Greiðslur og mótframlag
Hér eru upplýsingar um aðild að sjóðnum, iðgjaldagreiðslur og hlutfall. Einnig um hvernig sjóðfélagar geta kannað réttindi sín í þessum lífeyrissjóði og öðrum sjóðum.
Hverjir eiga aðild að Lífeyrissjóði verzlunarmanna?
Launþegar sem eru félagar í VR eiga aðild að sjóðnum. Aðild eiga jafnframt félagar í öðrum samtökum verslunarmanna og þeir sem byggja starfskjör sín á kjarasamningi VR eða starfa á starfssviði sjóðsins. Öllum launþegum og þeim sem stunda atvinnurekstur er skylt samkvæmt lögum að greiða iðgjald til lífeyrissjóðs frá 16 ára til 70 ára aldurs.
Á grundvelli laga eiga ýmsir launþegar og sjálfstæðir atvinnurekendur valkvæða aðild að sjóðnum.
Nánar um aðild að sjóðnum má sjá í samþykktum hans.
Hversu mikið á ég að greiða í lífeyrissjóð?
Lögboðið iðgjald er 15,5% af heildarlaunum frá og með 1. janúar 2023. Sjóðfélagi greiðir 4% iðgjald af launum, launagreiðandi 11,5% mótframlag.
Sjálfstæður atvinnurekandi greiðir bæði hluta launþega og launagreiðanda.
Iðgjald reiknast ekki af ökutækjastyrk, bifreiðahlunnindum, dagpeningum og öðrum útlögðum kostnaði.
Hversu hátt er mótframlag launagreiðanda?
Launagreiðandi greiðir samkvæmt lögum 11,5% launa í mótframlag í lífeyrissjóð frá 1. janúar 2023.
Að auki skal launagreiðandi greiða 2% viðbótarmótframlag ef þú greiðir a.m.k. 2% og allt að 4% í séreignarsjóð.
Hvaða réttindi ávinn ég mér með greiðslum til sjóðsins?
Með greiðslum til sjóðsins ávinna sjóðfélagar sér rétt til ævilangs lífeyris, örorku-, maka- og barnalífeyris.
Hvernig ávinn ég mér rétt til lífeyris?
Réttindaávinnsla sjóðfélaga byggir nú á meginreglunni um aldurstengda réttindaávinnslu. Það þýðir að sá réttur sem þú ávinnur þér fyrir greitt iðgjald tekur mið af aldri þegar iðgjaldið er greitt til sjóðsins. Réttindaávinnslan er þeim mun meiri eftir því sem þú ert yngri. Þetta byggir á því að iðgjöld eru verðmætari eftir því sem þau ávaxtast lengur hjá sjóðnum. Réttindaávinnsla ákvarðast af töflu sem er í viðauka við samþykktir sjóðsins.
Dæmi um aldurstengda ávinnslu lífeyris:
Forsendur: Miðað er við einstakling sem greiðir 15,5% iðgjald af launum frá 23 til 67 ára aldurs af 500.000 kr. heildarlaunum. Miðað er við 3,5% raunávöxtun eigna sjóðsins yfir tímabilið.
Línan sýnir áunninn mánaðarlegan lífeyri m.v. aldurstengda réttindaávinnslu.
Meðfylgjandi mynd sýnir ávinnslu lífeyrisréttinda miðað við aldurstengda réttindaávinnslu. Á yngri árum er réttindaávinnslan mest. Þegar á ævina líður minnkar hún smám saman, þar sem vægi ávöxtunar minnkar.
Auk réttar til ævilangs ellilífeyris nýtur þú réttar til örorku-, maka- og barnalífeyris meðan á ávinnslu ellilífeyrisréttinda stendur. Einnig ávinnur þú þér rétt til framreiknings örorku- og makalífeyris eftir að hafa greitt til lífeyrissjóðs í a.m.k. þrjú ár, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Sjá nánar í umfjöllun um örorku- og makalífeyri.
Hvernig virkar jöfn réttindaávinnsla?
Fram til ársins 2006 byggðist réttindakerfi lífeyrissjóðsins á jafnri ávinnslu, en það þýðir að sömu lífeyrisréttindi fást fyrir sama iðgjald óháð aldri.
Um blandaða réttindaávinnslu
Til að tryggja hagsmuni þeirra sjóðfélaga sem höfðu áunnið sér réttindi framan af starfsævinni í jafnri ávinnslu, var ákveðið að þeir sjóðfélagar sem voru 25 ára og eldri í árslok 2005 og áttu þá réttindi í sjóðnum, gætu haldið áfram að greiða iðgjöld í jafna réttindaávinnslu það sem eftir væri starfsævinnar upp að tilteknu hámarki sem tæki mið af verðbættu viðmiðunariðgjaldi. Iðgjald hvers árs umfram verðbætt viðmiðunariðgjald færist hins vegar í aldurstengda ávinnslu.
Greiði ég skatt af iðgjöldum?
Samkvæmt meginreglu skattalaga er 4% iðgjald, mótframlag launagreiðanda og allt að 4% viðbótariðgjald launþega í séreignarsjóð undanþegið tekjuskatti. Tekjuskattur er þó greiddur við útborgun lífeyris.
Dæmi um hvernig lífeyrissparnaður lækkar skattinn
Heildarlaun á mánuði | 100.000 | 150.000 | 300.000 |
---|---|---|---|
Frádregið iðgjald 4% | 4.000 | 6.000 | 12.000 |
Frádregið viðbótariðgjald 4% | 4.000 | 6.000 | 12.000 |
Lækkun staðgreiðslu* | 2.516 | 3.774 | 7.548 |
Lækkun staðgreiðslu á ári | 30.192 | 45.288 | 90.576 |
* Greiddur er 31,45% skattur af tekjuskattsstofni undir 409.987 kr.
Hvernig get ég fylgst með því að lífeyrisiðgjöldin mín skili sér til sjóðsins?
Mikilvægt er að þú fylgist vel með hvort iðgjöld sem dregin eru af launum þínum skili sér. Sjóðurinn sendir yfirlit yfir móttekin iðgjöld tvisvar á ári, í mars og september.
Þú getur farið inn á Sjóðfélagavefinn með rafrænum skilríkjum eða Íslykli og skoðað allar greiðslur sem sjóðnum hafa borist.
Mikilvægt er að fylgjast með að iðgjöld sem fram koma á yfirlitinu séu í samræmi við launaseðla. Komi til umtalsverðra vanskila á greiðslum iðgjalda, geta dýrmæt lífeyrisréttindi glatast.
Ef þú hefur ekki fengið yfirlit, þótt iðgjald til sjóðsins hafi verið dregið af launum þínum eða ef launaseðlum ber ekki saman við yfirlitið, skaltu hafa samband við viðkomandi fyrirtæki og/eða innheimtudeild sjóðsins sem fyrst.
Hefur það einhver áhrif á réttindi mín ef ég skipti um lífeyrissjóð?
Áunnin lífeyrisréttindi varðveitast verðtryggð. Þegar að töku ellilífeyris kemur færð þú greitt úr sjóðnum samkvæmt því. Margir fá því greitt frá fleiri en einum lífeyrissjóði með svipuðum hætti og þeir fengju launagreiðslur frá fleiri en einum launagreiðanda.
Réttindi til örorkulífeyris byggja á samþykktum viðkomandi lífeyrissjóða og samkomulagi um samskipti lífeyrissjóða sem flestir sjóðir eru aðilar að.
Fá erlendir ríkisborgarar endurgreitt úr sjóðnum?
Endurgreiðsla til ríkisborgara Bandaríkja Norður- Ameríku og landa innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) er ekki heimil. Lönd Evrópska efnahagssvæðisins eru:
Austurríki, Belgía, Bretland, Búlgaría, Danmörk, Eistland, Finnland, Frakkland, Grikkland, Holland, Írland, Ísland, Ítalía, Krótatía, Kýpur, Lettland, Liechtenstein, Litháen, Lúxemborg, Malta, Noregur, Portúgal, Pólland, Rúmenía, Slóvakía, Slóvenía, Spánn, Sviss, Svíþjóð, Tékkland, Ungverjaland og Þýskaland.
Sjóðfélagi, sem átti ríkisfang innan EES svæðisins meðan iðgjaldagreiðslur fóru fram, á ekki rétt til endurgreiðslu iðgjalda.
Sjóðfélagi með tvöfalt ríkisfang, annað innan EES svæðisins, á ekki rétt til endurgreiðslu iðgjalda.
Eigi erlendur ríkisborgari rétt til endurgreiðslu iðgjalda gilda eftirfarandi reglur:
Ef iðgjaldagreiðslutími í sjóðnum er undir þremur árum, þannig að réttur til framreiknings vegna örorkulífeyris hefur ekki stofnast, skal endurgreiða viðkomandi erlendum ríkisborgara bæði framlag hans og framlag launagreiðanda með verðbótum skv. vísitölu neysluverðs til verðtryggingar, en án vaxta.
Ef iðgjaldsgreiðslutími er umfram þrjú ár en innan fimm ára og stofnast hefur réttur til framreiknings örorkulífeyris, þá skal endurgreiðsluhlutfallið miðast við eftirfarandi töflu Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga, þar sem aldur hins erlenda ríkisborgara þegar endurgreiðsla á sér stað skiptir meginmáli. Endurgreiðsluhlutfallið tekur þannig mið af þeirri tryggingavernd sem sjóðfélagi hefur notið.
Aldur | Endurgreiðsluhlutfall |
---|---|
16-29 | 100% |
30-34 | 95% |
35-39 | 90% |
40-44 | 85% |
45-49 | 80% |
50-59 | 75% |
60-64 | 80% |
65- | 85% |
Þegar iðgjaldsgreiðslutími er umfram 5 ár og um er að ræða umtalsverð réttindi, er eðlilegt að endurgreiðslu skuli háttað skv. mati tryggingastærðfræðings sjóðsins.
Með umsókn um endurgreiðslu skal fylgja:
- Staðfesting launagreiðanda á starfslokum.
- Afrit af vegabréfi.
- Afrit eða staðfesting á farseðli.
- Afrit af síðasta launaseðli.
-
Upplýsingar um reikningsnúmer í íslenskum banka.
Greiða ber staðgreiðsluskatt af endurgreiðslunni.
Skylda erlendra aðila til að greiða í lífeyrissjóð á Íslandi
Upplýsingar um skyldu erlendra aðila til að greiða í lífeyrissjóð á Íslandi má finna hér að neðan:
Fjármála- og efnahagsráðuneytið