Ellilífeyrir

Almennur eftirlaunaaldur er 67 ár. Þú ávinnur þér tryggingu fyrir ævilöngum lífeyrisgreiðslum frá því að taka lífeyris hefst. Þannig munt þú fá greiðslur sem endurspegla iðgjöld þín yfir starfsævina og ávöxtun sjóðsins í gengum árin. 

Auk réttar til ævilangs lífeyris ávinnur þú þér rétt til örorkulífeyris vegna skertrar starfsgetu. Sömuleiðis ávinnur þú maka þínum rétt til makalífeyris við fráfall og börnum þínum rétt til barnalífeyris ef starfsgeta þín skerðist verulega eða þú fellur frá.

Almennur eftirlaunaaldur miðast við 67 ára aldur. Þú hefur jafnframt val um að flýta töku lífeyris til 60 ára aldurs eða fresta til allt að 80 ára aldurs. Ekki er greitt iðgjald í lífeyrissjóð eftir 70 ára aldur.

Upphaf lífeyristöku

Taka lífeyris miðast við 67 ára aldur. Fresta má töku lífeyris og hækkar hann þá við hvern mánuð sem líður frá 67 ára aldri.  Fresta má töku lífeyris til 80 ára aldurs.  Við 70 ára aldur hækkar lífeyririnn um 24,7% og við 80 ára aldur  hækkar hann um 222,9%. Taka lífeyris getur fyrst hafist við 60 ára aldur.  Lífeyrir lækkar þá við hvern mánuð sem töku er flýtt frá 67 ára aldri.

Hvaða áhrif hefur frestun eða flýting lífeyristöku á lífeyrinn minn?

Mánaðarleg greiðsla til þeirra sem hefja lífeyristöku fyrir 67 ára aldur lækkar um allt að 36,2%, eftir því hvenær hún hefst, þar sem lífeyristakan dreifist yfir lengri tíma.

Ef þú kýst aftur á móti að fresta lífeyristöku fram yfir 67 ára aldur hækka mánaðarlegar greiðslur að sama skapi. Við 70 ára aldur hækkar lífeyririnn um 24,7% og við 80 ára aldur  hækkar hann um 222,9%.

Í meðfylgjandi töflu sjást áhrif á mánaðarlegar greiðslur eftir því hvort töku ellilífeyris er flýtt eða frestað. Taflan er unnin af tryggingastærðfræðingi út frá lífaldri Íslendinga hverju sinni og getur því tekið breytingum.

Aldur við upphaf eftirlauna Breyting mánaðargreiðslu
60 ára 36,2% lækkun
65 ára 12,8% lækkun
67 ára -
68 ára 7,4% hækkun
69 ára 15,6% hækkun
70 ára 24,7% hækkun
75 ára 90,5% hækkun
 80 ára 222,9% hækkun

*Töflu þessa er að finna í samþykktum sjóðsins og ganga þær framar ef þeim ber ekki saman við þennan texta.

Oft vaknar sú spurning hjá fólki sem er að komast á lífeyrisaldur hvenær hagstæðast sé að hefja lífeyristöku.  Það ræðst af lífaldri hvers og eins, þ.e. hvort viðkomandi lifi lengur eða skemur en sem nemur meðallífaldri.

Þetta er háð fleiri forsendum í ákvarðanatökunni og það er því þitt að meta hvað best er fyrir þig. „Vil ég hefja lífeyristöku strax eða geyma hana?“ er spurning sem hver og einn verður að svara fyrir sig.

Hafa atvinnutekjur áhrif á ævilangan lífeyri?

Þú getur hafið töku lífeyris þótt þú sért enn í starfi, hvort sem er fullt starf eða hlutastarf. Þetta getur þú gert eftir að þú nærð 60 ára aldri. Ef þú ert enn í starfi þegar lífeyristaka hefst, greiðirðu áfram iðgjöld í sjóðinn af atvinnutekjunum eins og áður og heldur þannig áfram að ávinna þér réttindi í sjóðnum.

Við þær aðstæður eru réttindi þín endurreiknuð árlega við upphaf hvers aldursárs sjóðfélaga.  Lífeyrisgreiðslurnar breytast þá í samræmi við aukin réttindi en viðbótarréttindin hækka ekki vegna aldurs.

Atvinnutekjur skerða ekki ævilangan lífeyri.

Hvar fæ ég upplýsingar um lífeyrisrétt minn?

Lífeyrisáætlun er reiknivél á Sjóðfélagavefnum . Þar er hægt að velja aðgang að Lífeyrisgáttinni sem gefur upplýsingar um lífeyrisréttindi hvers og eins í öllum lífeyrissjóðum sem hann/hún hefur greitt iðgjöld til um ævina. Með því að setja forsendur um laun, áætlaðan aldur við upphaf lífeyristöku o.s.frv. inn í reiknivélina er hægt að áætla, út frá þeim gefnu forsendum, hve mikinn lífeyri viðkomandi getur vænst að fá greiddan mánaðarlega næstu árin eftir að lífeyristaka hefst.

Einnig sendir sjóðurinn út yfirlit tvisvar á ári með upplýsingum um áunninn og væntanlegan lífeyri til sjóðfélaga sem greiða iðgjöld til sjóðsins.

Hvar fæ ég upplýsingar um lífeyrissjóði sem ég hef áður greitt til?

Lífeyrisgáttin veitir upplýsingar um lífeyrisréttindi í öllum þeim lífeyrissjóðum sem viðkomandi hefur greitt iðgjöld til um ævina. Flestir greiða til fleiri en eins lífeyrissjóðs yfir starfsævina. Þegar kemur að töku lífeyris er best að snúa sér til þess lífeyrissjóðs sem síðast var greitt til.

Yfirlit yfir þá sjóði sem þú hefur greitt til,  ásamt upplýsingum um hvenær þú greiddir síðast til hvers sjóðs er að finna á sjóðfélagavef. Greiðslustofa lífeyrissjóða veitir einnig upplýsingar um þá sjóði sem landsmenn hafa greitt til.

Get ég fengið örorkulífeyri eftir að ég byrja á ævilöngum lífeyri?

Samkvæmt grein 12.4 í samþykktum sjóðsins fellur réttur til örorkulífeyris niður um leið og byrjað er á ævilöngum lífeyri.

Erfist réttur til ævilangs lífeyris?

Réttur til ævilangs lífeyris erfist ekki.

Hins vegar á maki rétt á makalífeyrisgreiðslum frá sjóðnum, á grundvelli þeirra iðgjalda sem sjóðfélagi hefur greitt til sjóðsins fyrir fráfall sitt.

Á sama grundvelli skapast réttur til barnalífeyris.

Getur maki fengið hluta réttinda minna til ævilangs lífeyris?

Já, hjónum og sambúðarfólki er heimilt að gera samning um skiptingu áunninna réttinda og framtíðarréttinda.  Eins er hægt að gera samkomulag um skiptingu lífeyrisgreiðslna eftir að taka lífeyris er hafin.

Hér getur þú lesið þér betur til um hvernig skipting réttinda milli hjóna fer fram.