Fasteignakaup

Þú getur nýtt séreignarsparnaðinn þinn við íbúðarkaup. Í þeim tilvikum er séreignin undanþegin skatti. Tvö úrræði eru í boði, annars vegar almenn heimild sem að er opið fyrir alla fasteignaeigendur og hins vegar fyrsta íbúð sem er fyrir þá sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð.

 Nýting séreignarsparnaðar

Almenn heimild

Heimild er til að ráðstafa séreignarsparnaði skattfrjálst vegna kaupa á íbúð til eigin nota. Nýting á séreignarsparnaði getur verið tvenns konar. Annars vegar til að greiða mánaðarlega inn á lánið og hins vegar til að taka út uppsafnaðan séreignarsparnað við kaupa á fasteign að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. 

Á ég rétt á þessu úrræði?

 • Þú þarft að hafa lán sem er tryggt með veði

 • Lánið þarf vera tekið til öflunar á íbúðarhúsnæði til eigin nota

 • Til að taka út uppsafnaðan séreignarsparnað er einungis hægt að nýta viðbótariðgjald sem safnaðist á meðan þú eða maki þinn voru ekki skráðir eigendur fasteignar. 

Tímabil og hámörk

 • Úrræðið tekur til launatímabilsins frá 1. júlí 2014 og hefur verið framlengt til 30. júní 2023.
 • Einstaklingur getur ráðstafað að hámarki 500.000 kr. á ári. Þar af er hámark af eigin framlagi 333.000 kr. og hámark af framlagi launagreiðanda 167.000 kr.  
 • Hjón/sambúðarfólk getur ráðstafað að hámarki 750.000 kr. á ári. Þar af er hámark af eigin framlagi 500.000 kr. og hámark af framlagi launagreiðanda 250.000kr.  

Nánari upplýsingar á vef Skattsins.

Sótt er um úrræðið á vef Skattsins, leidretting.is.  


Fyrsta íbúð

Heimild er til að fá séreignarsparnað greiddan út skattfrjálst vegna fyrstu íbúðarkaupa, ráðstafa séreignarsparnaði inn á fasteignalán og eða ráðstafa séreignarsparnaði til afborgunar á óverðtryggðu láni. Hægt er nýta úrræðið í samfellt 10 ár frá upphafstíma þess. 

Þeim sem eru að kaupa/byggja sér íbúðarhúsnæði í fyrsta skipti er heimilt annars vegar að nýta uppsafnaðan séreignarsparnað frá júlí 2014 til útborgunar á fyrstu íbúðarkaupum og hins vegar að nýta greidd iðgjöld mánaðarlega inn á lán. 

Með breytingu á lögum um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð nr.111/2016 er hægt að ráðstafa iðgjaldi vegna tilgreindar séreignar til kaupa á fyrstu íbúð. Sjá nánar undir breytingar sem tóku gildi 1.janúar 2023.

Á ég rétt á þessu úrræði?

 • Þú þarft að eiga að minnsta kosti 30% eignarhlut í eigninni
 • Þú þarft að sækja um innan 12 mánaða frá undirritun kaupsamnings
 • Þú þarft að hafa gert samning við vörsluaðila séreignarsparnaðar
 • Þú þarft að vera að kaupa þína fyrstu íbúð eða mátt ekki hafa átt íbúðarhúsnæði í 5 ár.


Tímabil og hámörk

 • Lög um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð tóku gildi 1. júlí 2017. Heimilt er þó að nýta séreignarsparnað sem hefur safnast frá 1. júlí 2014 en þá hefst samfellt 10 ára tímabil frá þeim tíma.
 • Einstaklingur getur nýtt að hámarki 500.000 kr. á ári í samfellt 10 ár. Þar af er hámark af eigin framlagi 333.000 kr. og hámark af framlagi launagreiðanda 167.000 kr.
 • Á 10 ára samfelldu tímabili er því hámarks heimild 5.000.000 kr.

Nánari upplýsingar á vef Skattsins .

Sótt er um úrræðið á vef Skattsins.


Breytingar  sem tóku gildi 1. janúar 2023

Breyting á lögum um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð

 • Nú getur þú ráðstafað séreignarsparnaði þínum og iðgjaldi vegna tilgreindara séreignar til kaupa á fyrstu íbúð.

 • Þú þarft ekki að vera með séreignarsparnað til að geta nýtt tilgreindu séreignina. En ef þú ert að greiða í séreignarsparnað þá þarft þú fyrst að nýta hann áður en þú nýtir tilgreindu séreignina.

 • Tilgreind séreign er greidd í lok hvers almanaksár, eða þegar liggur fyrir að hvaða marki hámarksfjárhæð hefur verið nýtt með greiðslu viðbótariðgjalds.

 • Ráðstöfun tilgreindrar séreignar inn á lán er að jafnaði í formi eingreiðslu.

 • Nýta má iðgjöld vegna tilgreindrar séreignar sem greidd eru vegna starfa frá og með 1.janúar 2023.

Heimild þess sem hefur ekki átt íbúð síðastliðin fimm ár.

 • Þú getur nýtt skattfrjálsa úttekt séreignar ef þú hefur ekki átt íbúðarhúsnæði síðastliðinn fimm ár áður en þú sækir um ráðstöfun séreignarsparnaðar, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum:

 • Þú hefur ekki áður fullnýtt skattfrjáls úrræði um ráðstöfun séreignarsparnaðar

 • Tekjuskattstofn að meðtöldum heildarfjármagnstekjum skal ekki vera hærri fjárhæð en 11.125.045 kr. skv. 3 tölul. 1 mgr. 66. gr. laga um tekjuskatt.

 • Hjón eða einstaklingar sem uppfylla skilyrði til samsköttunar skv. 3. mgr. 62.gr. laga um tekjuskatt, mega hvorugt hafa verið eigandi að íbúðarhúsnæði.

Nánari upplýsingar: 

Lög nr. 111/2016 um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð

Skattþrepamörk 66. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt

Reglugerð nr. 1586/2022 um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð