Hvers vegna Lífeyrissjóður verzlunarmanna?

Lífeyrissjóður verzlunarmanna er stór og öflugur sjóður með yfir 60 ára farsæla sögu að baki. Hér er gerð grein fyrir hvers vegna skynsamlegt er að velja LV sem lífeyrissjóð sinn.

Kjarasamningar, þar á meðal VR og fleiri félaga verslunar- og skrifstofufólks, kveða á um aðild launþega að sjóðnum. Margir eru óháðir kjarasamningum og hafa frjálst val um lífeyrissjóð. Hér á eftir eru upplýsingar sem geta auðveldað ákvörðun þeirra sem velja sér sjóð.

Staða sjóðsins er sterk. Í lok árs 2016 var hrein eign til greiðslu lífeyris 602 milljarðar króna. Tryggingafræðileg staða sjóðsins hefur verið jákvæð um árabil (tryggingafræðileg staða er mælikvarði á hve vel sjóðurinn getur staðið við lífeyrisskuldbindingar sínar).

Afkoma sjóðsins hefur verið góð á liðnum árum og ávöxtun eigna meðal þess besta sem íslenskir lífeyrissjóðir hafa náð. Undanskilið er næstliðið ár þegar styrking íslensku krónunnar olli því að ávöxtun erlendra eigna varð undir væntingum, einnig innlendra hlutabréfa. Nú þegar eru vísbendingar um að afkoman af þessum eignaflokkum verði betri á þessu ári. Langtímaávöxtun sjóðsins hefur verið góð, meðalraunávöxtun á ári undanfarin 20 ár er 4,4%.

Samtrygging

Samtryggingarform lífeyrissjóða veitir sjóðfélögum víðtæk lífeyrisréttindi og verðmæta tryggingarvernd við áföll.

Lífeyrissjóður verzlunarmanna er samtryggingarsjóður. Það þýðir að lífeyrir frá sjóðnum er greiddur sjóðfélaganum alla ævi, eftir að hann byrjar lífeyristöku. Ævilangur lífeyrir er bundinn vísitölu neysluverðs og fylgir því verðlagi í landinu.

Lífeyrisréttindin eru að hluta erfanleg til eftirlifandi maka og ungra barna. Ef sjóðfélagi fellur frá er makalífeyrir greiddir til eftirlifandi maka, 60% af lífeyrisrétti sjóðfélaga í að lágmarki 3 ár eða þar til yngsta barn hefur náð 23 ára aldri. Barnalífeyrir er greiddur til 20 ára aldurs barns.

Örorkulífeyrir er miðaður við framreiknaðan lífeyrisrétt sjóðfélaga eins og hann héldi áfram að mynda réttindi til 65 ára aldurs. Þá fær hann greiddan örorkulífeyri til 67 ára aldurs, þegar ævilangur lífeyrir tekur við. Einnig er greiddur barnalífeyrir hafi sjóðfélaginn barn á framfæri sínu.

Séreignarlífeyrir

Séreignardeild Lífeyrissjóðs verzlunarmanna tekur við iðgjöldum í frjálsan valkvæðan viðbótarlífeyrissparnað. Samkvæmt kjarasamningum eiga launþegar rétt á að leggja 2-4% launa sinna í frjálsan séreignarlífeyri og fá 2% mótframlag frá launagreiðanda. 

Séreignarlífeyrir er hægt að ávaxta á tvennan hátt, að vali sjóðfélaga: Með verðbréfaleið á sama hátt og samtryggingardeild sjóðsins, eða með innlánsleið þar sem féð er lagt inn á bankareikning.             

Séreignarlífeyrir er laus til útgreiðslu þegar sjóðfélaginn hefur náð 60 ára aldri og getur sjóðfélaginn valið hvort hann er greiddur með reglubundnum hætti yfir lengri tíma, t.d. mánaðarlega í tiltekinn árafjölda, eða sem eingreiðsla. Sjóðfélaginn velur einnig hvenær útgreiðsla hefst. Séreignarlífeyrir er erfanlegur að fullu eftir reglum erfðalaga.

Minnt skal á að allar lífeyrisgreiðslur eru skattskyldar og er því tekin staðgreiðsla af þeim við útborgun.

Reynsla og styrkur

Lífeyrissjóður verzlunarmanna er einn elsti starfandi lífeyrissjóður landsins, stofnaður 1956. Hann stendur því á gömlum merg og innan hans er mikil reynsla og þekking saman komin. 

160 þúsund Íslendingar eiga meiri eða minni lífeyrisréttindi í sjóðnum. Á árinu 2016 greiddu 50.275 sjóðfélagar iðgjöld til sjóðsins, að meðaltali 35 þúsund manns á mánuði. 

Lífeyrisgreiðslur úr samtryggingardeild voru alls 11.570 milljónir króna. Síðari hluta ársins voru þær meira en milljarður króna á mánuði. Alls voru lífeyrisþegar 15.156 talsins. Þeir voru 7,5% fleiri en árið áður, lífeyrisgreiðslur voru 10,6% hærri en árið áður.

Lífeyrissjóður verzlunarmanna er stærstur almennu lífeyrissjóðanna. Hrein eign til greiðslu lífeyris var í lok árs 2016 um 602 milljarðar króna í vel dreifðu eignasafni. Stærðinni fylgir hagkvæmni, m.a. má nefna að eignastýring er að stórum hluta unnin af starfsfólki sjóðsins (sérfræðingum á því sviði) í stað þess að vera aðkeypt þjónusta sem jafnan er dýrari. Rekstrarkostnaður sjóðsins er með þeim lægsta sem þekkist í sambærilegri starfsemi, eða 0,14% af eignum á árinu 2016. Það jafnast á við hagkvæmustu lífeyrissjóði í alþjóðlegum samanburði OECD.

Ítarefni

Hér á vefnum er að finna miklar og ítarlegar upplýsingar um sjóðinn og réttindi sjóðfélaga. Þar er einnig að finna lífeyrisreiknivél og Lífeyrisáætlun, sem er handhægt tæki sjóðfélaga til að kanna áunnin réttindi sín og framreikna þau miðað við gefnar forsendur.