Fjárfestingarleiðir

Sjóðurinn býður upp á þrjár fjárfestingarleiðir í séreignarsparnaði. Þær eru Ævileið 1, Ævileið 2 og Ævileið 3. Einnig er hægt að velja Ævilínu sem felur í sér sjálfvirkan flutning milli fjárfestingarleiða.

Lífeyrissjóður verzlunarmanna býður sjóðfélögum val um fjárfestingarleiðir fyrir séreignarsparnað. Eignasamsetning leiðanna byggir á eignaflokkum sem gera má ráð fyrir að hafi mismikla vænta ávöxtun og áhættu. Markmið með mismunandi eignasamsetningu milli leiða er til að mæta ólíkum þörfum sjóðfélaga svo sem aldri og áhættuþoli. Við val á fjárfestingarleið er því meðal annars ráðlagt að huga að því hve langt er í útgreiðslu, hver eignastaða sjóðfélagans er og hvert viðhorf sé til áhættu. 

Ekki er hægt að segja til um það með fullri vissu hvaða fjárfestingarleið skili hæstri ávöxtun þegar horft er til framtíðar. Almennt séð er gengið út frá því að hlutabréf gefi hærri ávöxtun til lengri tíma en skuldabréf, hinsvegar eru meiri líkur á sveiflum í ávöxtun hlutabréfa og því er áhættan meiri. Lífeyrissjóður verzlunarmanna ráðleggur sjóðfélögum að draga úr áhættu í fjárfestingum eftir því sem nær dregur úttekt. 

Lífeyrissjóður verzlunarmanna telur að blönduð og vel dreifð verðbréfasöfn séu hentugt fyrirkomulag við ávöxtun lífeyrissparnaðar. Til að draga úr áhættu og sveiflum í ávöxtun eignasafna þurfa þau að vera vel áhættudreifð. Skuldabréf eru hugsuð sem grunnstoð í eignasöfnum sem skila jafnri og stöðugri ávöxtun og hlutabréf hugsuð til að ná fram hærri ávöxtun til lengri tíma. Þessum markmiðum er ætlað að ná í Ævileiðum I-III, þar sem dregið er úr áhættu eftir því sem nær dregur úttekt. Lífeyrissjóður verzlunarmanna telur æskilegt að vægi hlutabréfa í lífeyrissparnaði sé að jafnaði ekki mikið yfir helmingi safnsins.

Eftirfarandi tafla og kökurit sýna helstu skiptingu Ævileiða I til III:

Ævileið I Ævileið II Ævileið III
Innlend hlutabréf 20% 10%  
Erlend hlutabréf 30% 15%
Skuldabréf 50% 75% 80%
Innlán     20%

Ævileið I

  • Hentugur fjárfestingartími: lengur en 7 ár

Ævileið I hentar vel þeim sem eru að ávaxta séreignarsparnað sinn til lengri tíma og er hugsuð fyrir sjóðfélaga yngri en 55 ára. Hlutfall hlutabréfa og erlendra verðbréfa er hæst í Ævileið I af þeim leiðum sem í boði eru. Stefnt er á að helmingur safnsins sé í hlutabréfum og helmingur í skuldabréfum. Markmið safnsins er að skila góðri langtímaávöxtun með skilvirkri eignadreifingu.

Ævileið II

  • Hentugur fjárfestingartími: lengur en 5 ár

Ævileið I hentar vel þeim sem eru að ávaxta sinn séreignarsparnað til miðlungi langs tíma og er hugsuð fyrir sjóðfélaga eldri en 54 ára. Ævileið II er áhættuminna safn en Ævileið I og stefnt er á að hlutfall skuldabréfa sé um 75% af safninu og hlutabréf um 25% af safninu, þar sem vægi erlendra hlutabréfa er meira en innlendra. Markmið safnsins er að skila stöðugri ávöxtun með takmarkaðri áhættu.

Ævileið III 

  • Hentugur fjárfestingartími: t.d. eftir að útgreiðsla hefst

Ævileið III hentar vel þeim sem eru að ávaxta sinn séreignarsparnað til miðlungs og skemmri tíma og er hugsuð t.d. fyrir sjóðfélaga sem hafa hafið útgreiðslur. Ævileið III inniheldur takmarkaða áhættu sem næst með samsetningu skuldabréfa og innlána. Stefna safnsins er að hlutfall skuldabréfa sé um 80% af safninu og um 20% í innlánum. Hlutabréf eru ekki hluti af fjárfestingarmengi Ævileiðar III. Markmið safnsins er að varðveita áunna eign, en um leið skila jákvæðri raunávöxtun.

Ævilína, færsla milli eignasafna eftir aldri

Sjóðfélögum er boðið upp á sjálfvirka tilfærslu á milli fjárfestingarleiða eftir aldri og færist eign viðkomandi milli fjárfestingarleiða við eftirfarandi aldursmörk:

  • Ævileið I: yngri en 55 ára
  • Ævileið II: 55 ára og eldri
  • Ævileið III: Frá úttekt

Ef sjóðfélagi velur ekki sjálfvirka tilfærslu á milli fjárfestingarleiða, er þó mögulegt að velja tilfærslu síðar.