Lánareglur

Veðlán til sjóðfélaga

Vakin er athygli á því að ný lög um fasteignalán til neytenda tók gildi 1. apríl síðastliðinn og verður lánareglum sjóðsins breytt til samræmis við lögin á næsta stjórnarfundi.
Ef lánareglur stangast á við lögin, þá gilda lögin.

1. Lánsréttur

Lánsrétt eiga sjóðfélagar sem hafa greitt iðgjöld til sjóðsins að uppfylltum öðrum skilyrðum lánareglna. Sjóðfélagalán eru fasteignaveðlán sem veitt eru á grundvelli laga um neytendalán. Að jafnaði eru ekki veitt lán til einstaklinga með veði í fleiri en tveimur fasteignum. 

2. Vaxtakjör og verðtrygging

2.1. Verðtryggð lán

2.1.1. Lán með föstum vöxtum  

Stjórn sjóðsins tekur ákvörðun um fasta verðtryggða vexti. Fastir vextir taka ekki breytingum á lánstíma lánsins.

Lántaki getur valið milli láns með jöfnum greiðslum (annuitet) og láns með jöfnum afborgunum.

2.1.2. Lán með breytilegum vöxtum

Vextir lána með breytilegum vöxtum taka breytingum 15. hvers mánaðar og eru 0,75% hærri en meðalávöxtun í síðasta mánuði á flokki íbúðabréfa (HFF150434) skráður í kauphöll Nasdaq OMX.
Stjórn er heimilt að breyta viðmiðum varðandi ákvörðun vaxta verðtryggðra lána með breytilegum vöxtum. Í stað þess að miða við flokk íbúðabréfa (nú HFF150434) er heimilt að miða við aðra þætti sem geta haft áhrif á kjör fasteignaveðlána svo sem vexti ákvarðaða af Seðlabanka Íslands, innlánsvexti, ávöxtunarkröfu á ríkisskuldabréfum á markaði, sögulega og vænta verðbólgu, vaxtakjör á markaði fyrir sambærileg lán og áhættumat sjóðsins.
Lán með breytilegum vöxtum eru með jöfnum afborgunum.

2.1.3. Lán er bundið vísitölu neysluverðs til verðtryggingar sem Hagstofa Íslands reiknar mánaðarlega samkvæmt gildandi lögum og birtir í Lögbirtingablaði.

2.2. Óverðtryggð lán

2.2.1. Ákvörðun vaxta

Stjórn tekur ákvörðun um vexti og breytingar á þeim.

Vextir á nýjum óverðtryggðum lánum skulu breytast á þriggja mánaða fresti frá og með 15. október 2015 að telja, nema stjórn ákveði annað. Við ákvörðun vaxta og vaxtabreytinga er miðað við að vextir séu 1,0% hærri en meðalávöxtunarkrafa síðustu þriggja almanaksmánaða á óverðtryggðum ríkisskuldabréfum á markaði, nú flokkur RIKB 31 0124, vegin eftir fjárhæð viðskipta hvers mánaðar.
Stjórn áskilur sér rétt til að miða við annað viðmiðunartímabil, sem og að líta til annarra viðmiða eins og vaxta ákvarðaða af Seðlabanka Íslands, ávöxtunarkröfu á ríkisskuldabréfum á markaði, sögulegrar og væntrar verðbólgu, vaxtakjara á markaði fyrir sambærileg lán sem og áhættumats sjóðsins.

2.2.2. Jafnar afborganir eða jafnar greiðslur

Lántaki getur valið milli láns með jöfnum greiðslum (annuitet) og láns með jöfnum afborgunum.

2.2.3. Endurákvörðun vaxta af veittum lánum

Vextir óverðtryggðra lána eru við lánveitingu festir til 36 mánaða í senn. Að 36 mánaða tímabili liðnu, frá fyrsta gjalddaga skuldabréfs að telja, eru ákvarðaðir nýir vextir með sama hætti og af nýjum lánum á þeim tíma (endurákvörðunardagur vaxta). Endurákvarðaðir vextir taka gildi á næsta gjalddaga eftir endurákvörðunardag vaxta. Gilda þeir til næstu 36 mánaða frá endurákvörðunardegi að telja og endurákvarðast svo áfram á 36 mánaða fresti út lánstímann, með sama hætti og að framan greinir.
Stjórn getur ákvarðað breytingar á fyrirkomulagi þessu og skal það þá tilkynnt skuldara bréflega (stílað á lögheimili viðtakanda), með tilkynningu inn á persónugreinanlegt vefsvæði hjá sjóðnum, eða með öðrum viðurkenndum hætti.
Innan 30 daga áður en vaxtabreyting á sér stað, þ.e. á 36 mánaða fresti, er lántaka heimilt að breyta láninu í verðtryggt lán, án lántökugjalds, enda séu verðtryggð lán í boði hjá sjóðnum á þeim tíma.

2.3.      

Gildandi vextir á hverjum tíma eru birtir á vef lífeyrissjóðsins.

3. Lánsfjárhæð og mat á greiðslugetu

3.1.     

Lágmarksfjárhæð láns er kr. 1.000.000. Hámarksfjárhæð sjóðfélagaláns til einstaklings, hjóna eða sambúðarmaka er kr. 50.000.000.

3.2.      

Hámarksfjárhæð tekur einnig mið af veðrými, sbr. gr. 5.2. og mati á lánshæfi og greiðslugetu umsækjanda, sbr. gr. 3.3.

3.3.      

Áður en lán er veitt er lánshæfi umsækjanda metið.
Ef fjárhæð láns er 2 milljónir króna eða meira hjá einstaklingi og 4 milljónir króna eða meira, ef um hjón eða sambúðarfólk er að ræða, eða ef veðsetning fer yfir 65%, skal fara fram greiðslumat. Almennt er jafnframt kallað eftir greiðslumati ef veðsetning á hinni veðsettu eign fer yfir 20 milljónir króna. Áskilinn er réttur til að kalla eftir greiðslumati af öðrum ástæðum eftir mati sjóðsins.
Um lánshæfismat og greiðslumat er vísað til d-liðar og i-liðar 1. mgr. 5. gr. og 10. gr. laga nr. 33/2013 um neytendalán sem og reglna lífeyrissjóðsins.
Lífeyrissjóðnum er heimilt að hafna umsókn um lán eða takmarka lánsfjárhæð ef niðurstaða lánshæfis- og/eða greiðslumats leiðir í ljós að umsækjandi hafi ekki fjárhagslega burði til lántökunnar.
Ef veðsetning fasteignar fer yfir 60% áskilur lífeyrissjóðurinn sé ávallt rétt til að gera ríkari kröfur um gæði veðs, niðurstöðu lánshæfismats og forsendna og niðurstöðu greiðslumats. Á grundvelli þess getur komið til þess að hámarkslánsfjárhæð verði lækkuð. Sama gildir, jafnvel þó veðsetningarhlutfall sé lægra, ef önnur atriði sem lúta að hagsmunum lífeyrissjóðsins sem lánveitanda mæla með því að lánsfjárhæð sé lækkuð.

4. Lánstími

4.1.     

Lánstími er 5 til 40 ár að vali lántaka.

4.2.      

Gjalddagar eru 4 eða 12 á ári.

4.3.      

Heimilt er að greiða lán upp að hluta eða öllu leyti án uppgreiðslugjalds.

4.4.

Greiða skal lán út innan tveggja mánaða frá því að skuldabréf er tilbúið til undirskriftar. Heimilt er að víkja frá tímamörkum ef sérstök atvik mæla með því.

5. Veðtrygging

5.1.      

Lánað er gegn fasteignaveði í íbúðarhúsnæði í eigu umsækjanda/lántaka.
Ef íbúðarhúsnæðið sem setja á til veðtryggingar láni er jafnframt að hluta eða að öllu leyti í eigu maka sjóðfélaga, sambúðarmaka eða einstaklings, sem umsækjandi er í staðfestri samvist með, er áskilið að viðkomandi eigandi verði meðlántaki að umbeðnu láni.

5.2.      

Áhvílandi uppreiknaðar veðskuldir að viðbættu láni sjóðsins, mega við lánveitingu ekki vera umfram 70% af verðmæti veðs eins og það er tilgreint í grein þessari. Ef veðsetning vegna lántöku eða veðflutnings lána hjá sjóðnum er umfram 65% er almennt gerður áskilnaður um að veðsetning til þriðja aðila (annars en Lífeyrissjóðs verzlunarmanna) nemi ekki hærra hlutfalli en 20% af metnu virði veðsins. Veðsetning skal reiknuð út frá söluverði samkvæmt kaupsamningi þegar um lánveitingar í tengslum við fasteignaviðskipti er að ræða. Annars skal miða við gildandi fasteignamat. Við sérstakar aðstæður eftir mati lífeyrissjóðsins er heimilt að miða veðsetningu við verðmat samkvæmt mati löggilts fasteignasala eða annars sérfróðs aðila. Lífeyrissjóðurinn áskilur sér rétt til að tilnefna matsaðila. Þá getur sjóðurinn lagt mat á forsendur verðmats og lækkað það í varúðarskyni. 

6. Kostnaður lántaka við lántöku

Lántökugjald er 55.000 kr. og er dregið af andvirði lánsins við útborgun.
Þinglýsingargjald og eftir atvikum önnur opinber gjöld.
Veðbókarvottorð.
Kostnaður vegna verðmats ef við á.
Kostnaður við lánshæfismat og greiðslumat ásamt sendingarkostnaði, ef við á.

7. Lánsumsókn og fylgigögn

7.1.    

Lánsumsókn skal skilað á þar til gerðu eyðublaði.

7.2.   

Eftirtalin gögn skulu fylgja lánsumsókn eftir því sem við á:

 • Nýtt veðbókarvottorð stimplað af sýslumanni eða á öðru formi sem sjóðurinn viðurkennir. Veðbandayfirlit jafngildir ekki veðbókarvottorði.
 • Yfirlit yfir nýjar eftirstöðvar áhvílandi lána eða síðustu greiddu greiðsluseðlar.
 • Afrit af tryggingarbréfum sem hvíla á eigninni, ef við á.
 • Afrit af þinglýstum kaupsamningi hafi eignin skipt um eigendur á síðustu þremur árum.
 • Verðmat frá löggiltum fasteignasala sé þess óskað, í samráði við sjóðinn.
 • Vottorði um smíðatryggingu ef húseignin er í smíðum.
 • Greiðslumat sem framkvæmt er af sjóðnum eða aðila sem sjóðurinn viðurkennir, ásamt fylgigögnum sbr. gr. 7.3. Greiðslumat skal ekki vera eldra en þriggja mánaða.

7.3.      

Ef greiðslumat skal fara fram, sbr. gr. 3.3., skal umsækjandi/lántaki ennfremur leggja fram eftirtalin gögn:

 • Staðfest afrit af síðasta skattframtali.
 • Staðfestingu á tekjum síðustu þriggja mánaða, s.s. afrit af launaseðlum eða staðgreiðsluyfirlit frá ríkisskattstjóra, og ennfremur staðfestingu á fjármagnstekjum, svo sem húsaleigutekjum, og föstum bótagreiðslum.
 • Staðfestingu á eftirstöðvum og greiðslubyrði allra skulda.
 • Staðfestingu á föstum greiðslum, s.s. vegna meðlags- og lífeyrisgreiðslna.
 • Matsverð fasteigna í eigu lántaka eða fasteigna sem hann hyggst kaupa, t.d. fasteignamat eða verðmat löggilts fasteignasala.
 • Þinglýsingavottorð fyrir fasteignir í eigu lántaka.
 • Upplýsingar um húsaleigubætur.
 • Upplýsingar um ábyrgðarskuldbindingar.

7.4.     

Lífeyrissjóðurinn áskilur sér rétt til að kalla eftir frekari gögnum.

8.  Upplýsingar til umsækjanda/lántaka áður en lán er frágengið

Áður en gengið er frá lánveitingu afhendir lífeyrissjóðurinn umsækjanda/lántaka upplýsingar á sérstöku formi til þess að hann geti tekið upplýsta ákvörðun um lántökuna, sbr. 7. gr. laga nr. 33/2013 um neytendalán.
Lífeyrissjóðurinn afhendir umsækjanda/lántaka einnig upplýsingar um sögulega þróun verðlags og vaxta og áhrif þeirra þátta á breytingar á höfuðstól og greiðslubyrði sbr. 25. gr. sömu laga.

9. Gildistaka

Reglur þessar koma í stað eldri lánareglna og gilda frá staðfestingu þeirra 22. júní 2016.

Ákvæði til bráðabirgða:

Fram til apríl 2012 var skilyrði fyrir föstum vöxtum á sjóðfélagalán að lán væri tryggt með veði á 1. veðrétti sbr. þágildandi grein 2.1. Þar sem fallið hefur verið frá kröfu um 1. veðrétt til tryggingar lána með föstum vöxtum er ekki lengur skilyrði fyrir veðflutningi slíkra lána að þau séu tryggð með veði á 1. veðrétti enda standist ný veðtrygging ákvæði lánareglna sjóðsins og mat sjóðsins að öðru leyti. Við veðflutning, eða breytingu á veðrétti, er ekki heimilt að breyta úr föstum vöxtum í breytilega vexti.