Greiðsluerfiðleikar
Það geta allir lent í tímabundnum greiðsluerfiðleikum um ævina og stundum breytast aðstæður hjá okkur. Þá er mikilvægt að grípa fljótt inn í aðstæður til þess að finna bestu lausnina. Við bjóðum sjóðfélögum upp á ýmis úrræði og hvetjum þá til þess að leita til okkar.
Þú getur nálgast nánari upplýsingar um lánin sem þú ert með hjá okkur inn á sjóðfélagavef. Hafðu samband við ráðgjafa til að skoða þína kosti.
Endurfjármögnun
Endurfjármögnun gæti verið ágætur kostur í sumum tilfellum. Þannig er til að mynda hægt að sameina lán, breyta um lánategund og lengja lánstíma. Allt þetta getur lækkað mánaðarlega greiðslubyrði.
Ef endurfjármagna á lán sem tekið var hjá sjóðnum þá er hægt að endurfjármagna það án greiðslumats ef eftirtalin skilyrði eru uppfyllt:
- Lánsfjárhæð er sú sama
- Greiðslubyrði hækkar ekki
- Lánstími lengist ekki
Þetta er hægt að nýta sér ef lántakar vilja t.d. breyta um tegund láns til þess að lækka greiðslubyrði. Þetta á aðeins við lán sem tekin voru hjá sjóðnum , en ekki vegna lána hjá öðrum lánastofnunum. Ef lántaki er með fleiri en eitt lán og vill nýta sér þetta, þá er hvert lán fyrir sig endurfjármagnað sérstaklega.
Lánalenging
Ef lán var upphaflega tekið til styttri tíma er 40 ára, þá er hægt að lengja í þeim lánum. Við það lækkar greiðslubyrði lánsins. Hafa verður í huga að þessu fylgir sá ókostur að lánið verður dýrara þegar upp er staðið því vextir og eftir atvikum verðbætur reiknast á lánið yfir lengri tíma.
Breyta greiðsluaðferð
Stundum er greiðslubyrði lána með jöfnum afborgunum* nokkuð þyngri en af en lán með jöfnum greiðslum**. Í þeim tilfellum er hægt að óska eftir því að breyta láninu í jafngreiðslulán.
Þetta hefur þau áhrif að heildargreiðsla vaxta og verðbóta (ef við á) verður hærri yfir lánstímann þar sem afborgun af höfuðstól lánsins er lægri til að byrja með.
*Þegar lán er með jöfnum afborgunum þá er greitt jafnt af höfuðstól allan tíman. Mánaðarleg greiðslubyrði er því hærri í upphafi, en fer svo lækkandi þar sem að vaxtarbyrði minnkar. Eignarmyndun er hraðari.
**Þegar lán er með jöfnum afborgunum þá er mánaðarleg greiðslubyrði jöfn út lánstímann (ef lánið er verðtryggt þá hækkar hún). Mánaðarlegar greiðslur eru því lægri í upphafi, en eignarmyndun er hægari.
Greiðsluhlé
Hægt er að sækja um greiðsluhlé vegna greiðsluerfiðleika svo sem vegna atvinnuleysis, veikinda eða slysa. Hafa þarf í huga að greiðslubyrði hækkar þegar greiða á að fullu af láninu á ný. Þegar óskað er eftir greiðsluhléi þá mun sjóðurinn óska eftir frekari upplýsingum frá umsækjanda.
Frysting
afborgana
Þegar afborgun er fryst þá greiðir lántaki aðeins vexti af láninu (og verðbætur ef við á). Þetta á einkum við um lán sem eru með jöfnum afborgunum þar sem afborgunarhlutinn af heildargreiðslu er mun hærri en ef um lán með jöfnum greiðslum er að ræða. Þegar óskað er eftir frystingu afborgana þá mun sjóðurinn óska eftir frekari upplýsingum frá umsækjanda.