Áfallalífeyrir

Undir áfallalífeyri falla örorku- maka- og barnalífeyrisgreiðslur. Þetta eru verðmæt réttindi sem skapast ef fólk missir starfsorku. Einnig greiðist makalífeyrir við fráfall sjóðfélaga.


Örorkulífeyrir

Þú átt rétt á örorkulífeyri ef starfsgeta þín skerðist vegna sjúkdóma eða slyss þannig að skerðingin sé metin til a.m.k. 50% örorku af trúnaðarlækni sjóðsins.

Í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða eru settar grunnreglur um örorkulífeyri. Jafnframt er gert ráð fyrir því að nánari reglur séu settar í samþykktum hvers lífeyrissjóðs. Reglurnar geta því verið nokkuð mismunandi frá einum sjóði til annars. Í samþykktum LV er að finna reglur um örorkulífeyri, forsendur fyrir rétti til örorkulífeyris og útreikningi hans.

Hvenær á ég rétt á örorkulífeyri?

Þú þarft að vera yngri en 67 ára og hafa greitt iðgjöld í lífeyrissjóð í samtals 24 mánuði fyrir orkutap. Með orkutapi er átt við það slys eða sjúkdóm sem veldur skertri starfsgetu. Réttur til örorkulífeyris fellur ekki niður þótt þú hættir iðgjaldagreiðslu. Þetta gildir eingöngu ef þú hefur orðið fyrir tekjumissi vegna orkutapsins. Rétturinn miðast þá við þau réttindi sem þú hefur þegar áunnið þér.

Með öðrum orðum:

  • þú ert ófær um að gegna því starfi sem veitti þér aðild að sjóðnum
  • örorka þín er metin a.m.k. 50%
  • þú hefur orðið fyrir tekjumissi vegna örorkunnar
  • orkutap verður að hafa varað lengur en 6 mánuði

Hvernig er skert starfsgeta metin?

Meginskilyrði fyrir rétti til örorkulífeyris er að þú hafir orðið fyrir orkutapi sem metið er til að minnsta kosti 50% örorku og verðir fyrir tekjumissi vegna þess.

Einnig er það skilyrði fyrir örorkulífeyri að orkutap hafi varað í a.m.k. sex mánuði.

Örorkan er metin af trúnaðarlækni sjóðsins.

Hverjar eru forsendur fyrir örorkumati?

Fyrstu þrjú árin eftir orkutap er miðað við getu þína til að gegna því starfi sem veitti þér aðild að sjóðnum. Eftir það er miðað við hæfni þína til að gegna almennum störfum.

Er örorkumat endanlegt eða endurmetið síðar?

Endurmat á örorku skal fara fram á þriggja ára fresti eða oftar telji trúnaðarlæknir þess þörf.

Örorkulífeyrir greiðist að hámarki til 67 ára aldurs. Eftir það greiðist lífeyrir til æviloka.

Hver er fjárhæð örorkulífeyris?

Fjárhæð örorkulífeyris miðast við áunnin réttindi* og örorkumat trúnaðarlæknis.  Að uppfylltum tilteknum skilyrðum ávinnur þú þér rétt til svokallaðs framreiknings örorkulífeyris sem hækkar almennt fjárhæð örorkulífeyris.

Nánari útskýring á framreikningi er að finna í svari við spurningunni "Hvað er framreikningur réttinda?" hér að neðan.

* Sbr. ákvæði 11. gr. samþykkta sjóðsins.

Hvaða upplýsingar þarf ég að veita sjóðnum vegna umsóknar um örorkulífeyri?

Ef þú sækir um örorkulífeyri, eða ert örorkulífeyrisþegi, ber þér að láta sjóðnum í té upplýsingar um heilsufar þitt og tekjur sem nauðsynlegar eru til þess að úrskurða um rétt þinn til örorkulífeyris.

Hvert sný ég mér ef ég hef greitt í fleiri en einn lífeyrissjóð?

Meginreglan er að sækja skuli um örorkulífeyri hjá þeim sjóði sem þú greiddir síðast til við orkutap. Ef þú hefur greitt í fleiri en einn sjóð síðustu þrjú ár fyrir orkutap getur verið um skiptan framreikning milli sjóða að ræða.

Er hámark á greiðslum örorkulífeyris?

Örorkulífeyri er ætlað að bæta fjárhagslegt tjón vegna orkutaps. Því gildir sú regla að samanlagður örorkulífeyrir og barnalífeyrir skuli aldrei vera hærri en sem nemur þeim tekjumissi sem þú hefur sannanlega orðið fyrir vegna örorkunnar.

Við mat á tekjumissi er tekið tillit til eftirfarandi greiðslna:

  • atvinnutekna þinna
  • lífeyris- og bótagreiðslna frá almannatryggingum
  • greiðslna frá öðrum lífeyrissjóðum
  • kjarasamningsbundinna tryggingabóta sem þú nýtur vegna örorkunnar

Umsækjandi um örorkulífeyri veitir sjóðnum upplýst samþykki til að afla upplýsinga úr staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra. Einnig getur sjóðurinn krafist upplýsinga frá skattstofu og vinnuveitanda.

Við mat á því hvort tekjuskerðing hafi orðið vegna örorkunnar, eru þér úrskurðaðar viðmiðunartekjur, sem skulu vera meðaltal tekna þinna síðustu þrjú almanaksár fyrir orkutapið, verðbættar til úrskurðardags*. Frá úrskurðardegi taka viðmiðunartekjurnar breytingum í samræmi við vísitölu neysluverðs.

* Sbr. lokamálsgrein gr. 13.5. og gr. 13.6. um framreikning í samþykktum sjóðsins.

Hvað er framreikningur réttinda?

Ef þú átt rétt á framreikningi færðu lífeyri sem þú hefðir áunnið þér til 65 ára aldurs, til viðbótar þeim örorkulífeyri sem byggir á áunnum réttindum. Við þann útreikning er miðað við meðaltal launa þinna þrjú* almanaksár fyrir orkutapið. Framreikningur getur  verið skertur skv. gr. 13.7 í samþykktum sjóðsins ef iðgjaldagreiðslur eru stopular í  fleiri en 1 ár frá 25 ára aldri til orkutaps.

Jafnframt gildir sú mikilvæga regla að þú ávinnur þér áfram rétt til ellilífeyris eins og þú hefðir greitt iðgjöld til 65 ára aldurs.

Hver eru meginskilyrði fyrir framreikningi

Þú átt rétt til framreiknings örorkulífeyrisréttinda, samkvæmt nánari ákvæðum samþykkta sjóðsins, ef þú uppfyllir eftirfarandi þrjú skilyrði:

  • hefur greitt iðgjöld til sjóðsins í að lágmarki þrjú af undanförnum fjórum almanaksárum og að minnsta kosti 178.435** kr. hvert þessara þriggja ára
  • hefur greitt iðgjald til sjóðsins í að minnsta kosti sex mánuði á undanförnum tólf mánuðum
  • hefur ekki orðið fyrir orkutapi sem rekja má til ofnotkunar áfengis, lyfja eða fíkniefna

* Í grein 13.6 í samþykktum sjóðsins kemur fram að reynist þriggja ára meðaltal sjóðfélagans samkvæmt þriggja ára reglunni (sbr. gr. 13.5) óhagstætt vegna sjúkdóma eða atvinnuleysis, er heimilt að leggja til grundvallar meðaltal réttinda átta almanaksára fyrir orkutapið og sleppa því almanaksári sem lakast er sem og því almanaksári sem hagstæðast er. Hafi sjóðfélagi greitt iðgjöld í skemmri tíma en átta ár fyrir orkutapið skal reikna út frá viðkomandi árafjölda. 

Í grein 11.17 kemur eftirfarandi fram: Nemi meðaliðgjaldið hærri fjárhæð en 1.784.348 kr. skal framreikna með meðaliðgjaldinu í allt að 10 ár, en síðan til 65 ára aldurs með 1.784.348 kr. iðgjöldum á ári að viðbættum helmingi þess meðaliðgjalds sem umfram er.

** 178.435 kr. er grunnupphæð og skal verðbætt í byrjun hvers árs skv. vísitölu neysluverðs, miðað við grunnvísitölu 513. Í grein 13.8 kemur fram að hafi sjóðfélagi öðlast rétt til framreiknings skv. grein 13.5 sem fallið hefur niður vegna tímabundinnar fjarveru af vinnumarkaði í allt að 36 mánuði, vegna náms, leyfis frá störfum, barneigna eða sambærilegra ástæðna eftir mati sjóðsins, skal framreikningsréttur stofnast á nýjan leik eftir sex mánuði frá því hann hefur aftur greiðslu iðgjalds til sjóðsins. Lífeyrissjóðurinn getur óskað eftir gögnum til sönnunar á því að sjóðfélagi hafi ekki haft tekjur á umræddu tímabili, sem og kallað eftir öðrum gögnum sem þörf er á til að meta skilyrði ákvæðisins, og sett slík gagnaskil sem skilyrði fyrir beitingu greinarinnar. 

Hvernig virkar framreikningur lífeyrisréttinda?

Þessari spurningu verður best svarað með dæmi og skýringarmynd.

Framreikningur lífeyrisréttindaMyndin tekur mið af sjóðfélaga sem greiðir 12% iðgjald til sjóðsins af 200.000 kr. launum. Verði hann 100% öryrki við 32 ára aldur hefur hann áunnið sér í lífeyri 43.147 kr. Að öðru óbreyttu ætti hann því rétt á þeirri fjárhæð í örorkulífeyri til 67 ára aldurs og samsvarandi fjárhæð í ævilangan lífeyri eftir það.

Hafi hann hins vegar áunnið sér rétt til framreiknings, á hann rétt á örorkulífeyri sem svarar til þess lífeyris sem hann hefði áunnið sér ef hann hefði haldið áfram að greiða til sjóðsins. Við útreikning er miðað við meðallaun sl. þriggja ára fyrir orkutap.

Miðað við framangreindar forsendur fengi sjóðfélaginn framreiknaðan örorkulífeyri til lífeyrisaldurs sem nemur 140.867*. Frá 67 ára aldri tekur við ævilangur lífeyrir sem nemur sömu fjárhæð.

Dæmið sýnir að framreiknaður örorkulífeyrir er verðmæt trygging og mikilvæg þeim sem hennar njóta.

Mikilvægt er að hafa í huga að örorkulífeyri er ekki ætlað að tryggja þér hærri tekjur en þú hafðir fyrir örorkuna. Því eru aðrar greiðslur eins og launagreiðslur og greiðslur frá almannatryggingum dregnar frá örorkulífeyri.

Meginskilyrði fyrir rétti til framreiknings örorkulífeyris eru þau að þú hafir greitt til sjóðsins tiltekin lágmarksiðgjöld í þrjú ár af sl. fjórum árum og þar af í sex mánuði af sl. tólf mánuðum. Nánari reglur um örorkulífeyri og skilyrði fyrir framreikningi hans er að finna í samþykktum sjóðsins.

* 140.867 kr. er sú fjárhæð sem sjóðfélagi hefði áunnið sér í lífeyri ef hann hefði greitt áfram 12% iðgjöld til sjóðsins af viðmiðunarlaunum sem eru þau laun sem hann hafði s.l. þrjú ár. Miðað er við aldurstengda réttindaávinnslu til 65 ára aldurs, sbr. samþykktir Lífeyrissjóðs verzlunarmanna.

Breytingar á reglum um örorkulífeyri
Reglur um örorkulífeyri geta breyst með breytingum á samþykktum sjóðsins. Í samþykktum er mælt fyrir um að framreikningur skuli vera samkvæmt þeim reglum sem giltu þegar réttur til örorkulífeyris varð virkur.

Fyrirvari
Framangreindar upplýsingar eru settar fram í upplýsingaskyni. Beri textanum ekki saman við texta samþykkta sjóðsins gilda samþykktir hans.

Nánari upplýsingar má fá hjá lífeyrisdeild sjóðsins.

Makalífeyrir

Þegar þú greiðir í lífeyrissjóð ertu ekki eingöngu að afla þér réttinda á efri árum þegar þú hættir að vinna, heldur líka að tryggja að einhverju leyti afkomu fjölskyldu þinnar ef þú fellur frá. Ef þú fellur frá á maki þinn rétt til makalífeyris frá sjóðnum.

Hversu lengi er makalífeyrir greiddur?

  • Ef þið eigið börn undir 23 ára aldri: Maki þinn fær makalífeyri þangað til yngsta barnið hefur náð 23 ára aldri.
  • Maki þinn er öryrki og er yngri en 65 ára: Makalífeyrir er greiddur á meðan makinn er öryrki en að hámarki til 67 ára aldurs.
  • Verðbættur makalífeyrir: Hann byggist á því að iðgjöld sjóðfélagans til og með desember 2014 eru færð til verðlags í dag. Þannig fær makinn greiddan lífeyri á grundvelli iðgjalda sjóðfélagans með verðbótum. Mánaðarfjöldi verðbætts makalífeyris er fundinn með því að deila mánaðarfjárhæð makalífeyris upp í heildarfjárhæð verðbætts iðgjalds að frádregnum verðbættum lífeyrisgreiðslum. 
  • Maki fædd(ur) fyrir 1925: Greiddur er ævilangur lífeyrir.
  • Maki fædd(ur) frá 1925-1944: Maki þinn fær ævilangan lífeyri en sú upphæð fer stiglækkandi eftir fæðingarári.
  • Makalífeyrir fer eins og að framan greinir eftir atvikum, er þó aldrei greiddur skemur en í 5 ár. Fullur makalífeyrir í 3 ár og hálfur í 2 ár að auki.

Hvernig er makalífeyrir reiknaður?

Makalífeyrir er 60% af áunnum réttindum sjóðfélagans við 67 ára aldur. Ef sjóðfélagi uppfyllir eftirfarandi skilyrði er réttur á framreikningi réttinda til 65 ára aldurs:

  • Að hafa greitt í sjóðinn í a.m.k. 3 af síðustu 4 árum fyrir andlát.
  • Að hafa greitt í sjóðinn í a.m.k. 6 mánuði síðasta árið fyrir andlát.
  • Að hafa greitt iðgjald í sjóðinn að lágmarki 178.435* krónur hvert þessara þriggja ára.

Makalífeyrir er því 60% af áunnum- og framreikningsrétti.

* 178.435 kr. er grunnupphæð og skal verðbætt í byrjun hvers árs skv. vísitölu neysluverðs, miðað við grunnvísitölu 513 í janúar 2022.   

Hver er maki?

Maki telst sá sem við andlát sjóðfélaga er:

  • í hjúskap með þeim látna.
  • í staðfestri samvist með þeim látna.
  • í óvígðri sambúð með þeim látna.

Fjárfélagi maka og þess látna má ekki hafa verið slitið fyrir andlátið þ.e. hjón eða sambúðarfólk þarf að hafa verið með sameiginleg fjármál við andlátið. Sambúðin þarf að hafa varað samfleytt í a.m.k. 2 ár.

Getur makalífeyrir fallið niður?

Ef makinn giftist aftur eða stofnar til sambúðar innan þess tíma sem hann/hún á rétt á makalífeyri fellur sá réttur niður.

Barnalífeyrir

Barnalífeyrir er greiddur með börnum þínum ef þú fellur frá eða verður öryrki. Sama rétt eiga fósturbörn og stjúpbörn sem eru á framfærslu þinni.

Hver eru skilyrðin fyrir greiðslu barnalífeyris?

Skilyrði fyrir greiðslu barnalífeyris er að látinn maki/foreldri hafi greitt í sjóðinn í 2 ár á síðustu 3 árum eða í a.m.k. 6 mánuði síðasta árið fyrir fráfall.

Ef þú ert öryrki og færð greiddan örorkulífeyrir frá sjóðunum áttu rétt á barnalífeyri ef þú hefur greitt í sjóðinn í 2 ár á síðustu 3 árum eða þú átt rétt á framreikningi. Réttur til barnalífeyris fylgir ávallt sömu hlutföllum og örorkulífeyrir og greiðist vegna barna fædd fyrir orkutap eða á næstu 12 mánuðum þar á eftir. 

Hversu hár er barnalífeyrir?

Barnalífeyrir er nú 25.363 kr. á mánuði fyrir hvert barn og er greiddur til 20 ára aldurs þess. Barnalífeyrir er verðtryggður miðað við vísitölu neysluverðs.

Barnalífeyrir getur skerst ef hann er greiddur samhliða skertum örorkulífeyri. 

Hver fær greiddan barnalífeyri?

Barnalífeyrir vegna andláts er greiddur inn á reikning barns, barnalífeyrir vegna örorku greiðist örorkulífeyrisþeganum.