Tilgreind séreign

Mótframlag hefur hækkað. Sjóðfélagi velur hvort hækkun mótframlags fer að hluta eða að öllu leyti í tilgreinda séreign eða samtryggingu. Ef ekkert er valið fer öll hækkunin í samtryggingu.

Samtrygging

 • Ævilangur lífeyrir
 • Veitir rétt til örorkulífeyris
 • Veitir rétt til maka- og barnalífeyris
 • Almennur lífeyrisaldur er 67 ára
 • Hægt að flýta eða seinka lífeyristöku

Tilgreind séreign

 • Einkaeign sjóðfélaga
 • Erfist
 • Hægt að hefja úttekt 62 ára
 • Ekki ævilangar greiðslur
 • Veitir ekki rétt til örorku, maka- eða barnalífeyris
 • Til útgreiðslu við örorku eins og viðbótarlífeyrissparnaður
 • Ekki heimilt að ráðstafa inná lán

Samkomulag ASÍ og SA frá 21. janúar 2016 kveður á um hækkun mótframlags launagreiðenda í áföngum úr 8% í 11,5%.

Alls er hækkunin 3,5% af launum, sem mótframlagið hækkar um, þá verður iðgjaldið 15,5%.

 • Í fyrsta áfanga, í júlí 2016, bættust 0,5% við, mótframlagið hækkaði úr 8% í 8,5%.
 • Í öðrum áfanga, í júlí 2017, bættust 1,5% við og mótframlagið varð 10%.
 • Í þriðja áfanga, júlí 2018, bættust 1,5% við og mótframlagið varð 11,5%.
 • Iðgjald launamanns verður óbreytt, 4% af launum.

Í samkomulaginu er jafnframt kveðið á um að hver og einn sjóðfélagi geti valið um hvort hækkunin verði sett í samtryggingarsjóð, eins og iðgjaldið hefur gert, eða í séreignarsjóð. Kjósi sjóðfélaginn að setja hækkunina í séreign fer hún í nýja gerð séreignar, sem kallast „tilgreind séreign,“ til aðgreiningar frá hinum frjálsa séreignarsparnaði sem hefur verið í boði.

Sjóðfélagi getur hvenær sem er ákveðið að breyta ráðstöfun hækkunar mótframlags atvinnurekanda, úr samtryggingu í tilgreinda séreign að öllu leyti eða að hluta, eða úr tilgreindri séreign í samtryggingu. Breytingin tekur þá gild frá þeim tíma, en er ekki afturvirk.

Í lögum, reglugerð og með vísan til dreifibréfs Fjármálaeftirlitsins dagsettu 7. júlí 2017, er gert ráð fyrir því að sjóðfélagi geti einnig ráðstafað iðgjaldi sem hann velur að renni í „tilgreinda séreign“ til annars vörsluaðila lífeyrissparnaðar. Iðgjaldi ráðstafað til annars vörsluaðila.

Tilgreind séreign

Tilgreind séreign er einkaeign sjóðfélagans og erfist eftir reglum erfðalaga.

Aðrar reglur gilda um tilgreinda séreign heldur en frjálsu séreignina. Tilgreind séreign er laus til útborgunar við 67 ára aldur. Þó er hægt að flýta útgreiðslu um allt að fimm ár, en þá skal dreifa greiðslunum þar til sjóðfélagi nær 67 ára aldri. 

Tilgreind séreign myndar sjálfstæðan sjóð í eigu sjóðfélagans. Hún getur því ekki myndað rétt til ævilangs lífeyris, heldur minnkar sjóðurinn með hverri úttekt þar til hann tæmist um síðir.

Tilgreindri séreign er ekki heimilt að ráðstafa inn á lán eða í annað sem sérstök úrræði stjórnvalda heimila að ráðstafa frjálsu séreigninni í.

Tilgreinda séreign er hægt að fá greidda út við örorku eins og frjálsa séreign. Tilgreind séreign myndar ekki rétt til örorku-, maka- eða barnalífeyris. 

Samtrygging

Þú getur valið að setja viðbótarframlagið, allt eða að hluta, í samtryggingu eins og iðgjöldin hingað til. Ef ekkert er valið fara þau sjálfkrafa í samtryggingu. Með samtryggingu ávinnur þú þér mikilsverð réttindi og tryggingavernd.

Þú eignast ekki tiltekna inneign á reikningi, eins og gildir um séreignarsparnað, heldur ávinnur þú þér tryggingu fyrir ævilöngum lífeyrisgreiðslum frá því að taka lífeyris hefst.

Ævilangur lífeyrir er greiddur ævina á enda í samræmi við áunnin réttindi. Önnur laun eða greiðslur skerða ekki ævilangan lífeyri.

Auk réttar til ævilangs lífeyris ávinnur þú þér rétt til örorkulífeyris vegna skertrar starfsgetu. Sömuleiðis ávinnur þú maka þínum rétt til makalífeyris við fráfall og börnum þínum rétt til barnalífeyris ef starfsgeta þín skerðist verulega eða þú fellur frá.

Almennur eftirlaunaaldur miðast við 67 ára aldur. Þú hefur jafnframt val um að flýta töku lífeyris til 65 ára aldurs eða fresta til allt að 80 ára aldurs.

Nánar um samtryggingu

Munur á séreign og tilgreindri séreign

Séreign (einnig viðbótarlífeyrissparnaður, séreignarlífeyrissparnaður, frjáls séreign) er frjálst val sjóðfélagans, sem getur lagt allt að 4% launa sinna í séreignarsparnað og á þá rétt á 2% mótframlagi frá launagreiðanda. Séreign má ráðstafa til íbúðakaupa og/eða til að greiða inn á veðlán samkvæmt reglum sem stjórnvöld setja hverju sinni. Séreign er frjáls til útborgunar við 60 ára aldur sjóðfélagans.

Tilgreind séreign er valkostur til ráðstöfunar á hækkun mótframlags launagreiðenda. Sjóðfélagi getur valið að ráðstafa þessari hækkun, allri eða að hluta, í tilgreinda séreign. Ef ekkert er valið fer hækkunin öll í samtryggingu. Tilgreind séreign er frábrugðin séreign að því leyti að iðgjaldið er ekki valkostur sjóðfélagans, en val er um ráðstöfun þess í samtryggingu eða tilgreinda séreign. Ekki er hægt að ráðstafa tilgreindri séreign inn á lán eða samkvæmt öðrum sérstökum ráðstöfunum stjórnvalda á hverjum tíma. Tilgreind séreign er ávöxtuð í C-deild sjóðsins og velur sjóðfélagi eina af þremur ávöxtunarleiðum. Tilgreind séreign er laus til útborgunar við 67 ára aldur, en hægt að flýta útgreiðslu um allt að fimm ár með því að mánaðarlegar greiðslur dreifist jafnt a.m.k. til 67 ára aldurs. 

Fjárfestingarleiðir

Velja skal eina fjárfestingarleið. Ef engin leið er valin ávaxtast inneign samkvæmt Ævilínu.

Ævileið I – Langtímaleið: Markmið safnsins er að skila góðri langtíma ávöxtun með skilvirkri eignadreifingu. Ætluð til að ávaxta safn lengur en til 7 ára.
Ævileið II  – Varfærin leið: Markmið safnsins er að skila stöðugri ávöxtun með takmarkaðri áhættu. Ætluð til að ávaxta safn lengur en til 5 ára.
   Ævileið III – Úttektaleið: Markmið safnsins er að varðveita áunna eign, en um leið skila jákvæðri raunávöxtun.

Ævilína - Sjálfvirkur flutningur milli fjárfestingarleiða:
Færa iðgjald og inneign úr Ævileið I í Ævileið II við 55 ára aldur og úr Ævileið II  í Ævileið III við úttekt. 

Breyting á fjárfestingarleið: Heimilt er að breyta um fjárfestingarleið og færa áunna tilgreinda séreign á milli fjárfestingarleiða. Slíkt skal tilkynnt til sjóðsins á formi sem sjóðurinn útbýr

Nánar um fjárfestingastefnu fjárfestingaleiða: Eign er ávöxtuð samkvæmt fjárfestingarstefnu sjóðsins eins og hún er á hverjum tíma. Stefnan er endurskoðuð að jafnaði einu sinni á ári. Gildandi fjárfestingarstefna er aðgengileg sjóðfélögum, m.a. á vef sjóðsins. 

Nánar um fjárfestingarleiðir

Ráðstöfun á tilgreindri séreign

Á sjóðfélagavefnum ráðstafar þú viðbótariðgjaldinu. Aðgangur er með rafrænum skilríkjum.
Ef þú ert ekki með rafræn skilríki getur þú prentað út tilkynninguna um upplýst samþykki, fyllt út og komið henni til okkar.

Ráðstöfun til annars vörsluaðila

 • Ef óskað er eftir að flytja þann iðgjaldshluta sem tilheyrir tilgreindri séreign til annars vörsluaðila þá þarf að skila inn tilkynningu til sjóðsins þar sem óskað er eftir að ráðstafa hækkun á  mótframlagi launagreiðanda í tilgreinda séreign. Í tilkynningunni tekur sjóðfélagi fram nafn og kennitölu vörsluaðila.

 • Til þess að hægt sé að flytja iðgjald frá Lífeyrissjóði verzlunarmanna til annars vörsluaðila þarf sjóðfélagi að hafa gert samning um tilgreinda séreign við vörsluaðila

  Ráðstafa hækkun mótframlags til annars vörsluaðila