Samþykktabreytingar 2018

Stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna (LV) samþykkti á fundi sínum, 15. mars s.l., tillögur að breytingum á samþykktum sjóðsins.

Með þeim breytingum sem lagðar eru til verður LV heimilt að greiða hálfan ellilífeyri frá 65 ára aldri sjóðfélaga. Jafnframt er gerð breyting á réttindatöflum nr. III og IV í viðauka A við samþykktir sjóðsins þannig að hægt verði að fresta töku ellilífeyris, gegn hækkun mánaðarlegra lífeyrisgreiðslna til allt að 80 ára aldurs í stað 70 ára samkvæmt gildandi samþykktum. Með því er aukinn sveigjanleiki í töku lífeyris og mætt þeim breytingum sem gerðar voru á ellilífeyrisrétti laga um almannatryggingar sem mælir nú fyrir um rétt til töku hálfs ellilífeyris frá 65 ára aldri.

Gert er ráð fyrir því að breytingarnar taki gildi 1. september n.k. að fengnu samþykki aðildarsamtaka lífeyrissjóðsins og staðfestingu ráðherra. 

Breytingartillögurnar verða kynntar á ársfundi sjóðsins sem haldinn er 21. mars 2018 á Grand Hótel Reykjavík, klukkan 18:00.

Efni breytingartillagnanna

1. Breyting á grein 12.4

Ákvæði 12.4 verður svohljóðandi: 

"Sjóðfélagi sem orðinn er 67 ára getur frestað töku lífeyris til allt að 80 ára aldurs og hækkar þá upphæð ellilífeyris skv. töflu III í viðauka fyrir hvern mánuð sem töku hans er frestað."

2. Við grein 12 í samþykktum bætist ný grein nr. 12.10. svohljóðandi: 

"Sjóðfélagi sem ekki hefur hafið töku ellilífeyris hjá sjóðnum getur ákveðið að hefja töku ellilífeyris í 50% hlutfalli hvenær sem er eftir að 65 ára aldri er náð og telst hann þá hafa ráðstafað þeim hluta ellilífeyrisréttinda sinna, sbr. grein 12.9. Ákvæði 12.3 skal gilda um þann hluta sem ráðstafað er fyrir 67 ára aldur. Ákvæði 12.4 skal gilda um hinn frestaða hluta eftir að 67 ára aldri er náð."

3. Við grein 12 í samþykktum bætist ný grein nr. 12.11., til bráðabirgða, svohljóðandi: 

„Sjóðfélagi sem hefur hafið töku ellilífeyris við gildistöku þessa ákvæðis getur með sérstakri umsókn þar að lútandi, fram til 1. janúar 2020, lækkað hlutfall ellilífeyris í 50%. Skal þá tryggingastærðfræðingur sjóðsins meta sérstaklega áhrif frestunar- og/eða flýtingar á fjárhæð lífeyris enda gilda ekki ákvæði 12.3 og 12.4 í slíkum tilvikum. Við mat tryggingastærðfræðings skal byggja á því að tryggingafræðilegar skuldbindingar lífeyrissjóðsins breytist ekki og þannig skal byggja á sömu sjónarmiðum og liggja að baki ákvæða 12.3 og 12.4. Sjóðfélagi sem nýtir sér ákvæði þetta telst eftir sem áður hafa ráðstafað réttindum samkvæmt grein 12.9.“

4. Ný tafla III í Viðauka A við samþykktir LV: 

TAFLA III  Hækkun ellilífeyris þegar taka lífeyris hefst eftir 67 ára aldur
Taka ellilífeyris hefst Hækkun fyrir hvern mánuð Aldur Samtals hækkun
67-68 ára 0,60% 68 7,20%
68-69 ára 0,67% 69 15,24%
69-70 ára 0,75% 70 24,24%
70-71 ára 0,85% 71 34,44%
71-72 ára 0,96% 72 45,96%
72-73 ára 1,10% 73 59,16%
73-74 ára 1,26% 74 74,28%
74-75 ára 1,45% 75 91,68%
75-76 ára 1,68% 76 111,84%
76-77 ára 1,97% 77 135,48%
77-78 ára 2,31% 78 163,20%
78-79 ára 2,74% 79 196,08%
79-80 ára 3,28% 80 235,44%
Þessi tafla breytist til lækkunar þegar lífslíkur munu taka tillit til lækkandi dánartíðni í framtíðinni.

5. Ný tafla IV í Viðauka A við samþykktir LV: 

TAFLA IV  Árleg ellilífeyrisréttindi fyrir hvert 10.000 króna iðgjald sem greitt er á hverju aldursári frá 67 til 69 ári og hækkun vegna innvinnsluársins þegar töku ellilífeyris er frestað
Réttindi skv. töflunni miða við töku lífeyris í lok ársins

Aldur á innvinnsluári

                    67                              68                           69

Lífeyrisréttindi 769 792 818  
Hækkun á mánuði fyrsta árið 0,62% 0,64% 0,67%  
Samtals hækkun 68 ára 0,00% 0,00% 0,00%  
Samtals hækkun 69 ára 7,44% 0,00% 0,00%  
Samtals hækkun 70 ára 15,84% 7,68% 0,00%  
Samtals hækkun 71 ára 25,32% 16,44% 8,04%  
Samtals hækkun 72 ára 36,00% 26,28% 17,16%  
Samtals hækkun 73 ára 48,24% 37,56% 27,60%  
Samtals hækkun 74 ára 62,28% 50,52% 39,48%  
Samtals hækkun 75 ára 78,36% 65,40% 53,16%  
Samtals hækkun 76 ára 97,08% 82,68% 69,12%  
Samtals hækkun 77 ára 118,92% 102,84% 87,72%  
Samtals hækkun 78 ára 144,60% 126,60% 109,56%  
Samtals hækkun 79 ára 175,08% 154,68% 135,48%  
Samtals hækkun 80 ára 211,44% 188,28% 166,44%  
  Þessi tafla breytist til lækkunar þegar lífslíkur munu taka tillit til lækkandi dánartíðni í framtíðinni.

6. Gildistaka

Samþykktabreytingar taka gildi 1. september 2018, að fengnu samþykki aðildarsamtaka lífeyrissjóðsins, sbr. gr. 24. í samþykktum sjóðsins og staðfestingu ráðherra, sbr. 28. gr. laga nr. 129/1997, með síðari breytingum. Ef staðfesting ráðherra er veitt eftir 1. september 2018 taka breytingarnar gildi fyrsta virka dag eftir staðfestingu ráðherra.