,5% af mótframlagi í tilgreinda séreign. Um hana gilda aðrar reglur en um viðbótarlífeyrissparnað sem er einnig séreign.

Er skylda að greiða í lífeyrissjóð?

Já,  það er skylda að greiða í lífeyrissjóð frá 16 ára aldri til 70 ára aldurs.

Get ég ráðið því í hvaða sjóð ég greiði?

Kjarasamningar segja til um í hvaða lífeyrissjóð skuli greiða iðgjöld. Sjálfstætt starfandi og sumir launþegar eru ekki bundnir af ákvæðum kjarasamninga um aðild að lífeyrissjóði og geta valið sjóð að því gefnu að samþykktir viðkomandi sjóðs heimili aðildina. Kjarasamningar VR, annarra félaga verslunar- og skrifstofufólks og nokkurra fleiri fagfélaga kveða á um aðild að Lífeyrissjóði verzlunarmanna. Sjóðurinn er einnig opinn fyrir óbundnum sjóðfélögum.

Skerða laun ævilangan lífeyri?

Nei. Laun hafa ekki áhrif á ævilangan lífeyri. Þetta er réttur, sem sjóðfélaginn hefur áunnið sér með iðgjöldum sínum og tryggir honum ævilangan lífeyri, óháð tekjum. Þetta er stjórnarskrárvarinn eignarréttur, hann er einnig varinn gegn aðför að lögum eins og fjárnámi.

Hvað þýðir áfallalífeyrir, hve lengi er hann greiddur?

Áfallalífeyrir er örorku-, maka- og barnalífeyrir. Ef sjóðfélagi missir starfsorku sína vegna slysa og/eða sjúkdóma eftir að hafa verið sjóðfélagi í tiltekinn tíma hefur hann áunnið sér rétt til örorkulífeyris. Við fráfall sjóðfélaga er greiddur makalífeyrir. Réttur getur skapast til barnalífeyris við bæði fráfall og örorku. Örorkulífeyrir er greiddur til 67 ára aldurs, þá tekur ævilangur lífeyrir við.

Get ég sótt um útfararstyrk úr lífeyrissjóðnum?

Það eru stéttarfélögin sem greiða útfararstyrki, lífeyrissjóðurinn greiðir eingöngu lífeyri.