LV hækkar lífeyrisréttindi og eingreiðsla í lok mánaðar

Lífeyrissjóður verzlunarmanna (LV) hækkar áunnin lífeyrisréttindi í sameignardeild sjóðsins um 10% sem leiðir til samsvarandi hækkunar lífeyrisgreiðslna. Hækkunin miðast við síðastliðin áramót. Hækkunin er tilkomin vegna góðrar ávöxtunar eigna undanfarin ár sem hefur styrkt tryggingafræðilega stöðu sjóðsins. Sjóðfélagar geta séð áhrif réttindahækkunarinnar á sjóðfélagavef sínum á mitt.live.is

Um hækkun greiðslna til lífeyrisþega

Hækkun greiðslna elli-, örorku- og makalífeyris kemur til framkvæmda í nóvember. Samhliða mun sjóðurinn greiða í eingreiðslu uppsafnaða hækkun frá síðastliðnum áramótum. Eingreiðslan nær til um tuttugu og eitt þúsund sjóðfélaga og nemur rúmum 1,6 milljörðum króna eða að meðaltali um 76 þúsund krónum fyrir hvern lífeyrisþega, allt eftir fjárhæð áunninna lífeyrisréttinda hvers og eins.

Sjóðfélagar sem fá einnig greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins eru hvattir til þess að huga að því hvort tilefni sé til að uppfæra tekjuáætlun hjá stofnuninni.

LV hefur ætíð lagt mikla áherslu á skynsamlega og hagstæða fjárfestingarstefnu og hefur hún m.a. skilað því að langtímaávöxtun sjóðsins er afar góð. Má nefna að meðalraunávöxtun síðustu 10 ára er 6,7%, síðustu 20 ára 4,5% og síðustu 30 ára 5,4%. Samstilltur hópur starfsmanna sjóðsins hefur því náð góðum árangri fyrir sjóðfélaga sem endurspeglast nú í auknum réttindum og lífeyri og eingreiðslu fyrir yfirstandandi ár.

Afrakstur farsæls rekstrar

Það er stjórn og starfsfólki lífeyrissjóðsins sérstök ánægja að tilkynna sjóðfélögum um hækkun áunninna lífeyrisréttinda sem byggir á góðri ávöxtun eigna undanfarin ár. Meðalraunávöxtun eigna síðustu 10 ára er 6,7%, síðustu 20 ára 4,5% og síðustu 30 ára 5,4%. 

Spurt og svarað

Af hverju er LV að hækka réttindi og lífeyrisgreiðslur?

Ástæðan er góð ávöxtun LV undanfarin ár, sem styrkt hefur tryggingafræðilega stöðu sjóðsins.

Hversu mikil er hækkunin?

Áunnin lífeyrisréttindi í sameignardeild sjóðsins hækka um 10% sem leiðir til samsvarandi hækkunar lífeyrisgreiðslna.

 Hversu stór er hópurinn sem þessar breytingar ná til?

Breytingin nær til allra sjóðfélaga eða um 175 þúsund einstaklinga. 

Hversu margir fá eingreiðslu frá sjóðnum?

Eingreiðslan nær til um 21 þúsund sjóðfélaga sem eru á lífeyri og nemur rúmum 1,6 milljörðum króna eða að meðaltali um 76 þúsund krónum, allt eftir fjárhæð áunninna lífeyrisréttinda hvers og eins. 

Hvenær kemur hækkun lífeyrisgreiðslna til framkvæmda?

Hækkun greiðslna elli-, örorku- og makalífeyris kemur til framkvæmda í nóvember. Samhliða mun sjóðurinn greiða í eingreiðslu uppsafnaða hækkun frá síðastliðnum áramótum. Hjá örorkulífeyrisþegum er greidd eingreiðsla og réttindi hækkuð ef viðmiðunartekjur fyrir orkutap leyfa.

Hvenær kemur hækkun réttinda til framkvæmda?

Hækkun áunnina réttinda til þeirra sem eiga réttindi hjá sjóðnum hækka frá og með síðastliðnum áramótum.

Ég er að fá greiðslur frá TR hvað þarf ég að gera?

Lífeyrisþegar sem fá greiðslur frá Tryggingastofun eru hvattir til þess að huga að því hvort tilefni sé til að uppfæra tekjuáætlun hjá TR. Það er gert undir mínar síður á www.tr.is

Af hverju stendur sjóðurinn svona vel?

Sterk staða sjóðsins er afrakstur farsæls rekstrar. Sterkur og samhentur hópur hefur undanfarin ár náð afar góðri ávöxtun eigna sjóðsins og má nefna að meðalraunávöxtun eigna á ári síðustu 10 ár er 6,7%, síðustu 20 ár 4,5% og síðustu 30 ár 5,4%.  

Hvar get ég séð mín áunnin réttindi?

Sjóðfélagar geta séð áhrif réttindahækkunarinnar inn á sjóðfélagvef sínum mitt.live.is

Hafa réttindi tekið breytingum áður?

Lífeyrisréttindi hafa áður tekið breytingum bæði til hækkunar og lækkunar. Á árunum 1997 til 2009 voru áunnin réttindi og lífeyrisgreiðslur hækkaðar í þremur áföngum um 21,1% umfram verðlagsbreytingar. Á árinu 2010 voru lífeyrisgreiðslur lækkaðar um 10%. Eftir hækkunina nú nemur uppsöfnuð hækkun réttinda frá stofnun sjóðsins 19,8%. Réttindi og útgreiddur lífeyrir eru verðtryggð og breytast mánaðarlega í samræmi við breytingu á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar.

Geta réttindin mín lækkað aftur?

Sjóðfélagar bera bæði fjárfestingaráhættu og áhættu af breytingum á lýðfræðilegum forsendum. Eins og fram hefur komið á opinberum vettvangi undanfarin ár lifa landsmenn nú almennt lengur og stefnir í að sú góða þróun haldi áfram. Eftir framangreinda hækkun lífeyrisréttinda verður tryggingafræðileg staða sjóðsins áfram traust. Það gerir lífeyrissjóðinn betur í stakk búinn til að mæta fyrirsjáanlegum breytingum á réttindakerfi vegna hækkandi lífaldurs sjóðfélaga.

Hvenær lá þessi sterka staða fyrir?

Hún lá fyrir fyrr á þessu ári og síðan þá höfum við unnið að útfærslu á greiðslum og réttindamálum með þessari niðurstöðu.