Skipting réttinda milli hjóna
Hjónum og sambúðarfólki er heimilt að gera samning um skiptingu áunninna réttinda og framtíðarréttinda. Einnig er hægt að gera samkomulag um skiptingu lífeyrisgreiðslna eftir að taka lífeyris er hafin.
Skipting réttindanna verður að vera gagnkvæm þ.e. maki þinn verður að veita þér sama hlutfall réttinda sinna. Þess vegna þurfa báðir aðilar að skipta réttindum sínum. Þú mátt framselja allt að helmingi lífeyrisréttindanna til maka þíns.
Skipting áunninna réttinda
Samning um skiptingu áunninna réttinda þarf að gera fyrir 65 ára aldur þess maka sem eldri er. Eftir skiptinguna, verða ellilífeyrisréttindi beggja aðila sjálfstæð og fær hvor aðili greiddan ellilífeyri til æviloka.
- Áunnin réttindi
- Þarf að gerast fyrir 65 ára aldur
- Ekki er hægt að skipta réttindum eftir að lífeyristaka er hafin
Nánari upplýsingar um skiptingu áunninna réttinda
Samkomulag um skiptingu áunninna ellilífeyrisréttinda hefur eftirfarandi í för með sér:
- Við skilnað er tryggt að áunnin ellilífeyrisréttindi komi til skipta.
- Við andlát sjóðfélaga fær eftirlifandi maki helming ellilífeyrisréttinda sjóðfélagans, auk þess sem maki fær greiddan makalífeyri út á áunnin og framreiknuð réttindi sjóðfélagans eins og ekki hefði komið til skiptingarinnar.
- Áhættulífeyrisþátturinn (örorkulífeyrir, makalífeyrir, barnalífeyrir) er ennþá til staðar hjá sjóðfélaga eftir skiptinguna, en skiptiréttindin ein og sér mynda ekki rétt til örorkulífeyris eða barnalífeyris. Verði sjóðfélagi öryrki eftir að ellilífeyrisréttindum hefur verið skipt, fær hann því samt sem áður örorkulífeyri eins og ekki hefði komið til skiptingarinnar.
Heimilt er að skipta áunnum ellilífeyrisréttindum milli hjóna eða sambúðarfólks áður en taka ellilífeyris hefst, en þó eigi síðar en fyrir 65 ára aldur, og ef sjúkdómar eða heilsufar draga ekki úr lífslíkum.
Því þurfa bæði hjónin eða sambúðaraðilar að óska eftir yfirlýsingu heimilislæknis um heilsufar, þ.e. að læknirinn telji að sjóðfélaginn sé ekki haldinn neinum þeim sjúkdómum eða kvillum sem líklegir séu til að draga úr lífslíkum hans.
Mikilvægt er að hafa eftirfarandi í huga áður en samkomulag er gert um skiptingu ellilífeyrisréttinda:
Ávinningur ef sá sem er með lakari lífeyrisréttindi lifir maka sinn
Samkomulag um skiptingu ellilífeyrisréttinda milli hjóna tryggir stöðu þess sem er með lakari ellilífeyrisrétt ef viðkomandi missir maka sinn. Dæmi um þetta eru hjón sem ákveða að skipta áunnum réttindum. Annað hjónanna er með lítil áunnin réttindi í samanburði við hitt. Ef það sem hefur meiri réttindi fellur fyrr frá, fær hitt mun betri réttindi með því að fá helming af réttindum hins sem fallið er frá og auk þess full makalífeyrisréttindi.
Áhrif þess ef sá sem er með lakari lífeyrisréttindi fellur frá á undan
Falli sá frá, sem er með lakari ellilífeyrisréttindi, á undan þeim sem er með betri lífeyrisréttindi, tapar sá sem eftir lifir áunnum ellilífeyrisréttindum sem hann hafði áður afsalað sér til makans. Þar að auki er líklegt að eftirlifandi maki fái lágan makalífeyri eftir maka sinn.
Skipting á framtíðarréttindum
Hér er um að ræða skiptingu þeirra ellilífeyrisréttinda sem ávinnast eftir að samkomulagið er gert og þar til hjúskap, sambúð eða samvistum er slitið.
- Framtíðarréttindi (það sem þú munt ávinna þér á komandi árum)
- Fellur niður við skilnað eða sambúðarslit
Þú getur þó átt rétt á makalífeyri og/eða barnalífeyri á grundvelli þeirra réttinda. Sjá reglur um maka - og barnalífeyri.
Umsóknareyðublað um skiptingu áunninna réttinda og framtíðarréttinda
Fylla þarf út umsóknareyðublað um skiptingu réttinda og framtíðarréttinda og heimilislæknir viðkomandi þarf að fylla út læknisvottorð .
Sótt er um skiptingu réttinda fyrir báða aðila hjónabands/sambúðar í þeim sjóði sem annar hvor hefur greitt síðast í. Sá sjóður afgreiðir málið og sendir öðrum sjóðum sem viðkomandi kann/kunna að eiga réttindi í. Afgreiðsla getur tekið 2 mánuði þar sem trúnaðarlæknir fer yfir gögn og aðrir sjóðir hafa mánuð til að samþykkja.
Skipting ellilífeyrisgreiðslna
Heimilt er að skipta ellilífeyrisgreiðslum við lífeyristöku án þess að réttindum sé skipt. Við andlát stöðvast skipting og eftirlifandi fær óskiptar greiðslur í samræmi við sín áunnin réttindi.
Fylla þarf út umsóknareyðublað um skiptingu greiðslna.
Sótt er um skiptingu greiðslna fyrir báða aðila hjónabands/sambúðar í þeim sjóði sem annar hvor hefur greitt síðast í. Sá sjóður afgreiðir málið og sendir öðrum sjóðum sem viðkomandi kann/kunna að eiga réttindi í.