Samtrygging

Með greiðslum í samtryggingu ávinnur sjóðfélagi sér rétt til ævilangs lífeyris, örorku-, maka- og barnalífeyri.

Samtrygging er valkostur til ráðstöfunar á hækkun mótframlags launagreiðenda samkvæmt samkomulagi ASÍ og SA frá janúar 2016. Hækkunin er 2% frá og með júlílaunum 2017. Frá og með júlílaunum 2018 bætast 1,5% við og heildarhækkunin verður 3,5%. 

Sjóðfélagi getur valið að ráðstafa þessari hækkun, allri eða að hluta, í samtryggingu eða tilgreinda séreign. Ef ekkert er valið fer hækkunin öll í samtryggingu. Samtrygging er meginhluti sjóðsins, sá hluti sem allt 12% skyldubundið iðgjald sjóðfélaga hefur farið í og fer áfram í.

Ævilangur lífeyrir, örkorkulífeyrir, maka- og barnalífeyrir

Ævilangur lífeyrir

Ellilífeyri í samtryggingardeild er greiddur til æviloka. Almennur lífeyrisaldur er 67 ár en unnt er að flýta eða seinka töku lífeyris í samræmi við ákvæði samþykkta sjóðsins.

Örorkulífeyrir

Sjóðfélagi, sem ekki er orðinn 67 ára og verður fyrir orkutapi á rétt á örorkulífeyri úr sjóðnum í samræmi við áunnin réttindi fram að orkutapi, enda hafi hann greitt í lífeyrissjóð í samtals 24 mánuði og sannanlega orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins.

Að tilteknum skilyrðum uppfylltum á sjóðfélagi rétt á framreikningi örorkulífeyrisréttinda auk áunninna réttinda, miðað við þau réttindi, sem sjóðfélaginn hefði áunnið sér til 65 ára aldurs miðað við meðaltal réttinda hans næstu þrjú almanaksár fyrir orkutapið. Meðal skilyrða eru að sjóðfélagi hafi greitt iðgjöld til sjóðsins í tiltekinn tíma fyrir orkutap.

Makalífeyrir

Við andlát sjóðfélaga á eftirlifandi maki rétt til lífeyris samkvæmt ákvæðum samþykkta sjóðsins. Meðal þess sem vert er að hafa í huga er að:

  • Upphæð makalífeyris nemur 60% af lífeyrisréttindum sjóðfélaga og nær það bæði til áunnins réttar og mögulegs framreikningsréttar sbr. nánari reglur í samþykktum sjóðsins.
  • Óskertur makalífeyrir samkvæmt nánari ákvæðum í samþykktum er ætíð greiddur eftirlifandi maka í minnst 36 mánuði, enda hafi fjárfélagi ekki verið slitið fyrir andlátið. Eftirlifandi maki fær þó ávallt greiddan makalífeyri þar til yngsta barn sem var á framfæri sjóðfélagans nær 23 ára aldri enda sé það á framfæri makans. Réttur til makalífeyris fellur niður, ef makinn gengur í hjónaband á ný eða stofnar til sambúðar sem jafna má til hjúskapar, eða stofnar til staðfestrar samvistar.
  • Sérreglur gilda fyrir maka sjóðfélaga sem fæddir eru fyrir árið 1945, sbr. nánari ákvæði í samþykktum sjóðsins.

Barnalífeyrir

Andist sjóðfélagi, sem greitt hefur iðgjöld í a.m.k. 24 mánuði á undanfarandi 36 mánuðum eða í 6 mánuði á undanförnum 12 mánuðum, notið elli- eða örorkulífeyris eða öðlast rétt til framreiknings skv. samþykktum sjóðsins, og eiga þá börn hans og kjörbörn, er hann lætur eftir sig, rétt á lífeyri úr sjóðnum til 20 ára aldurs samkvæmt nánari reglum í samþykktum sjóðsins. Fjárhæð barnalífeyris nemur tiltekinni krónutölu.

Framantalin réttindi eru háð nánari reglum og útfærslu í samþykktum sjóðsins og eftir atvikum í landslögum og reglugerðum.

Réttindaávinnsla

Ávinnsla réttinda ræðst af aldri sjóðfélaga í lok þess launamánaðar sem iðgjald er greitt af til lífeyrissjóðsins. Réttindin eru verðtryggð og breytast í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar frá þeim launamánuði sem iðgjald er greitt af.

Sjóðfélagar sem áttu réttindi í sjóðnum í árslok 2005 var heimilt að greiða til sjóðsins iðgjöld allt að tilteknu hámarki með jafnri réttindaávinnslu eftir nánari reglum í samþykktum sjóðsins, sbr. 11. gr. Máli getur skipt fyrir sjóðfélaga sem eiga rétt til jafnrar réttindaávinnslu að tryggja að þeir nýti þá heimild að fullu. Upplýsingar um iðgjald til jafnrar réttindaávinnslu má nálgast hjá skrifstofu sjóðsins eða á sjóðfélagavef viðkomandi sjóðfélaga.

Réttindi í samtryggingadeild geta verið verðmæt tryggingaréttindi

Eðli málsins samkvæmt geta þau þegar upp er staðið numið hærri eða lægri greiðslum en sem nemur uppsöfnuðum iðgjöldum sem greidd hafa verið til sjóðsins. Samhengi er milli fjárhæðar greiddra iðgjalda og þeirra réttinda sem sjóðfélagi ávinnur sér í samtryggingardeild. Af því leiðir að ef sjóðfélagi ákveður að ráðstafa hluta af iðgjaldi í tilgreinda séreign í stað samtryggingar ávinnur hann sér sem því nemur minni réttindi í samtryggingu en að sama skapi meiri réttindi, eða m.ö.o. stærri sjóð, í tilgreindri séreign.

Réttindi í samtryggingardeild eru háð svonefndri lýðfræðilegri áhættu. Í henni felst m.a. að líkur á langlífi sjóðfélaga, örorkutíðni sem og hjúskapartíðni og barneignatíðni sjóðfélaga almennt geta haft áhrif á réttindin. Eins getur komið til þess að sjóðurinn þurfi að auka eða minnka tryggingaréttindi í samtryggingardeild. Þar geta einkum haft áhrif þróun á tryggingafræðilegum og lýðfræðilegum forsendum sem og ávöxtun eigna samtryggingardeildar og verðbólguþróun.

Meðal áhættuþátta í deild fyrir tilgreinda séreign eru einkum þróun ávöxtunar og það að sjóðfélagi fullnýti lífeyrissparnaðinn sinn á skemmri tíma en hann þarf til framfærslu eða annarrar ráðstöfunar. Hins vegar erfist eign í tilgreindri séreign við fráfall sjóðfélaga en skapar á móti ekki rétt til maka- eða barnalífeyris með sama hætti og í samtryggingardeild.

Réttindi byggjast á gildandi samþykktum sjóðsins. Athygli er vakin á því að framangreindar upplýsingar um réttindi í samtryggingardeild og tilgreindri séreign eru einungis í upplýsingaskyni og settar fram með fyrirvara um mögulegar villur eða ónákvæmni. Ef þessum upplýsingum ber ekki saman við ákvæði samþykkta sjóðsins gilda ákvæði samþykktanna. Því er mikilvægt fyrir sjóðfélaga að kynna sér vel efni samþykkta sjóðsins. Þá er rétt að árétta að réttindi samkvæmt samþykktum geta breyst frá einum tíma til annars eftir því sem efni þeirra kann að taka breytingum í framtíðinni.