Makalífeyrir

Þegar sjóðfélagi greiðir iðgjöld ávinnur hann sér ekki aðeins rétt til ævilangs lífeyris, heldur einnig maka sínum rétt til makalífeyris falli sjóðfélaginn frá. Makalífeyrir er að lágmarki greiddur í 3 ár að fullu og hálfur í 2 ár til viðbótar.

Hversu lengi er makalífeyrir greiddur?

 • Ef þið eigið börn undir 23 ára aldri: Maki þinn fær makalífeyri þangað til yngsta barnið hefur náð 23 ára aldri.
 • Maki þinn er öryrki og er yngri en 65 ára:  Makalífeyrir er greiddur á meðan makinn er öryrki en að hámarki til 67 ára aldurs.
 • Verðbættur makalífeyrir:  Hann byggist á því að iðgjöld sjóðfélagans til og með desember 2014 eru færð til verðlags í dag. Þannig fær makinn greiddan lífeyri á grundvelli iðgjalda sjóðfélagans með verðbótum. Mánaðarfjöldi verðbætts makalífeyris er fundinn með því að deila mánaðarfjárhæð makalífeyris upp í heildarfjárhæð verðbætts makalífeyris.
 • Maki fædd(ur) fyrir 1925:  Greiddur er ævilangur lífeyrir.
 • Maki fædd(ur) frá 1925-1944: Maki þinn fær ævilangan lífeyri en sú upphæð fer stiglækkandi eftir fæðingarári.
 • Makalífeyrir fer eins og að framan greinir eftir atvikum, er þó aldrei greiddur skemur en í 5 ár. Fullur makalífeyrir í 3 ár og hálfur makalífeyrir í 2 ár.

Hvernig er makalífeyrir reiknaður?

Makalífeyrir er 60% af réttindum sjóðfélagans við 67 ára aldur. Ef sjóðfélagi uppfyllir eftirfarandi skilyrði er réttur á framreikningi réttinda til 65 ára aldurs:

 • Að hafa greitt í sjóðinn í a.m.k. 3 af síðustu 4 árum fyrir andlát.
 • Að hafa greitt í sjóðinn í a.m.k. 6 mánuði síðasta árið fyrir andlát.
 • Að hafa greitt iðgjald í sjóðinn að lágmarki 178.345* krónur hvert þessara þriggja ára.

Makalífeyrir er því 60% af áunnum- og framreikningsrétti.

* 178.435 kr. er grunnupphæð og skal verðbætt í byrjun hvers árs skv. vísitölu neysluverðs, miðað við grunnvísitölu 513 í janúar 2022.

Hver er maki?

Maki telst sá sem við andlát sjóðfélaga er:

 • í hjúskap með þeim látna.
 • í staðfestri samvist með þeim látna.
 • í óvígðri sambúð með þeim látna.

Fjárfélagi maka og þess látna má ekki hafa verið slitið fyrir andlátið þ.e. hjón eða sambúðarfólk þarf að hafa verið með sameiginleg fjármál við andlátið. Sambúðin þarf að hafa varað samfleytt í a.m.k. 2 ár.

Er hægt að nýta skattkort látins maka?

Við fráfall maka geta lífeyrisþegar nýtt skattkort makans í 9 mánuði frá og með andlátsmánuði.

Getur makalífeyrir fallið niður?

Ef makinn giftist aftur eða stofnar til sambúðar innan þess tíma sem hann/hún á rétt á makalífeyri fellur sá réttur niður.

Búseta erlendis - lífsvottorð

Makalífeyrisþegar sem eiga lögheimili sitt í öðru landi þurfa að skila inn lífsvottorði til sjóðsins. Senda þarf vottorðið fyrir 15. maí árlega meðan lögheimili er skráð erlendis. Berist sjóðnum ekki vottorðið falla greiðslur niður frá og með 1. júní sama ár. Hægt er að senda sjóðnum umbeðnar upplýsingar með bréfapósti eða tölvupósti á skrifstofa@live.is.

Séreign

Ef þú átt inneign í séreignardeild og fellur frá, greiðist inneignin þín til erfingja og skiptist milli þeirra eftir reglum erfðalaga um lögerfðir. Vegna skattfrestunarákvæða iðgjaldagreiðslna þá er reiknaður tekjuskattur við útborgun séreignarsparnaðar en ekki erfðafjárskattur.

Gögn sem fylgja þurfa umsókn vegna andláts eru;

 1. Vottorð frá sýslumanni sem heitir Yfirlit um framvindu skipta
  Þar kemur fram hverjir eru lögerfingjar.
 2. Upplýsingar um bankareikningsnúmer lögerfingja

Börn eða maki geta afsalað sínum hluta og er þá útbúin sérstök yfirlýsing þess efnis á skrifstofu sjóðsins sem aðilar þurfa að undirrita.

Greiði ég skatt af greiðslum úr séreignarsjóðnum?

Greiðslur úr lífeyrissjóðum eru skattlagðar eins og aðrar tekjur en hægt er að nýta persónuafslátt til þess að lækka skatta. Greiðslur úr séreignarsjóði lúta sömu lögum.

Sjá nánar um tekjuskatt.

Hvar sæki ég um makalífeyri? 

Þú sækir um makalífeyri með því að skrá þig inn á mínar síður með rafrænum skilríkjum.