Fara á efnissvæði

Sláðu inn leitarorð

Á pari við stærsta fjárfestingarsjóð heims

Meðalraunávöxtun norska olíusjóðsins síðustu tuttugu ár hefur verið 4,1% í uppgjörsmynt sem þykir mjög góð ávöxtun. En meðalraunávöxtun Lífeyrissjóðs verslunarmanna yfir sama tímabil hefur verið 4,2% eða 0,1 prósentustigi meira. „Norski olíusjóðurinn getur sannarlega verið fyrirmynd okkar á mörgum sviðum en hvað varðar ávöxtun þá höfum við verið á pari og gott betur,“ sagði Guðrún Hafsteinsdóttir, stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, meðal annars í skýrslu stjórnar á ársfundi sjóðsins þann 21. mars síðastliðinn.

Guðrún vék í ræðu sinni að gagnrýni á íslensku lífeyrissjóðina. Hún nefndi sérstaklega samanburð við norska olíusjóðinn í því sambandi og sagði meðal annars þetta:

„Sumir, sem gagnrýnt hafa íslenska lífeyriskerfið, nefna í því sambandi norska olíusjóðinn sem fyrirmynd. Það er ekki ósanngjarnt enda stærsti sjóður í heimi og einn sá alþekktasti. Norski olíusjóðurinn á í dag 1,3% af öllum skráðum hlutabréfum í heiminum. 66% af eignum sjóðsins eru í skráðum hlutabréfum, 32% í skuldabréfum og 2,5% í fasteignum. Verðmætasta einstaka eign sjóðsins er hlutur í Apple sem metinn er á um 770 milljarða svo dæmi sé tekið. Það er um 100 milljörðum meira en allar eignir Lífeyrissjóðs verslunarmanna.

Höfum verið á pari og gott betur

Meðalraunávöxtun norska olíusjóðsins síðustu tuttugu ár, frá 1998 – 2017, hefur verið 4,1% sem þykir mjög góð ávöxtun og reglulega er vitnað til góðs árangurs sjóðsins. En meðalraunávöxtun Lífeyrissjóðs verslunarmanna yfir sama tímabil hefur verið 4,2% eða 0,1 prósentustigi meira. Norski olíusjóðurinn getur sannarlega verið fyrirmynd okkar á mörgum sviðum en hvað varðar ávöxtun þá höfum við verið á pari og gott betur.

Getum verið stolt af íslenska lífeyrissjóðakerfinu

Norski olíusjóðurinn er stærsti þjóðarsjóður heims. Hlutverk hans er að einangra olíuauð Norðmanna frá hagkerfinu til þess að koma í veg fyrir „hollensku veikina“, að olíuauðurinn ryðji atvinnugreinum úr vegi, ekki síst útflutningsgreinum, þar sem gengi krónunnar yrði annars of sterkt. Sjóðurinn má aðeins fjárfesta erlendis til að koma í veg fyrir ofhitnun í hagkerfi Noregs. Hlutverk sjóðsins er einnig að veita kynslóðum framtíðarinnar hlutdeild í olíuauðnum.  Af þessari upptalningu má heyra ýmis líkindi á milli íslenska lífeyrissjóðakerfisins og norska olíusjóðsins og í þeim samanburði hallar hvað síst á íslensku sjóðina. Rétt eins og Norðmenn eru stoltir af sínum framtíðarsjóði sem á að verja komandi kynslóðir fyrir áföllum getum við verið stolt af íslenska lífeyrissjóðakerfinu sem er eitt það besta á byggðu bóli.  Það er sjálfsagt að gagnrýna en best er ef hún leiðir til breytinga til góðs án þess að kollvarpa þurfi þessum góða árangri sem við höfum náð saman. Á síðustu 50 árum hefur okkur tekist að byggja upp lífeyriskerfi sem þjónar okkur vel. Fjölmörg tækifæri eru til að bæta það enn frekar. Við skulum einhenda okkur í þau verkefni.

Allt gert til að vanda ákvarðanir við fjárfestingar

Einna fyrirferðarmest í þeirri umræðu eru fjárfestingar lífeyrissjóða. Hversu mikið eiga sjóðirnir að fjárfesta hér heima? Hversu mikið eiga þeir að fjárfesta erlendis? Hversu mikið í hlutabréfum og hversu mikið skuldabréfum? Í hruninu voru sjóðirnir gagnrýndir fyrir að tapa um 20% af eignum sínum en einmitt þá sáum við vel hversu öflugt lífeyriskerfið okkar er. Þegar allt fjármálakerfið hrundi nánast á einu bretti, allir bankar og öll tryggingarfélögin urðu gjaldþrota og meira að segja Seðlabankinn varð tæknilega gjaldþrota þá stóðu lífeyrissjóðirnir hrunið af sér. Þeir voru það eina sem stóð og voru fljótir að vinna upp það 20% tap sem þeir urðu fyrir. Horfum aftur til Noregs um samanburð. Rangar fjárfestingarákvarðanir norska olíusjóðsins hafa kostað hann um 9-13% af heildareignum sjóðsins og árið 2008 tapaði hann tæpum fjórðungi eigna sinn á skömmum tíma. Í ólgusjó fjármálaviðskipta er óhjákvæmilegt að teknar séu rangar fjárfestingarákvarðanir. Það þarf þó ávallt að draga lærdóm af slæmum ákvörðunum og hindra að gerð séu sömu mistök á ný. Lífeyrissjóður verslunarmanna starfar eftir áhættustefnu og hefur sjóðurinn sér til liðsinnis áhættustjóra. Allt er gert til að vanda ákvarðanir við fjárfestingar. Umræðan um umsvif lífeyrissjóðanna í hagkerfinu er eðlileg og nauðsynleg. Spurningin er ekki hvort heldur hvert hlutfall fjárfestinga sjóðanna eigi að vera hér á landi? Á tíma gjaldeyrishaftanna dróst hlutfall erlendra eigna Lífeyrissjóðs verzlunarmanna saman, en fjárfestingarstefna sjóðsins hefur gert ráð fyrir hærra hlutfalli erlendra eigna. Þess vegna nýtti sjóðurinn allar heimildir Seðlabankans til erlendra fjárfestinga á haftatímanum og eftir að höftunum var aflétt höfum við markvisst aukið við erlendu eignirnar. Í því felst meiri áhættudreifing, eða með öðrum orðum meira öryggi fjárfestinga fyrir hönd sjóðfélagana.“

Ræðu stjórnarformanns í heild má sjá hér.