Fjárfestingar í hreinni orkuframleiðslu

Við höfum sett okkur markmið um að fjárfesta fyrir 150 milljarða króna í hreinni orkuframleiðslu og loftlagstengdum verkefnum.

Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur sett sér markmið um að fjárfesta fyrir 150 milljarða króna í hreinni orkuframleiðslu og loftslagstengdum verkefnum fyrir árið 2030, undir merkjum CIC, „Climate Investment Coalition“. Þessi nýju markmið koma til viðbótar við 30 milljarða króna sem LV hefur þegar fjárfest í slíkum verkefnum.

LV er þar í hópi þrettán íslenskra lífeyrissjóða sem stefna samanlagt á 580 milljarða króna fjárfestingu í sjálfbærri orkuframleiðslu og tengdum verkefnum, fyrir lok þessa áratugar. Í heild nema skuldbindingar þeirra norrænu og bresku lífeyrissjóða sem standa að CIC um 130 milljörðum bandaríkjadala

Þátttaka LV er liður í auknum áherslum lífeyrissjóðsins á ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar. Hún er í samræmi við nýútgefna stefnu lífeyrissjóðsins um ábyrgar fjárfestingar sem og stefnu um útilokun í eignasöfnum LV, þar sem m.a. er vikið að útilokun fjárfestingakosta sem byggja á vinnslu tilgreindra tegunda jarðefnaeldsneytis.

Með þátttöku LV í CIC vill LV styðja við markmið Parísarsáttmálans frá árinu 2015 um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. 

Spurt og svarað um aðild LV að Climate Investment Coalition. 

 

Hver tók ákvörðun um aðild LV að CIC?

Stjórn LV tók í lok september 2021 á ákvörðun um þátttöku LV í CIC “Climate Investment Coalition”. Ákvörðunin var tekin að undangenginn greiningarvinnu stjórnenda LV. Vinna við mat á verkefninu og þátttöku hófst fyrr á þessu ári.

Hverjir stofnuðu CIC og hvenær?

CIC er að stofnað 2019, stofnaðilar þess eru „Danish Ministry og Climate, Energy and Utilities“, „Insurance and Pension Denmark“, The Institutional Investors Group on Climate Change (IIGCC) og World Climate Foundation.
Fyrst í stað voru danskir lífeyrissjóðir, tryggingafélög og stofnanafjárfestar aðilar að CIC. CIC hefur undanfarin misseri fengið til liðs við sig fjölda nýrra aðila, m.a. lífeyrissjóða frá öðrum Norðurlöndum sem og frá Bretlandi.

Hver er ávinningurinn LV af aðild að CIC?

Ávinningurinn getur verið margþættur og að mörgu leyti undir sjóðnum kominn. Má þar m.a. nefna uppbyggilegt aðhald varðandi ábyrgar fjárfestingar, aðgang að tengslaneti, bættan möguleika á meðfjárfestingum í erlendum fjárfestingarverkefnum, gagnlegan lærdóm og aðgang að tengslaneti tengdum sjálfbærum fjárfestingum. Sjálfbærar fjárfestingar eru vaxandi eignaflokkur í eignasöfnum stofnanafjárfesta eins og lífeyrissjóða.

Hvaða lagalegu skuldbindinga felur aðild LV að CIC í sér?

Þátttaka LV í CIC hefur ekki lagalegar skuldbindingar í för með sér. Fjárfestingarákvarðanir LV byggja eftir sem áður á gildandi lögum, fjárfestingarstefnu og öðrum stefnum svo sem áhættustefnu, áhættustýringarstefnu, hluthafastefnu og stefnu um ábyrgar fjárfestingar. Þátttaka í CIC er enn fremur háð því að til staðar verði fjárfestingarverkefni sem uppfylla hefðbundin fjárfestingarskilyrði LV auk þess að vera gjaldgeng í CIC mengið

Hefur CIC einhverskonar afskipti af fjárfestingarákvörðunum LV eða boðavald varðandi þær?

Nei. Yfirlýsing gagnvart CIC samstarfinu er fyrst og fremst táknræn og mórölsk. LV tilkynnir, eins og aðrir fjárfestar sem eiga aðild að samstarfinu, um áform sín um grænar fjárfestingar er tengjast markmiðum Parísarsamkomulagsins fram til ársins 2030. LV og öðrum íslenskum lífeyrissjóðum er í sjálfsvald sett að ákveða viðmið varðandi það hvaða fjárfestingar falla þar undir. Eina skilyrðið eru að þau séu rökstudd og lágmarki hættu á grænþvotti. LV tilkynnir svo árlega til CIC um framvindu markmiða sinna. CIC safnar saman tölum frá aðildarsjóðum/fjárfestum og birtir opinberlega sem summutölur fyrir hvert land.

Hvaða viðmið styðst LV við við mat á því hvað teljast grænar fjárfestingar í tengslum við þátttöku í CIC?

Enn sem komið er einkum litið til fyrirtækja sem starfa að meginstefnu til við framleiðslu á sjálfbærri orku, fasteignafélög sem hafa vottaðar grænar byggingar í eignasöfnum sínum og grænna skuldabréfa sem gefin eru út í samræmi við tiltekin viðurkennd viðmið. Á næstu misserum og árum er stefnt að því að byggja í auknum mæli á flokkunarkerfi ESB varðandi umhverfisvænar fjárfestingar (EU Taxonomy) sem nú er í innleiðingarferli. Regluverk ESB um það er verður að líkindum lögfest innan tíðar á Íslandi þar sem það fellur undir EES-samninginn.

150 milljarðar eru há fjárhæð. Hefur LV svigrúm til að fjárfesta fyrir svo háa fjárhæð í sjálfbærri orkuframleiðslu?

Yfirlýsing LV felur í sér áform um fjárfestingar í hreinni orkuframleiðslu og tengdum verkefnum fyrir samtals 150 milljarða fyrir árið 2030. Til að setja þessa fjárhæð í samhengi er verðmæti eignasafna LV nú um 1.100 milljarðar og ekki óvarlegt að ætla að að verði umtalsvert stærra árið 2030. Því er varlegt að áætla að eignir, sem tengjast yfirlýsingu gagnvart CIC verði innan við 10% af eignum árið 2030. Þá er til þess að líta að verkefni sem falla undir CIC ná til fleiri þátta en sjálfbærrar orkuframleiðslu.

Af hverju er LV að horfa til aukinnar fjárfestinga í sjálfbærri orkuframleiðslu?

Það er mat LV að þegar liggi umtalsver fjárfestingartækifæri í loftslagsvænum fjárfestingum og að þau muni aukast í framtíðinni.
Það liggur fyrir að markmiðum Parísarsáttmálans og markmiðum í loftslagsmálum verður ekki náð nema með framleiðslu sjálfbærrar orku og orkuskiptum í samgöngum og iðnaði. Þar leika stofnanafjárfestar um allan heim, þ.m.t. lífeyrissjóðir stórt og mikilvægt hlutverk. Markmiðið er að samtvinna áhugaverða fjárfestingakosti og arðsemi til lengri tíma við lausn á aðsteðjandi loftslagsvanda.

Hvers konar fjárfestingar geta fallið undir ramma CIC?

Auk umhverfisvænnar orkuframleiðslu koma vel til álita önnur fjárfestingarverkefni sem vinna að markmiði um kolefnishlutleysi eins og kolefnisförgun, umhverfisvænar byggingar og endurbætur á eldri byggingum, verkefni tengd vistrænum framleiðsluaðferðum og verkefni sem byggja á aðferðafræði hringrásarhagkerfisins, svo dæmi séu nefnd.

 Gagnlegir tenglar með nánari upplýsingum

Frétt á vef LV um aðild sjóðsins að CIC
Vefsíða CIC
Fréttatilkynning 13 íslenskra lífeyrissjóða um aðild að CIC 
Fréttatilkynning CIC um verkefnið