Fara á efnissvæði

Sláðu inn leitarorð

Raunávöxtun 5,7% á árinu 2017 – eignir hækkuðu um 62 milljarða

Rekstur Lífeyrissjóðs verzlunarmanna gekk vel á liðnu ári - Allir helstu eignaflokkar skiluðu jákvæðri ávöxtun

  • Ávöxtun eigna nam 7,6% sem svarar til 5,7% raunávöxtunar. Fjármagnstekjur voru 47 milljarðar.
  • Eignir sjóðsins námu 665 milljörðum í árslok, hækkuðu um 62 milljarða króna.  
  • Vægi erlendra eigna í safni sjóðsins jókst umtalsvert á árinu og hlutfall sjóðfélagalána hækkaði nokkuð. 

 Hrein raunávöxtun Lífeyrissjóðs verzlunarmanna á árinu 2017 var 5,7%. Eignir hækkuðu um samtals 62 milljarða króna, þar af voru fjárfestingatekjur 47 milljarðar, og námu eignirnar samtals 665 milljörðum í lok ársins samanborið við 602 milljarða árið áður.  

 

Eignasafn sjóðsins er vel áhættudreift. Erlend verðbréf voru um þriðjungur heildareigna í árslok, samanborið við 27% árið áður. 17% eignanna eru í innlendum hlutabréfum. 23% eigna eru í innlendum ríkistryggðum skuldabréfum.

Sjóðfélagalán námu 82,3 milljörðum, eða um 12% af heildareignum, samanborið við 62 milljarða og rúm 10% af eignum árið áður. 

Á árinu 2017 fengu að meðaltali 15.820 sjóðfélagar lífeyrisgreiðslur úr samtryggingardeild sjóðsins, að fjárhæð 12.819 milljónir króna. Árið áður námu lífeyrisgreiðslur 11.570 milljónum og hækkuðu því um 11%. Lífeyrisgreiðslur úr séreignardeild námu 568 milljónum. 

Tryggingafræðileg staða, sem er mælikvarði á getu sjóðsins til að standa undir skuldbindingum sínum, styrktist á árinu 2017 og var jákvæð um 6,4% í árslok, samanborðið við 4,2% árið áður.Virkir sjóðfélagar voru 36.400 á árinu. Hjá sjóðnum starfaði 41 starfsmaður, jafnmargir og árið áður.

Ársfundur Lífeyrissjóðs verzlunarmanna verður haldinn miðvikudaginn 21. Mars kl. 18 á Grand Hótel Reykjavík.