Reglur um val á frambjóðendum til setu í stjórnum félaga sem LV á eignarhlut í

Lífeyrissjóður verzlunarmanna (LV) hefur sem hluthafi í félögum sem hann fjárfestir í rétt á að styðja einstaklinga til stjórnarsetu. 

LV leggur áherslu á að stjórnir þeirra félaga sem sjóðurinn fjárfestir í séu sem best skipaðar til að stuðla að góðum rekstri til lengri tíma litið. Í þessu sambandi er jafnframt vísað til hluthafastefnu lífeyrissjóðsins. 

Með þessum reglum er markmiðið m.a. að gera þeim sem áhuga hafa aðgengilegra að leita eftir stuðningi sjóðsins til stjórnarsetu og stækka þann hóp sem LV getur leitað til í þeim efnum. Einkum er litið til setu í stjórnum skráðra félaga.

Tilkynningar til LV um áhuga á stjórnarsetu

Þeir sem gefa kost á sér til setu í stjórnum félaga (hér eftir nefndir umsækjendur), með stuðningi LV, geta tilkynnt um það á gátt á vef LV.

Umsókn telst tímabundin og gildir í 18 mánuði frá innsendingu. Umsækjandi getur endurnýjað umsókn sína að þeim tíma liðnum ef hann hefur enn áhuga á setu í stjórn félags fyrir hönd LV.

Upplýsingagjöf vegna mögulegrar stjórnarsetu

Á vefsvæðinu er aðgengilegt form sem umsækjendur fylla út og skila ásamt mögulegum fylgigögnum. 

Að lágmarki skulu koma fram eftirfarandi upplýsingar:

 • Nafn og kennitala
 • Heimilisfang, tölvupóstfang og símanúmer
 • Maki, ef í hjúskap/sambúð
 • Upplýsingar um aðalstarf
 • Stjórnarstörf
 • Menntun
 • Reynsla
 • Jafnframt þarf að taka fram í hvaða félagi eða hvers konar félögum viðkomandi hefur áhuga á stjórnarsetu í

Ef til kemur að LV óski eftir því að umsækjandi bjóði sig fram til setu í stjórn tiltekins félags með stuðningi sjóðsins þarf hann að veita upplýsingar um:

 • Hlutafjáreign í félagi sem viðkomandi hefur áhuga á stjórnarsetu í
 • Hagsmunatengsl við helstu viðskiptaaðila og samkeppnisaðila félagsins, sem og hluthafa sem eiga meira en 10% hlut í viðkomandi félagi

Mikilvægt er að uppgefnar upplýsingar séu skýrar og gefi LV sem bestar forsendur til að meta hæfni, reynslu, þekkingu og hæfi umsækjanda til að setjast í stjórn félags með stuðningi sjóðsins.

Valnefnd LV og meðferð atkvæða á hluthafafundum

Stjórn skipar fjögurra manna valnefnd til að tilnefna þann/þá sem LV styður til stjórnarsetu í félögum sem sjóðurinn á hlut í. 

Valnefndina skipa formaður stjórnar LV, varaformaður stjórnar LV, framkvæmdastjóri LV og ráðgjafi sem ráðinn er af framkvæmdastjóra að fenginni umsögn stjórnar sjóðsins. Valnefndin skal leitast við að komast að samhljóða niðurstöðu. Ef til atkvæðagreiðslu kemur fara formaður, varaformaður og framkvæmdastjóri með eitt atkvæði hver en ráðgjafi hefur tillögu- og umsagnarrétt. Meirihluti atkvæða ræður niðurstöðu.

Valnefnd skal leggja niðurstöðu sína fyrir stjórn LV. Stjórn tekur afstöðu til tillagna valnefndar. 

Samkvæmt hluthafastefnu LV fer framkvæmdastjóri með atkvæði LV á hluthafafundum félaga sem sjóðurinn á eignahlut í. Hann skal við kjör stjórnarmanna í þeim félögum byggja á afstöðu stjórnar. Ef stjórn hefur ekki fjallað um tilnefningar valnefndar byggir hann á niðurstöðu valnefndar. Þó er framkvæmdastjóra ætlað svigrúm til að greiða atkvæði með öðrum hætti ef aðstæður krefjast þess.

Viðmið við mat á innsendum umsóknum um áhuga á stjórnarsetu

Valnefnd hefur fullt sjálfræði um það hverja hún leggur til að sjóðurinn styðji til stjórnarsetu í félögum sem LV á hlut í. Valnefnd er ekki bundin af því að velja aðila úr hópi umsækjenda  skv. 1. gr. reglna þessara. Sé farið út fyrir hóp fyrirliggjandi umsækjenda skulu þeir sem þannig eru valdir skila inn upplýsingum samkvæmt reglum þessum. 

Nefndin skal m.a. eftir því sem hún telur eiga við líta til hæfissjónarmiða, hæfni, reynslu, þekkingar og þess hvað hún telur að umsækjendur hafi fram að færa til stjórnarsetu í því félagi sem um ræðir hverju sinni. Einnig skal eftir því sem við á líta til þarfa félagsins skv. þeim upplýsingum sem tiltækar eru, bakgrunns mögulegra meðstjórnenda og þeirra sjónarmiða sem koma fram í hluthafastefnu LV og leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja. Hér er til að mynda verið að vísa til þátta eins og: 

 •  menntunar
 • núverandi og fyrri starfa
 • kynjahlutfalls í stjórn
 • þekkingar á rekstri viðkomandi félags 
 • þekkingar á stjórnarháttum 
 • reynslu af stjórnarstörfum 
 • annars sem umsækjandi hefur fram að færa
 • samsetningar stjórnar viðkomandi félags almennt
 • eftir atvikum upplýsinga um þörf viðkomandi félags varðandi tiltekna þekkingu eða reynslu

Valnefnd skal rökstyðja ákvörðun sína og skal rökstuðningurinn vera aðgengilegur stjórn LV. Valnefnd ber þó ekki að setja fram rökstuðning fyrir afstöðu til annarra umsækjenda en hún mælir með nema sérstök atvik krefji. Valnefnd ber ekki að veita þeim sem lýsa áhuga á stjórnarsetu upplýsingar um forsendur ákvörðunar sinnar.