Spurt og svarað

Sjóðfélagar eiga rétt á að fá lífeyrissjóðslán hjá sjóðnum að uppfylltum nokkrum skilyrðum. Hér eru margvíslegar og gagnlegar upplýsingar varðandi lántöku.

Á ég rétt á láni?

Þú átt rétt á láni ef þú hefur greitt iðgjöld í 6 af s.l. 12 mánuðum fyrir umsókn eða í samtals 36 mánuði fyrir umsókn.

Lágmarksfjárhæð láns er kr. 1.000.000. Hámarksfjárhæð sjóðfélagaláns til einstaklings, hjóna eða sambúðarmaka er kr. 40.000.000.

Hvaða tryggingu þarf ég að veita fyrir láninu?

Aðeins er lánað gegn íbúðarhúsnæði á Íslandi í eigu lántaka. 

Áhvílandi uppreiknaðar veðskuldir að viðbættu láni sjóðsins, mega við lánveitingu ekki vera umfram 70% af verðmæti veðs eins og það er tilgreint í grein þessari. Ef veðsetning vegna lántöku eða veðflutnings lána hjá sjóðnum er umfram 65% er almennt gerður áskilnaður um að veðsetning til þriðja aðila (annars en Lífeyrissjóðs verzlunarmanna) nemi ekki hærra hlutfalli en 20% af metnu virði veðsins. 

Veðsetning skal reiknuð út frá söluverði samkvæmt kaupsamningi þegar um lánveitingar í tengslum við fasteignaviðskipti er að ræða. Annars skal miða við gildandi fasteignamat. 

Nánar um veð og veðflutning.

Í hvaða tilgangi má ég nýta lán?

 Ekki eru sett skilyrði fyrir nýtingu lánsfjárhæðar nema þegar um skilyrt veðleyfi er að ræða.  

Get ég greitt upp lán eða inn á höfuðstól?

Já. Lán má greiða upp hvenær sem er án nokkurs kostnaðar. Vinsamlega setjið lánsnúmer í skýringu greiðslu / tilvísun.
Greiða má inn á reikning 0515-26-010200 kt: 430269-4459.

Get ég fengið lánsveð?

Nei

Þarf maki minn að gerast samskuldari?

Já, í þeim tilvikum ef hann á fasteignina sem boðin er fram sem veð í heild eða hluta á móti lántaka. Einnig þarf maki að gerast samskuldari ef hann er greiðslumetinn ásamt lántaka.

Get ég fengið lán út á eign sem einhver annar á með mér?

Ef annar aðili en maki, sem er giftur eða í staðfestri sambúð með lántaka, á eignarhlut með lántaka er ekki hægt að fá lán út á þá eign.

Hvernig get ég fundið út greiðslubyrði lána?

Með lánareiknivélinni geturðu reiknað út greiðslubyrði sjóðfélagalána og hvernig greiðslur skiptast á lánstímanum.

Hvernig lán eru í boði?

Lán með jöfnum afborgunum eða jafngreiðslulán (annuitet).

Jafnar greiðslur:  Jafngreiðslulán (annuitet) þýðir að greiðslur sem þú innir af hendi eru jafnháar út lánstímann, en taka breytingum samkvæmt vísitölu neysluverðs.  Hins vegar er vægi afborgana og vaxta breytilegt.  Höfuðstóll greiðist hægar niður en á láni með jöfnum afborgunum.

Jafnar afborganir:  Á lánum með jöfnum afborgunum er höfuðstóllinn alltaf greiddur jafn mikið niður við hverja greiðslu.  Greiðslubyrði er þannig þyngst í upphafi en léttist eftir því sem líður á lánstímann.

  Annuitetslan
Lán með jöfnum greiðslum (annuitet) Smellið til að stækka

jafnar_afborganir
Lán með jöfnum afborgunum Smellið til að stækka
Báðar útfærslur eru miðaðar við 4 mkr. lán til 25 ára, með föstum vöxtum.  Ekki er tekið tillit til verðbólgu.

Hvað gerist með vexti óverðtryggðra lána þegar 3 ára vaxtatímabili líkur?

Tilkynning er send viðkomandi aðila að minnsta kosti 30 dögum áður en vaxtabreyting á sér stað sbr. við 35. gr. laga nr. 118/2016 um fasteignalán til neytenda.  Ef þú aðhefst ekkert festast vextir á láninu þínu aftur til þriggja ára og þá á þeim kjörum sem eru í boði á slíkum lánum á þeim tíma, en upplýsingar um vaxtakjör á hverjum tíma má nálgast á vefsíðu sjóðsins. Þú hefur jafnframt val um að færa þig í annað lánsform á þessum tíma án lántökugjalds.

Hvað gerist með vexti verðtryggðra lána þegar  5 ára vaxtatímabili líkur?

Tilkynning er send viðkomandi aðila að minnsta kosti 30 dögum áður en vaxtabreyting á sér stað sbr. við 35. gr. laga nr. 118/2016 um fasteignalán til neytenda. Ef þú aðhefst ekkert festast vextir á láninu þínu aftur til fimm ára og þá á þeim kjörum sem eru í boði á slíkum lánum á þeim tíma, en upplýsingar um vaxtakjör á hverjum tíma má nálgast á vefsíðu sjóðsins. 

Hver eru vaxtakjörin?

Lán með föstum vöxtum: 3,20%

Lán með föstum verðtryggðum vöxtum til 60 mánaða: 2,31%

Lán með föstum óverðtryggðum vöxtum til 36 mánaða: 4,57% 

Við ákvörðun um vaxtabreytingar er meðal annars litið til ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa sem og samanburðarhæfra skuldabréfa á markaði og vaxtakjör á markaði fyrir sambærileg lán, að teknu tilliti til áhættumats sjóðsins á hverjum tíma.

Hver er lánstími og fjöldi gjalddaga?

Val er um lánstíma frá 5 árum til 40 ára.

Fjöldi gjalddaga er 12 á ári.

Hvaða gögn eiga að fylgja með lánsumsókn?

 1. Staðfest afrit af síðasta skattframtali.
 2. Staðgreiðsluyfirlit frá ríkisskattstjóra a.m.k. fyrir síðustu 12 mánuði (aðgengilegt á www.skattur.is)
 3. Staðfesting á tekjum síðustu þriggja mánaða, s.s. afrit af launaseðlum, skilagrein vegna staðgreiðslu reiknaðs endurgjalds ef um sjálfstæða atvinnurekendur er að ræða, fjármagnstekjur og skilagrein vegna staðgreiðslu af föstum bótagreiðslum. Ef staðfesting á launum liggur ekki fyrir skal leggja fram fullnægjandi skýringar um afkomu, samanber tekjustofnsupplýsingar í skattframtali.
 4. Ef um skilnað er að ræða þarf fjárskipta og skilnaðarsamning staðfestan af sýslumanni.
 5. Staðfestingar á eftirstöðvum og greiðslubyrði allra skulda. Ef greiða á upp lán þarf einnig að fylgja uppgreiðsluverðmæti lánsins ásamt uppgreiðslukostnaði ef við á.
 6. Staðfestingar á föstum greiðslum, s.s. vegna meðlags- og lífeyrisgreiðslna.
 7. Matsverðs fasteigna í eigu neytanda eða fasteigna sem hann hyggst kaupa, t.d. fasteignamat Þjóðskrár Íslands eða kauptilboð/gagntilboð/kaupsamning. 
 8. Vottorð um smíðatryggingu sé eign í smíðum. Fasteign telst einungis veðhæf ef hún er skráð á byggingarstig 4 eða hærra og smíða-/brunatrygging frá tryggingarfélagi er lagt fram.
 9. Veðbókarvottorð stimplað af sýslumanni vegna fasteigna í eigu neytanda (athugið að veðbandayfirlit jafngildir ekki veðbókarvottorði).
 10. Afrit af tryggingarbréfum sem hvíla á eigninni (ef við á).
 11. Upplýsingar um húsaleigugreiðslur (ef við á).
 12. Upplýsingar um ábyrgðarskuldbindingar (ef við á).
 13. Annarra gagna sem varpað geta ljósi á fjárhagsstöðu neytanda og tekjumöguleika.

Lífeyrissjóðurinn áskilur sér rétt til að kalla eftir frekari gögnum.

Er greiðslumat frá öðrum en Lífeyrissjóði verzlunarmanna tekið gilt?

Nei eingöngu greiðslumat frá Lífeyrissjóði verzlunarmanna er tekið gilt. Áður en samningur um fasteignalán er gerður skal meta lánshæfi og greiðslumat allra umsækjanda. Um lánshæfismat og greiðslumat er vísað til 6. tl. og 15. tl. 1. mgr. 4. gr., 20. gr., 22. gr., 23. gr. og 24. gr. laga nr. 118/2016 um fasteignalán til neytenda. 

Hvaða gjöld þarf ég að greiða vegna lántöku?

Kostnaður við lántöku
Lántökugjald 55.000 kr.
Veðflutningar 4.000 kr.
Veðleyfi  4.000 kr.
Veðleyfi skilyrt 4.000 kr.
Veðbandslausn að hluta 4.000 kr.
Skilmálabreyting lána 4.000 kr.
Skuldaraskipti 8.000 kr.
Skuldbreyting 8.000 kr.
Greiðslugjald 140/240 kr.
Greiðslumat einstaklinga 6.700 kr.
Greiðslumat hjóna/sambýlisfólks 12.900 kr.
Skjalagerð skuldabréfa (nema um sé að ræða eitt skuldabréf) 8.000 kr.
Umsjón þinglýsingar/sendingarkostnaður 1.500 kr.
 Þinglýsingargjald  2.500 kr.
 Veðbandayfirlit (veðbókarvottorð) 1.200 kr.

Greiðsla fyrir skjalagerð, sendingargjald og þinglýsingu skal innt af hendi fyrir þinglýsingu skjalanna á skrifstofu sjóðsins á 3. hæð, en einnig má greiða inn á reikning sjóðsins:

 • Bankareikningur:  515-26-401144
 • Kennitala: 430269-4459.
 • Lántaka ber jafnframt að greiða þinglýsingargjald hjá sýslumanni og fer gjaldið eftir gjaldskrá sýslumanns hverju sinni. 

Hugsanlegar afleiðingar þess ef ekki er staðið við skuldbindingar samkvæmt samningi

Standi skuldari ekki í skilum með greiðslu afborgana, vaxta eða verðbóta á gjalddaga fellur skuldin öll í gjalddaga án fyrirvara. Skuldara ber að greiða dráttarvexti frá gjalddaga, sem miðast við ákvörðun Seðlabanka Íslands, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 ef eigi er staðið í skilum, auk alls kostnaðar sem af vanskilum hlýst.

Sem síðasta úrræði gæti heimili þitt verið selt nauðungarsölu ef þú stendur ekki skil á greiðslum.

Get ég sett lánið mitt í greiðsluþjónustu í banka?

Þægilegt er að greiða af láninu í gegnum greiðsluþjónustu bankanna.

Lántaki gerir þá samning við viðskiptabanka sinn eða sparisjóð en kostir þess að hafa lánið í greiðsluþjónustu eru m.a.:

 1. Útgjaldasveiflur jafnaðar.
 2. Enginn vanskilakostnaður.
 3. Enginn gluggapóstur. 
 4. Betri yfirsýn yfir útgjöld.  

Vinsamlegast hafðu samband við viðskiptabanka þinn eða sparisjóð varðandi greiðsluþjónustu.