LV hækkar réttindi og eykur áfallavernd

1. janúar 2023 tók gildi hækkun greiðslna og áunninna réttinda ásamt aukinni áfallavernd hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna (LV). Hækkunin er tilkomin vegna góðrar ávöxtunar eigna undanfarin ár sem sjóðfélagar njóta góðs af. Samhliða hækkun réttinda hafa verið innleiddar nýjar spár um ævilengd Íslendinga sem gera ráð fyrir að þeir sem yngri eru muni að jafnaði lifa lengur og eigi því fleiri eftirlaunaár í vændum.

Sjóðfélagar geta séð áhrif réttindahækkunarinnar á mitt.live.is

Aðeins rúmt ár er síðan sjóðurinn hækkaði réttindi allra sjóðfélaga um 10%.

Hækkun greiðslna og aukin réttindi

Greiðslur frá sjóðnum hækka frá og með janúargreiðslu 2023. 

  • Lífeyrisgreiðslur (ævilangur lífeyrir) hækka um 7,18%.
  • Örorkulífeyrisgreiðslur hækka um allt að 7,18% ef viðmiðunartekjur leyfa.
  • Makalífeyrisgreiðslur hækka um 7,18%
  • Þeir sem eru á eftirlaunum samhliða vinnu fá tíðari endurútreikning og þar með aukin réttindi.  

Sjóðfélagar sem fá einnig greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins eru hvattir til þess að huga að því hvort tilefni sé til að uppfæra tekjuáætlun hjá stofnuninni. Athugið að starfsfólk LV getur ekki breytt tekjuáætlun hjá TR. Það er hægt á mínum síðum TR.  

Aukinn sveigjanleiki og áfallavernd - í takt við tímann

  • Sjóðfélagar geta nú valið að hefja sín eftirlaun fyrr eða frá 60 ára aldri. 
  • Styttri tíma tekur að ávinna sér aftur rétt til framreiknings. Það tekur nú aðeins 6 mánuði fyrir sjóðfélaga að endurávinna sér rétt til framreiknings áfallaverndar ef sjóðfélagi hefur verið fjarverandi af vinnumarkaði vegna náms, leyfis frá störfum, barneigna eða sambærilegra ástæðna í allt að 36 mánuði. 
  • Lágmarksréttur til makalífeyris lengist þar sem hálfur makalífeyrir í 24 mánuði bætist við þá 36 mánuði sem fullur makalífeyrir er greiddur.

Lengri ævi og fleiri ár á eftirlaunum

Samhliða hækkun réttinda voru innleidd ný viðmið um lífslíkur sjóðfélaga sem fjármálaráðuneytið gefur út. Með þeim aukast skuldbindingar sjóðsins um greiðslu eftirlauna. Þannig þarf sjóðurinn að gera ráð fyrir að greiða yngri einstaklingi lífeyri í fleiri mánuði en þeim sem eldri eru. Hver árgangur hefur mismunandi ævilíkur. Allir sjóðfélagar fá sömu hækkun réttinda en aðlögun að spá um lengra líf yngra fólks umfram þá sem eldri eru gera það að verkum að breytingin er mismunandi eftir árgöngum. Sjá nánar hér í töflunni að neðan.

Tafla: Breyting réttinda með 12% hækkun og aðlögun að mismunandi lífslíkum eftir árgöngum.

Fæðingarár Breyting  Fæðingarár BreytingFæðingarár  Breyting
 2005 -3,46% 1988 -1,44% 1971 1,70%
 2004 -3,34% 1987 -1,22% 1970 1,92%
 2003 -3,32% 1986 -1,10% 1969 2,14%
 2002 -3,12% 1985 -0,99% 1968 2,48%
 2001 -3,01% 1984 -0,77% 1967 2,70%
 2000 -2,90% 1983 -0,66% 1966 3,04%
 1999 -2,78% 1982 -0,54% 1965 3,26%
 1998 -2,67% 1981 -0,32% 1964 3,60%
 1997 -2,56% 1980 -0,21% 1963 3,94%
 1996 -2,45% 1979 0,02% 1962 4,27%
 1995 -2,34% 1978 0,24% 1961 4,61%
 1994 -2,22% 1977 0,35% 1960 4,94%
 1993 -2,11% 1976 0,58% 1959 5,28%
 1992 -1,89% 1975 0,80% 1958 5,62%
 1991 -1,78% 1974 1,02% 1957 6,29%
 1990 -1,66% 1973 1,25%  
 1989 -1,55% 1972 1,47%  

Hvers vegna hækka réttindi?

LV hefur ætíð lagt mikla áherslu á skynsamlega og hagstæða fjárfestingarstefnu og hefur hún m.a. skilað því að langtímaávöxtun sjóðsins er afar góð. Má nefna að meðalraunávöxtun síðustu 10 ára er 5,0%, síðustu 20 ára 4,5% og síðustu 30 ára 4,8% m.v. september 2022. Samstilltur hópur starfsmanna sjóðsins hefur því náð góðum árangri fyrir sjóðfélaga sem endurspeglast nú í auknum réttindum og lífeyri sl. tvö ár.

Spurt og svarað

Af hverju er LV að hækka réttindi og lífeyrisgreiðslur?

Ástæðan er góð ávöxtun LV undanfarin ár, sem styrkt hefur tryggingafræðilega stöðu sjóðsins.

Hversu mikil er hækkunin?

Áunnin lífeyrisréttindi í sameignardeild sjóðsins hækka um 12% sem leiðir hinsvegar ekki til samsvarandi hækkunar lífeyrisgreiðslna vegna aðlögunar réttindakerfis að hækkandi lífaldri. Nýjar réttindatöflur sem voru innleiddar samhliða hækkun réttinda byggja á nýjum spám um ævilengd Íslendinga og valda því að ávinnsla mánaðarlegs lífeyris lækkar þar sem gert er ráð fyrir því að sjóðfélagar lifi lengur og fái því greiddan lífeyrir í lengri tíma.

 Hversu stór er hópurinn sem þessar breytingar ná til?

Breytingin nær til allra sjóðfélaga eða um 178 þúsund einstaklinga. 

Er eingreiðsla?

Nei, í þetta sinn taka breytingarnar gildi um áramót. Eingreiðslan í nóvember 2021 var vegna uppsafnaðrar hækkunar frá fyrri áramótum.  

Hvenær kemur hækkun lífeyrisgreiðslna til framkvæmda?

Hækkun greiðslna elli-, örorku- og makalífeyris kemur til framkvæmda í janúar með greiðslu fyrir mánaðarmót janúar/febrúar. 

Hver er munurinn á hækkun réttinda núna og í nóvember 2021?

Í nóvember 2021 var uppsöfnuð hækkun frá fyrri áramótum greidd út í eingreiðslu til þeirra sem voru á lífeyri. Í þetta sinn tekur breytingin gildi frá og með 1. janúar 2023.

Hvað hafa lífeyrisgreiðslur hækkað síðastliðin 2 ár vegna hækkunar áunninna réttinda?

Í nóvember 2021 hækkuðu lífeyrisgreiðslur um 10% vegna hækkunar áunninna réttinda. Í janúar 2023 hækka lífeyrisgreiðslur um 7,18% þegar búið er að taka saman 12% hækkun áunninna réttinda og aðlögun að lengri lífaldri fyrir mismunandi árganga. Samtals hefur því hækkun lífeyrisgreiðslna verið 17,9% síðastliðin 2 ár.

Vert er að benda á að lífeyrisréttindi hjá sjóðnum eru verðtryggð og breytast í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar. Samanlögð hækkun lífeyrisgreiðslna frá desember 2020 vegna hækkunar áunninna réttinda að viðbættri verðtryggingu er 35,2%.

Ég er að fá greiðslur frá TR hvað þarf ég að gera?

Lífeyrisþegar sem fá greiðslur frá Tryggingastofun eru hvattir til þess að huga að því hvort tilefni sé til að uppfæra tekjuáætlun hjá TR. Það er gert á mínum síðum á www.tr.is

Af hverju stendur sjóðurinn svona vel?

Sterk staða sjóðsins er afrakstur farsæls rekstrar. Sterkur og samhentur hópur hefur undanfarin ár náð góðri ávöxtun eigna sjóðsins og má nefna að meðalraunávöxtun eigna á ári síðustu 10 ár er 5,0%, síðustu 20 ár 4,5% og síðustu 30 ár 4,8% m.v. september 2022.  

Hvar get ég séð mín áunnin réttindi?

Sjóðfélagar geta séð áhrif réttindahækkunarinnar inni á mitt.live.is

Hafa réttindi tekið breytingum áður?

Lífeyrisréttindi hafa áður tekið breytingum bæði til hækkunar og lækkunar. Á árunum 1997 til 2009 voru áunnin réttindi og lífeyrisgreiðslur hækkaðar í þremur áföngum um 21,1% umfram verðlagsbreytingar. Á árinu 2010 voru lífeyrisgreiðslur lækkaðar um 10%.  Í nóvember 2021 voru réttindi hækkuð um 10% og nú í janúar 2023 um 12%. 
Réttindi og útgreiddur lífeyrir er verðtryggður og breytast mánaðarlega í samræmi við breytingu á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar.

Geta réttindin mín lækkað?

Sjóðfélagar bera bæði fjárfestingaráhættu og áhættu af breytingum á lýðfræðilegum forsendum. Eins og fram hefur komið á opinberum vettvangi undanfarin ár lifa landsmenn nú almennt lengur og stefnir í að sú góða þróun haldi áfram.

Af hverju tók breytingin ekki gildi í september eins og gert var ráð fyrir?

Breytingar á samþykktum þurfa staðfestingu fjármálaráðuneytis áður en þær taka gildi. Staðfesting barst sjóðnum 14. desember 2022. Gildistakan er fyrsta virka dag næsta mánaðar eftir að staðfesting ráðuneytis liggur fyrir. Í ljósi fyrri reynslu taldi sjóðurinn raunhæft að gildistakan yrði í september en ferlið tók lengri tíma en áætlað var. 

Munu greiðslur skerðast vegna TR? 

Nei, lífeyrisgreiðslur frá sjóðnum eru ekki skertar vegna greiðslna frá TR. Hins vegar getur átt sér stað skerðing á greiðslum frá TR við hækkun greiðslna frá sjóðnum hjá þeim sem fá greitt frá TR. Mögulega þarft þú að uppfæra greiðsluáætlun þína hér hjá TR. 

Er upphæðin sem var gefin upp í bréfinu fyrir skatt?

Já, upphæðin sem gefin er upp í bréfinu frá LV vegna hækkunar greiðslna er fyrir skatt.  

Hvers vegna hækka ekki áunnin réttindi jafnt hjá öllum aldurshópum?

Allir sjóðfélagar fá 12% hækkun réttinda. En samanlögð áhrif hækkunar og aðlögunar að lengri lífaldri eru mismunandi fyrir hvern árgang. Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur gefið út breytingar á forsendum um lífslíkur sem kveðið er á um að sé notað við tryggingafræðilega athugun lífeyrissjóða. Nýjar forsendur útreikninga gera ráð fyrir auknum lífaldri allra árganga. Hins vegar er gert ráð fyrir að yngri lifi lengur en þeir sem eldri eru að jafnaði. Þannig þarf sjóðurinn að gera ráð fyrir að sjóðfélagar lifi lengur og fái því greiddan lífeyri í lengri tíma. Allir lífeyrissjóðir skulu vera búnir að innleiða breyttar forsendur um lífslíkur fyrir tryggingafræðilega athugun ársins 2023.

Geta starfsmenn LV aðstoðað við að breyta tekjuáætlun hjá TR?

Nei því miður er það ekki hægt. Sjóðfélagar þurfa að skrá sig inn á mínar síður TR til að uppfæra tekjuáætlun sína. Það er ekki hægt að gera í gegnum sjóðinn. 


Nýjar samþykktir sjóðsins sem tóku gildi 1. janúar 2023 má finna hér.