Tilgreind séreign

Tilgreind séreign er einkaeign sjóðfélagans og erfist eftir reglum erfðalaga. Hún er laus til útborgunar við 67 ára aldur. Þó er hægt að flýta útgreiðslu um allt að fimm ár.

Tilgreind séreign

  • Tilgreind séreign er einkaeign sjóðfélagans og erfist eftir reglum erfðalaga.
  • Tilgreind séreign er laus til útborgunar við 67 ára aldur. Þó er hægt að flýta útgreiðslu um allt að fimm ár, en þá skal dreifa greiðslunum þar til sjóðfélagi nær 67 ára aldri. 
  • Tilgreind séreign myndar sjálfstæðan sjóð í eigu sjóðfélagans. Hún getur því ekki myndað rétt til ævilangs lífeyris, heldur minnkar sjóðurinn með hverri úttekt þar til hann tæmist um síðir.
  • Tilgreindri séreign er ekki heimilt að ráðstafa inn á lán eða í annað sem sérstök úrræði stjórnvalda heimila að ráðstafa frjálsu séreigninni í.
  • Tilgreinda séreign er hægt að fá greidda út við örorku eins og frjálsa séreign. Tilgreind séreign myndar ekki rétt til örorku-, maka- eða barnalífeyris.

 

Reglur um endurgreiðslu tilgreindrar séreignar

Útgreiðsla vegna aldurs: Sjóðfélaga er heimilt að hefja úttekt tilgreindrar séreignar frá 62 ára aldri og skulu greiðslur þá dreifast að lágmarki á þann tíma sem hann á eftir fram að 67 ára aldri.

Heimilt er að víkja frá þessum endurgreiðslutíma ef innstæðan er undir 500.000 kr. Viðmiðunarfjárhæð þessi breytist árlega í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu 173,5 stig.

Útgreiðsla vegna örorku: Verði rétthafi öryrki og trúnaðarlæknir sjóðsins metur orkutapið sem hann verður fyrir 100% á hann rétt á að fá inneign sína í tilgreindri séreign greidda út með jöfnum árlegum greiðslum á sjö árum. Sé örorkuprósentan lægri en 100% lækkar árleg útborgun í hlutfalli við lækkun örorkuprósentunnar og úttektartíminn lengist samsvarandi. Óski sjóðfélagi þess er heimilt að víkja frá þessum endurgreiðslutíma ef innstæðan er undir 500.000 kr. Viðmiðunarfjárhæð þessi breytist árlega í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu 173,5 stig.

 Útgreiðsla vegna andláts: Við andlát sjóðfélaga, sem á inneign í tilgreindri séreign, greiðist inneignin til erfingja hans og skiptist milli þeirra eftir reglum erfðalaga. Láti sjóðfélaginn ekki eftir sig maka eða barn rennur innstæðan til dánarbúsins (sbr. lög um lífeyrissjóði nr. 129/1997 með síðari breytingum).