Fara á efnissvæði

Sláðu inn leitarorð

Lán

Á ég rétt á láni?

Þú átt rétt á láni ef þú hefur greitt iðgjöld í 6 af s.l. 12 mánuðum fyrir umsókn eða í samtals 36 mánuði fyrir umsókn.

Skráðu þig með rafrænum skilríkjum inn á Mínar síður til að staðfesta hvort þú átt lánsrétt. 

Hvaða tryggingu þarf ég að veita fyrir láninu?

Aðeins er lánað gegn íbúðarhúsnæði á Íslandi í eigu lántaka. 

Áhvílandi uppreiknaðar veðskuldir að viðbættu láni sjóðsins, mega við lánveitingu ekki vera umfram 70% af verðmæti veðs eins og það er tilgreint í grein þessari. 

Ef veðsetning vegna lántöku eða veðflutnings lána hjá sjóðnum er umfram 65% er almennt gerður áskilnaður um að veðsetning til þriðja aðila (annars en Lífeyrissjóðs verzlunarmanna) nemi ekki hærra hlutfalli en 20% af metnu virði veðsins. 

Veðsetning skal reiknuð út frá söluverði samkvæmt kaupsamningi þegar um lánveitingar í tengslum við fasteignaviðskipti er að ræða. Annars skal miða við gildandi fasteignamat. 

Hver er hámarks- og lágmarksfjárhæð láns?

Hámarksfjárhæð sjóðfélagaláns til einstaklings, hjóna eða sambúðarmaka er kr. 75.000.000.

Lágmarksfjárhæð láns er kr. 1.000.000.

 

Hvert er hámarksveðhlutfall láns?

Að hámarki er lánað 70% af fasteignamati eða kaupverði eignar ef um er að ræða fasteignakaup. Ekki er miðað við verðmat.

Ef hlutfall lána frá öðrum lánastofnunum er umfram 20% af veðrými, þá er hámarks veðsetning 65% af fasteignamati eða kaupsamningsverði, ef um er að ræða fasteignakaup.

Ef áhvílandi uppreiknaðar veðskuldir að viðbættu láni sjóðsins eru hærri en hámarkslán hjá sjóðnum þá er lagt mat á það út frá hagsmunum sjóðsins, þrátt fyrir reglur um veðsetningarhlutfall.

Hver er hámarkslánstími?

Val er um lánstíma frá 5 árum til 40 ára.

Fjöldi gjalddaga er 12 á ári.

Hvað þýðir að lán sé með jöfnum afborgunum?

Þegar lán er með jöfnum afborgunum þá er greitt jafnt af höfuðstól allan tímann. Mánaðarleg greiðslubyrði er því hærri í upphafi, en fer svo lækkandi þar sem að vaxtabyrði minnkar. Eignamyndun er hraðari.

Hvað þýðir að lán sé með jöfnum greiðslum (annuitet)?

Þegar lán er með jöfnum greiðslum þá er mánaðarleg greiðslubyrði jöfn út lánstímann (ef lánið er verðtryggt þá hækkar hún). Mánaðarlegar greiðslur eru því lægri í upphafi, en eignamyndun er hægari.

Hvernig finn ég út hver greiðslubyrði láns verður?

Lánareiknivélin reiknar úr greiðslubyrði láns og hvernig greiðslur skiptast á lánstímanum.

Get ég fengið lán út á eign sem annar en maki á með mér?

Ef annar aðili en maki, sem er giftur eða í staðfestri sambúð með lántaka, á eignarhlut með lántaka er ekki hægt að fá lán út á þá eign.

Þarf maki minn að gerast samskuldari?

Já, í þeim tilvikum ef hann á fasteignina sem boðin er fram sem veð í heild eða hluta á móti lántaka. Einnig þarf maki að gerast samskuldari ef hann er greiðslumetinn ásamt lántaka.

Get ég greitt upp lán eða inn á höfuðstól?

Já, lán má greiða upp hvenær sem er án nokkurs kostnaðar.

Vinsamlega setjið lánsnúmer í skýringu greiðslu / tilvísun.
Greiða má inn á reikning 0515-26-010200 kt: 430269-4459.

Get ég fengið lánsveð?

Nei, lánsveð eru ekki í boði.

Hvað gerist með vexti óverðtryggðra lána þegar 3 ára vaxtatímabili lýkur?

Tilkynning er send viðkomandi aðila að minnsta kosti 30 dögum áður en vaxtabreyting á sér stað sbr. við 35. gr. laga nr. 118/2016 um fasteignalán til neytenda.  Ef þú aðhefst ekkert festast vextir á láninu þínu aftur til þriggja ára og þá á þeim kjörum sem eru í boði á slíkum lánum á þeim tíma, en upplýsingar um vaxtakjör á hverjum tíma má nálgast á vefsíðu sjóðsins. Þú hefur jafnframt val um að færa þig í verðtryggt lán á þessum tíma án lántökugjalds.

Hvað gerist með vexti verðtryggðra lána þegar 5 ára vaxtatímabili lýkur?

Tilkynning er send viðkomandi aðila að minnsta kosti 30 dögum áður en vaxtabreyting á sér stað sbr. við 35. gr. laga nr. 118/2016 um fasteignalán til neytenda. Ef þú aðhefst ekkert festast vextir á láninu þínu aftur til fimm ára og þá á þeim kjörum sem eru í boði á slíkum lánum á þeim tíma, en upplýsingar um vaxtakjör á hverjum tíma má nálgast á vefsíðu sjóðsins.

Er greiðslumat frá öðrum en Lífeyrissjóði verzlunarmanna tekið gilt?

Nei eingöngu greiðslumat frá Lífeyrissjóði verzlunarmanna er tekið gilt. Áður en samningur um fasteignalán er gerður skal meta lánshæfi og greiðslumat allra umsækjanda.

Um lánshæfismat og greiðslumat er vísað til 6. tl. og 15. tl. 1. mgr. 4. gr., 20. gr., 22. gr., 23. gr. og 24. gr. laga nr. 118/2016 um fasteignalán til neytenda.

Get ekki fengið lán ef tekjur mínar eru í erlendum gjaldmiðli?

Það er ekki hægt að taka mið af erlendum tekjum í greiðslumati.

Ef þú ert einnig með launatekjur í íslenskum krónum, getur greiðslumat grundvallast á þeim tekjum, til samræmis við gjaldmiðil lánsins.

Umsækjandi verður að hafa lögheimili á Íslandi.

Hvernig eru ákvarðanir um vexti teknar?

Vextir sjóðfélagalána LV taka mið af verðlagningu skuldabréfa á markaði. Vaxtaákvarðanir byggja einkum á svonefndri vaxtabrú, aðferðafræði sem felst í því að reikna vaxtaálag ofan á áhættulausa vexti. Áhættulausir vextir eru metnir út frá ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa en vaxtaálag er miðað við hvern og einn áhættuþátt sjóðfélagalána. Á þeim grunni er tillaga lögð fyrir stjórn sjóðsins um vexti sjóðfélagalána, en stjórn tekur endanlega ákvörðun um vaxtakjör þeirra.  

 

Þegar vaxtastig fer hækkandi er óhjákvæmilegt annað en að vextir sjóðfélagalána hækki til að þau séu samkeppnishæf við ávöxtunarmöguleika sjóðsins í öðrum fjárfestingakostum t.d. í ríkisskuldabréfum eða sértryggðum skuldabréfum.  Sömuleiðis þegar vaxtastig fer lækkandi endurspeglast það í lægri vaxtakjörum sjóðfélagalána og haldast vaxtakjörin þannig í hendur við þróun vaxtastigs í landinu. LV hefur að leiðarljósi að ávaxta fjármuni sjóðfélaga í því umhverfi sem honum er búið hverju sinni og skiptir þar vaxtastig Seðlabanka Íslands og vaxtakjör á skuldabréfamarkaði miklu máli. 

Ákvörðun vaxta sjóðfélagalána byggir á fræðilegum grunni 

Til nánari skýringa er rétt að gera ítarlegri grein fyrir forsendum að baki ákvörðun um vexti þeirra skuldabréfa sem sjóðurinn fjárfestir í á hverjum tíma og eru sjóðfélagalán einn þeirra fjárfestingakosta.  Í stuttu máli er verðlagning skuldabréfa reiknuð samkvæmt aðferðafræði þar sem tekið er tillit til eftirfarandi þátta: 

 

  • Áhættulausir vextir á markaði.  Hér er horft til ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa á verðbréfamörkuðum. Áhættulausir vextir eru reiknaðir út frá mati á vaxtarófi sem byggir á ríkisskuldabréfum. Með þeim hætti má meta áhættulausa vexti til mismunandi líftíma byggt á kjörum á skuldabréfamarkaði á hverjum tíma. Þeir vextir sem samsvara líftíma hvers lánsforms fyrir sig eru svo nýttir sem áhættulausir vextir fyrir viðkomandi sjóðfélagalán. 
     
  • Vaxtaálag sértryggðra skuldabréfa. Hér er stuðst við álag sértryggðra skuldabréfa á ríkisskuldabréf með sama líftíma. Sértryggð skuldabréf viðskiptabankanna eru tryggð með veði í dreifðum íbúðalánasöfnum bankanna og eru því að nokkru leyti með sambærilega eiginleika og sjóðfélagalán. Ávöxtunarkrafa sem fjárfestar gera til slíkra bréfa myndar því grunn fyrir verðlagningu sjóðfélagalána. Fyrir lán á breytilegum vöxtum er miðað við stysta sértryggða álag sem lesa má út úr markaðnum eða stuðst við besta mat þar sem það á við.  
     
  • Skuldaraálag: Við ákvörðun vaxta sjóðfélagalána framkvæmir sjóðurinn áhættumat þar sem er lagt mat á skuldaraálag sem endurspeglar þá auknu áhættu sem sjóðurinn tekur við lán til einstaklings umfram það að eiga sértryggð skuldabréf. 
     
  • Seljanleikaálag.  Hér er horft til þess hvort skuldabréf sé seljanlegt eins og á við um ríkisskuldabréf, eða hvort líklegt sé að gefa þurfi afslátt af verðinu við sölu eins og í tilviki illseljanlegra skuldabréfa. Sjóðfélagalán flokkast sem illseljanleg skuldabréf og endurspeglast það í vaxtaálagi. 
     
  • UmsýsluálagHér er horft til þess kostnaðar sem hlýst af umsýslu sjóðfélagalána.  Bæði kemur þar til rekstur lánadeildar auk aðkomu sérfræðinga sjóðsins hvort sem er úr eignastýringu, áhættustýringu eða lögfræðisviði svo fátt eitt sé nefnt. 
     
  • Uppgreiðsluálag Hér er horft til þess að verðleggja þann valrétt að lántaki geti greitt upp lán án uppgreiðslugjalds.  Í stuttu máli er betra fyrir lánveitanda að tryggja sér vexti til lengri tíma fremur en að eiga það á hættu að fá skuldabréfið uppgreitt og þurfa þá að fjárfesta í staðinn í lakara skuldabréfi. Rétturinn til uppgreiðslu er því verðlagður og endurspeglast í uppgreiðsluálagi. 

 

Saman mynda ofantaldir sex þættir mat á vaxtakjörum sem eiga við sjóðfélagalán. Ofangreindir þættir breytast eftir eðli verðbréfamarkaða hverju sinni. Hækki Seðlabanki Íslands vexti má búast við að ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa hækki og þar með hækka vaxtakjör sjóðfélagalána.  Það sama á við þegar Seðlabanki Íslands lækkar vexti, þá lækka að öllu jöfnu vaxtakjör á verðbréfamörkuðum og endurspeglast það í vaxtakjörum sjóðfélagalána.