Örorkulífeyrir
Þú átt rétt á örorkulífeyri ef starfsgeta þín skerðist vegna sjúkdóma eða slyss þannig að trúnaðarlæknir sjóðsins meti skerðinguna til a.m.k. 50% örorku. Einnig fylgir réttur til barnalífeyris og úttektar séreignarlífeyris.
Þeir sem greitt hafa í sjóðinn í tiltekinn tíma fyrir atburð sem veldur örorku ávinna sér rétt til svokallaðs framreiknings örorkulífeyris. Með framreikningi er bætt við áunnin réttindi, þeim réttindum sem reikna má með að þú hefðir öðlast til 65 ára aldurs miðað við meðaltal réttinda síðustu þrjú ár áður en örorka átti sér stað. Framreikningur getur verið skertur skv. gr. 13.7 í samþykktum sjóðsins ef iðgjaldagreiðslur eru stopular í fleiri en 1 ár frá 25 ára aldri til orkutaps.
Örorkulífeyrir verður aldrei hærri en sem nemur þeim tekjumissi sem sjóðfélagi hefur sannanlega orðið fyrir vegna örorkunnar.
Fyrstu þrjú árin miðast örorkumat við getu sjóðfélagans til að gegna því starfi sem hann hefur gegnt og veitti honum aðild að sjóðnum. Eftir þann tíma miðast örorkumat við getu hans til almennra starfa.
Reglur um örorkulífeyri er að finna í samþykktum sjóðsins.
Nánari upplýsingar er að finna í almennum upplýsingum um örorkulífeyri.
Skilyrði
- Verði sjóðfélagi ófær um að gegna því starfi sem veitti honum aðild að sjóðnum á hann rétt á örorkulífeyri.
- Að örorka hans sé metin a.m.k. 50%.
- Að sjóðfélagi hafi orðið fyrir tekjumissi vegna örorkunnar
- Ekki er greiddur örorkulífeyrir ef orkutap hefur varað skemur en sex mánuði.
Hvernig sæki ég um örorkulífeyri
Þú fyllir út umsókn um örorkulífeyri.
Fylgigögn:
- Umsókn
- Læknisvottorð - sérstakt læknisvottorð vegna umsóknar um örorkulífeyri
Örorkumat
Örorkumat fer fram hjá trúnaðarlækni sjóðsins.
Þegar umsókn um örorkulífeyri hefur borist er sjóðfélagi boðaður bréflega í viðtal og skoðun hjá trúnaðarlækni.
Vakin er athygli á því að þær umsóknir sem berast til Lífeyrissjóðs verzlunarmanna vegna örorkulífeyris verða teknar fyrir af þverfaglegu teymi VIRK og trúnaðarlækni lífeyrissjóðsins. Þar er markvisst skoðað hvort reyna eigi starfsendurhæfingu áður en til mats á örorku kemur.
Búseta erlendis - skattframtal
Örorkulífeyrisþegar, með lögheimili sitt í öðru landi þurfa að skila inn skattskýrslu til sjóðsins fyrir 15. október ár hvert. Berist sjóðnum ekki skattskýrsla falla greiðslur niður 1. nóvember það ár. Hægt er að senda sjóðnum umbeðnar upplýsingar með bréfapósti eða tölvupósti á skrifstofa@live.is.
Séreign
Verðir þú að hætta störfum fyrir 60 ára aldur vegna varanlegrar örorku af völdum slyss eða veikinda áttu rétt á að fá inneign þína í séreignardeild greidda út á minnst 7 árum. Inneign í séreignarsjóði er laus til útgreiðslu eftir að 60 ára aldri er náð.
Hvernig tek ég séreignina mína út?
Hægt er að sækja um útgreiðslu lífeyris með umsókn um útgreiðslu séreignar.
Greitt er úr séreignardeild síðasta virka dag hvers mánaðar. Umsókn þarf að berast sjóðnum fyrir 20. dag útgreiðslumánaðar.
Lífeyrisreiknivélina getur þú notað til að finna út endurgreiðslur úr séreignarsjóði með þínum forsendum.
Greiði ég skatt af greiðslum úr séreignarsjóðnum?
Greiðslur úr lífeyrissjóðum eru skattlagðar eins og aðrar tekjur en lífeyrisþegar geta nýtt persónuafslátt sinn til þess að lækka skattana. Greiðslur úr séreignarsjóði lúta sömu lögum.