Ellilífeyrir

Hagnýtar upplýsingar um upphaf lífeyristöku, hverju það breytir hvenær lífeyristaka byrjar, hvernig á að bera sig að við að hefja lífeyristöku o.fl.

Ellilífeyrir er greiddur eftirá, síðasta virka dag í mánuði. Lífeyrir greiðist ekki aftur í tímann. Sækja þarf um lífeyri fyrir 20. þess mánaðar sem lífeyristaka hefst. 

Upphaf lífeyristöku

Almennt hefst taka lífeyris þegar sjóðfélaginn er 67 ára. Hægt er þó að flýta lífeyristöku allt fram að 65 ára aldri eða seinka allt að 80 ára aldri. Þegar sjóðfélaginn hefur ákveðið að hefja töku lífeyris t.d. 67 ára fær hann því fyrstu lífeyrisgreiðsluna síðasta virka dag þess mánaðar sem hann nær aldrinum, þ.e. í afmælismánuðinum. 

Hvaða áhrif hefur frestun eða flýting lífeyristöku á lífeyrinn minn?

Mánaðarleg greiðsla til þeirra sem hefja lífeyristöku fyrir 67 ára aldur lækkar um allt að 15,0%, eftir því hvenær hún hefst, þar sem lífeyristakan dreifist yfir lengri tíma.

Ef þú kýst aftur á móti að fresta lífeyristöku fram yfir 67 ára aldur hækka mánaðarlegar greiðslur að sama skapi. Við 70 ára aldur hækkar lífeyririnn um 24,24% og við 80 ára aldur  hækkar hann um 235,44%.

Í meðfylgjandi töflu sjást áhrif á mánaðarlegar greiðslur eftir því hvort töku ellilífeyris er flýtt eða frestað. Taflan er unnin af tryggingastærðfræðingi út frá lífaldri Íslendinga hverju sinni og getur því tekið breytingum.

Aldur við upphaf eftirlauna Breyting mánaðargreiðslu
65 ára 15,0% lækkun
66 ára 7,8% lækkun
67 ára -
68 ára 7,2% hækkun
69 ára 15,24% hækkun
70 ára 24,24% hækkun
75 ára 91,68% hækkun
 80 ára 235,44% hækkun

*Töflu þessa er að finna í samþykktum LV og ganga þær framar ef þeim ber ekki saman við þennan texta.

Oft vaknar sú spurning hjá fólki sem er að komast á lífeyrisaldur hvenær hagstæðast sé að hefja lífeyristöku.  Það ræðst af lífaldri hvers og eins, þ.e. hvort viðkomandi lifi lengur eða skemur en sem nemur meðallífaldri.

Þetta er háð fleiri forsendum í ákvarðanatökunni og það er því þitt að meta hvað best er fyrir þig. „Vil ég hefja lífeyristöku strax eða geyma hana?“ er spurning sem hver og einn verður að svara fyrir sig.

Hálfur lífeyrir 50%

Heimilt er að hefja töku á hálfum lífeyri frá 65 ára aldri. Sá hluti sem frestað er tekur breytingum skv. samþykktum hvers tíma. Athuga þarf skilyrði fyrir hálfum lífeyri hjá Tryggingastofnun. Þau skilyrði geta mögulega breyst ef breytingar verða á lögum eða öðrum gildandi reglum sem varða lífeyrisgreiðslur stofnunarinnar. Á vef Tryggingastofnunar má nálgast nánari upplýsingar um töku hálfs lífeyris.

Búseta erlendis - lífsvottorð

Ellilífeyrisþegar sem flytja lögheimili sitt til annars lands þurfa að skila inn lífsvottorði til sjóðsins. Senda þarf vottorðið fyrir 15. maí árlega meðan lögheimili er skráð erlendis. Berist sjóðnum ekki vottorðið falla greiðslur niður frá og með 1. júní sama ár. Hægt er að senda sjóðnum umbeðnar upplýsingar með bréfapósti eða tölvupósti á skrifstofa@live.is.

Séreign

Séreignarlífeyrir er greiddur út eftir nokkuð öðrum reglum en ævilangur lífeyrir eða örorkulífeyrir. Þó er sameiginlegt að séreignarlífeyrir er skattlagður á sama hátt (haldið eftir staðgreiðslu) og sé hann greiddur mánaðarlega er útgreiðslan síðasta virka dag mánaðarins.

Að öðru leyti er séreignarsparnaðurinn laus til úttektar þegar sjóðfélaginn hefur náð 60 ára aldri eða ef hann fer á örorkulífeyri. Þar sem þessi lífeyrissparnaður er eign sjóðfélagans ræður hann hvernig útgreiðslunni er hagað, t.d. hvort greitt er út mánaðarlega í tiltekinn tíma eða allt tekið út í einu lagi.

Sjá nánar í kaflanum um Séreign.

Til að fá séreignarlífeyri greiddan út þarf að sækja um.

Réttindi í öðrum lífeyrissjóðum

Ef þú átt rétt í öðrum sjóðum sendum við umsóknina í þá sjóði samkvæmt nafnaskrá lífeyrissjóða. Þú merkir við það á umsókninni.

Hvar fæ ég upplýsingar um lífeyrisrétt minn?

Lífeyrisáætlun er reiknivél á Sjóðfélagavefnum. Þar er hægt að velja aðgang að Lífeyrisgáttinni sem gefur upplýsingar um lífeyrisréttindi hvers og eins í öllum lífeyrissjóðum sem hann/hún hefur greitt iðgjöld til um ævina. Með því að setja forsendur um laun, áætlaðan aldur við upphaf lífeyristöku o.s.frv. inn í reiknivélina er hægt að áætla, út frá þeim gefnu forsendum, hve mikinn lífeyri viðkomandi getur vænst að fá greiddan mánaðarlega næstu árin eftir að lífeyristaka hefst.

Einnig sendir sjóðurinn út yfirlit tvisvar á ári með upplýsingum um áunninn og væntanlegan lífeyri til sjóðfélaga sem greiða iðgjöld til sjóðsins.

Erfist réttur til ævilangs lífeyris?

Réttur til ævilangs lífeyris erfist ekki.

Hins vegar á maki rétt á makalífeyrisgreiðslum frá sjóðnum, á grundvelli þeirra iðgjalda sem sjóðfélagi hefur greitt til sjóðsins fyrir fráfall sitt.

Á sama grundvelli skapast réttur til barna- og  örorkulífeyris.
Frekari upplýsingar má finna á upplýsingasíðum um viðkomandi réttindi.

Greiði ég skatt af lífeyrisgreiðslum?

Lífeyrisgreiðslur frá lífeyrissjóðum eru skattskyldar með sama hætti og almennar launatekjur. Þú þarft því að gera ráð fyrir að greiða skatt af þeim tekjum sem þú færð frá sjóðnum eftir því skattþrepi sem þú ert í.

Sjá nánar um tekjuskatt.

Held ég rétti mínum hjá VR eftir að lífeyristaka hefst?

Þeir sem hefja töku lífeyris 67 ára eða eldri og hafa greitt í VR samfellt í 5 ára áður, halda rétti sínum hjá félaginu.

Hefjir þú töku lífeyris fyrir 67 ára aldur og greiddir félagsgjöld í VR samfellt í 5 ár áður er þér ráðlagt að greiða til VR af lífeyri þínum til 67 ára aldurs, viljir þú halda rétti þínum hjá félaginu.

Gott að hafa í huga

Hér eru hagnýtar upplýsingar sem gott er að hafa í huga varðandi lífeyrismál.

Hvað ...

... ef greiðslurnar berast ekki inn á reikninginn minn?

LV greiðir út lífeyri síðasta virka dag hvers mánaðar.  Ef greiðslan kemur ekki fram á reikningnum er rétt að hafa fyrst samband við bankann þinn.

... ef ég skipti um banka eða bankareikning?

Hægt er að breyta um bankareikning á sjóðfélagavefnum þínum

... ef ég flyt?

Þar sem gagnagrunnur okkar er tengdur við þjóðskrá er ekki þörf á að tilkynna um breytt lögheimili. 

Ef þú aftur á móti vilt fá upplýsingar sendar annað en á lögheimili, þarftu að tilkynna það til LV sérstaklega.

... ef ég bý erlendis?

Ef þú býrð erlendis og ert með lögheimili þar fáum við engar upplýsingar um heimilisföng nema þú látir okkur vita af breytingum.

Ef þú býrð erlendis þarftu að gæta þess að bankareikningur þinn á Íslandi sé opinn þar sem eingöngu er greiddur lífeyrir inn á innlenda bankareikninga.

Nánari upplýsingar um ævilangan lífeyri.