Byrjaðu strax!

Fyrr eða síðar leitar sú hugsun á okkur öll að við munum eldast og að lokum hætta á vinnumarkaði. Hvað tekur þá við? 

Nútímamaðurinn gerir ráð fyrir að hann fari á eftirlaun, hætti að „vinna,“ þ.e. stunda launaða vinnu, en lifi á lífeyri og sinni hugðarefnum sínum. Reyndar er það að segja má nýtt í sögunni að mannfólkið geti almennt hugsað svona, kannski öld frá því almenningur gat farið að gera ráð fyrir að hægt væri að setjast í helgan stein, fáir áratugir síðan sá möguleiki varð raunhæfur fyrir flesta. Þó blundar í mörgum dálítill kvíði: Skyldi ég geta átt mannsæmandi líf í ellinni? Og – hvernig get ég tryggt mér það?

Hvernig er hægt sem best að búa sig undir þennan tíma ævinnar, út frá grunnspurningunni: Hvað þarf ég til að hafa það gott í ellinni?

Byrjaðu núna!

Þessari spurningu er hollt að velta fyrir sér – vandlega. Svörin við henni hjálpa okkur að tryggja, eftir því sem hægt er, að við munum hafa það gott á efri árum. Hér verður fjallað um nokkur atriði sem eru flestum sameiginleg og geta stuðlað að bættu lífi að lokinni starfsævi.

Hver og einn getur haft mikil áhrif á velferð sína og afkomu á efri árum. Þótt fæstir fari að huga alvarlega að þeim tíma fyrr en barnastúss er frá og skuldabasli fer að linna, kannski upp úr fertugu, jafnvel um fimmtugt, þá er rétti tíminn til að gera sínar ráðstafanir varðandi elliárin alltaf núna. Einmitt núna! Hvort sem þú ert um tvítugt eða fimmtugt, á hvaða aldri sem er. Þetta er nefnilega nokkuð sem ekki bíður sér til batnaðar. Hvernig á þá að skipuleggja sig, hvaða ráðstafana á ég að grípa til?

Hve mikið er nóg?

Við þurfum peninga – þar kemur lífeyrir til skjalanna. En – hve mikið? Og hve mikið af peningum er nóg? Þeir þurfa að endast alla ævina og hve löng verður hún? Hér gera sér flestir grein fyrir að á þessum tíma verður varla um að ræða jafn há laun og þeir hafa haft á vinnualdri, en – og það er stórt EN – á móti kemur að útgjöldin eru eða geta allajafnan verið lægri. Hægt er að gera ýmislegt til að tryggja sér lífeyristekjur.

Ævilangur lífeyrir

Við greiðum iðgjöld, hlutfall af launum okkar, í lífeyrissjóð eins og Lífeyrissjóð verzlunarmanna. Hann er samtryggingarsjóður sem þýðir að tryggt er að sá ellilífeyrir sem við fáum frá honum gengur ekki til þurrðar, hann verður greiddur ævilangt. Fjárhæð þessa lífeyris ræðst af því hve mikil iðgjöld við höfum greitt um ævina (margir hafa svo greitt í aðra sjóði líka og eiga samsvarandi réttindi þar). Mikilvægasta atriðið til að tryggja að þessi lífeyrir berist er að fylgjast með því að iðgjöldin skili sér til sjóðsins. Sjóðurinn sendir sjóðfélögum yfirlit tvisvar á ári, þar kemur fram hvernig iðgjöldin hafa skilað sér. Sé misbrestur á eða grunur um misbrest gerir sjóðfélaginn rétt í að hafa sem fyrst samband við sjóðinn sem þá gengur í málið.

Séreignarsparnaður

Hægt er að koma sér upp viðbótarlífeyrissparnaði í séreignarsjóði. Það er frjáls sparnaður og afar hagstæður því launþeginn leggur fyrir allt að 4% af laununum og vinnuveitandi bætir við 2% að auki, ávinningurinn er 50% samstundis fyrir launþegann. Síðan má velja um þrjár ávöxtunarleiðir sem auðvelt er að kynna sér nánar hér á vefnum. Rétt er að hafa í huga hvort sérstakur kostnaður fylgi varðveislu séreignarsparnaðar, sumir vörsluaðilar séreignarsparnaðar taka árgjöld eða fast hlutfall sparnaðarins í kostnað. Þessari séreign er laus til útgreiðslu við 60 ára aldur eða (skv. sérstökum lagaheimildum) til íbúðakaupa og til að greiða inn á íbúðalán. Þegar séreign er tekin út getur hver og einn ráðstafað henni að vild, tekið út í einu lagi eða áföngum eftir nánari reglum.

Annar sparnaður

Þótt peningar séu ekki allt, er það þó staðreynd að lífið er auðveldara eigi maður einhverja peninga. Og það eykur félagslegt og heilsufarslegt öryggi að eiga sjóð sem hægt er að grípa til þegar þörfin krefur. Þetta þýðir að maður þarf að leggja fyrir, velja sér sparnaðarform og banka/sjóð eða annað til að geyma og ávaxta sparnaðinn. Hverjum og einum er í sjálfs vald sett hve mikið er þannig lagt fyrir og hve mikið hann vill neita sér um í núinu til að njóta síðar, því sparnaðurinn er í raun frestun á neyslu eða velferð.

Skuldir - lánstími skiptir miklu

Skuldabyrði og greiðslubyrði af skuldum er jafnan mest á meðan fólk er að koma sér þaki yfir höfuðið. Hægt er að hafa, a.m.k. að nokkru leyti, stjórn á því hver greiðslubyrðin verður við starfslok t.d. með því að stýra lengd lána og – ef mögulegt er – að halda skuldsetningu í skefjum. Nefna má sem dæmi að ef íbúðalán er tekið við 35 ára aldur til 25 ára, ætti afborgunum af því að vera lokið við 60 ára aldur, en sé það tekið til 40 ára ekki fyrr en við 75 ára aldur. Lífeyrir og annar sparnaður dugir mun betur og þarf minna til, ef skuldir eru litlar eða engar þegar lífeyrisaldri er náð.

Lífsstíll

Er heilsan góð? Verður hún góð að lokinni starfsævi? Hver veit? Hægt er að auka líkurnar á því að heilsan verið góð með heilbrigðum lífsstíl og auka þannig lífsgæðin á efri árum. Þá verður framfærslukostnaðurinn einnig minni, því léleg heilsa kostar heimsóknir til lækna, meðferðir, lyf og fleira auk almennrar vellíðunar og þar með kostar framfærslan meira fé. Minna verður þá aflögu til þess sem hugurinn stendur til. Þetta atriði er ekki minna um vert en að huga að fjárhagslegu hliðinni því til hvers er að eiga mikla peninga ef heilsan leyfir manni ekki að njóta þeirra? Mikilvægur liður í heilbrigðum lífsstíl er að rækta áhugamálin, hafa markmið, eitthvað að lifa fyrir, hlakka til að vakna á morgnana!

Samferðarfólkið

Fjölskyldan, ættingjar, vinir. Fátt veitir meiri lífsfyllingu en góð og náin samskipti við sína kærustu, hvort sem er nánasta fjölskylda eða vinir. Barnabörn og þeirra börn, að geta glaðst með þeim og umgengist þau. Órjúfanlegur hluti af lífsgæðum efri áranna eru samskiptin við sína nánustu, vini og ættingja. Þess vegna er svo mikilvægt að rækta þau alla tíð – gleyma ekki að tíminn líður. Fara í heimsókn, hringja, setja „like“ á facebook-mynd o.s.frv.

Byrja strax

Allt framantalið getur stuðlað að betri elliárum. Misjafnt er hvernig þessi heilræði henta fólki, þau eru ekki í neinum smáatriðum, heldur meginlínur sem geta hjálpað og hver velur svo sínar leiðir. Það eru gömul sannindi og ný að hver er sinnar gæfu smiður og þótt við búum við opinbert velferðarkerfi og öfluga lífeyrissjóði getum við sjálf bætt miklu við lífsgæði efri áranna með fyrirhyggju og skynsemi. Mikilvægast af öllu er að draga það ekki, byrjaðu strax!

  • Lífsgæði ráðast ekki af peningum einum, heilsan og hamingjan þurfa að fylgja
  • Traustar tekjur í ellinni auðvelda lífið – gætum að lífeyrissparnaðinum
  • Góð eignastaða og lág útgjöld ráða miklu – lánstími verði ekki of langur
  • Ræktum tengslin við fjölskyldu og vini
  • Tökum þátt í lífinu – sinnum áhugamálum, félagsstarfi, fögnum morgundeginum!
  • Ekki draga að gera ráðstafanir – byrjaðu strax!