Veðflutningur

Almennt gildir sú regla um veðflutning að nýtt veð sé að minnsta kosti jafn gott eða betra en hið eldra. Veðflutningur er háður því að sjóðurinn samþykki og veiti leyfi til hans.

Ef óskað er eftir veðflutningi þá gilda reglur sjóðsins um veðhlutföll. Áhvílandi uppreiknaðar veðskuldir að viðbættu láni sjóðsins, mega við lánveitingu ekki vera umfram 70% af verðmæti veðs eins og það er tilgreint í grein þessari. Ef veðsetning vegna lántöku eða veðflutnings lána hjá sjóðnum er umfram 65% er almennt gerður áskilnaður um að veðsetning til þriðja aðila (annars en Lífeyrissjóðs verzlunarmanna) nemi ekki hærra hlutfalli en 20% af metnu virði veðsins. 

Veðsetning skal reiknuð út frá söluverði samkvæmt kaupsamningi þegar um lánveitingar í tengslum við fasteignaviðskipti er að ræða. Annars skal miða við gildandi fasteignamat. Við sérstakar aðstæður eftir mati lífeyrissjóðsins er heimilt að miða veðsetningu við verðmat samkvæmt mati löggilts fasteignasala eða annars sérfróðs aðila. Lífeyrissjóðurinn áskilur sér rétt til að tilnefna matsaðila. Þá getur sjóðurinn lagt mat á forsendur verðmats og lækkað það í varúðarskyni. 

Skila þarf eftirtöldum gögnum til sjóðsins þegar óskað er eftir veðflutningi

  • Nýtt veðbandayfirlit.
  • Nýjar eftirstöðvar áhvílandi lána eða síðustu greiddu greiðsluseðlar (kvittanir).
  • Afrit af tryggingarbréfum sem hvíla á eigninni (ef við á).
  • Verðmat frá löggiltum fasteignasala (í samráði við starfsmenn sjóðsins).
  • Vottorð um smíðatryggingu sé eign í smíðum.
Beiðni um veðflutning

Boðið er upp á tvær leiðir til veðflutnings

  1. Veðflutningur fer fram í einu skjali í umsjón sjóðsins gegn sendingargjaldi.
  2. Sjóðfélagi sér um þinglýsingu skjalanna og fer þá veðflutningur fram í tveimur hlutum. Fyrst skal þinglýsa yfirlýsingu um nýja veðsetningu og skila henni síðan aftur þinglýstri til sjóðsins í skiptum fyrir veðbandslausn vegna eldra veðs, sem einnig þarf að þinglýsa.