Vextir lækka og lánshlutfall hækkar í 75%

6. okt. 2015

Stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna hefur ákveðið nokkrar breytingar á kjörum sjóðfélagalána. Helstu breytingarnar eru að veðhlutfall hækkar í allt að 75%, boðið er upp á óverðtryggð lán, vextir nýrra verðtryggðra lána með föstum vöxtum lækka í 3,6% og lántökukostnaður lækkar í 0,75%. Allir sjóðfélagar eiga lánsrétt, þ.e. þeir sem einhvern tíma hafa greitt iðgjöld til Lífeyrissjóðs verzlunarmanna. Þeir eru um 150 þúsund talsins.

Stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna hefur ákveðið nokkrar breytingar á kjörum sjóðfélagalána. Helstu breytingarnar eru að veðhlutfall hækkar í allt að 75%, boðið er upp á óverðtryggð lán, vextir nýrra verðtryggðra lána með föstum vöxtum lækka í 3,6% og lántökukostnaður lækkar í 0,75%. Allir sjóðfélagar eiga lánsrétt, þ.e. þeir sem einhvern tíma hafa greitt iðgjöld til Lífeyrissjóðs verzlunarmanna. Þeir eru um 150 þúsund talsins.

Breytingarnar miða allar að því að auðvelda sjóðfélögum að fjármagna þarfir heimilisins, einkum íbúðakaup. Hér á eftir er gerð grein fyrir breytingunum.

Lánshlutfall hækkar í 75%

Lánshlutfall er nú allt að 75% af verði íbúðar, en var áður 65%.

Óverðtryggð lán

Nú býðst sjóðfélögum að taka óverðtryggð lífeyrissjóðslán. Hægt er að velja milli jafngreiðslulána og lána með jöfnum afborgunum af höfuðstól. Vextir á nýjum óverðtryggðum lánum eru ákveðnir á þriggja mánaða fresti, en eftir að lán er tekið, eru vextir fastir í 3 ár í senn. Að þeim tíma liðnum getur sjóðfélaginn valið hvort lánið verði áfram með sömu skilmálum, eða því verði breytt í verðtryggt lán. Vextir af óverðtryggðum lánum eru nú 6,97%.

Vextir lækkaðir á verðtryggðum lánum

Vextir á nýjum verðtryggðum sjóðfélagalánum, sem bera fasta vexti, lækka um 0,1 prósentustig, úr 3,7% í 3,6%. Þetta er í annað sinn á þessu ári að vextir lækka á þessum sjóðfélagalánum, í janúar voru þeir lækkaðir úr 3,9% í 3,7%.
Breytilegir vextir á nýjum verðtryggðum sjóðfélagalánum eru nú 3,2%.

Lántökukostnaður lækkar

Lántökukostnaður er lækkaður um fjórðung, úr 1% lánsfjárhæðar í 0,75%.

Ekkert uppgreiðslugjald er greitt, ef greitt er inn á lánin eða þau greidd upp að fullu.

Greiðslumat á staðnum.

Með samkomulagi við Creditinfo hf er sjóðnum nú mögulegt að fá greiðslumat þegar sótt er um lán. Áður þurfti sjóðfélaginn að leita til bankastofnunar eftir greiðslumati, nú er mögulegt að afgreiða öll atriði varðandi lánsumsóknina hjá lífeyrissjóðnum og þarf sjóðfélaginn því ekki að fara á fleiri staði.

Auðveldari fjármögnun heimilisins

Sem fyrr segir er tilgangur þessara breytinga að auðvelda sjóðfélögum að fjármagna þarfir heimilisins.

  1. Dregið er úr kostnaði með lægra lántökugjaldi og lækkun vaxta. Fastir vextir verðtryggðra lána, sem nú hafa verið lækkaðir í 3,6%, haldast óbreyttir allan lánstímann. Vert er að benda einnig sérstaklega á lífeyrissjóðslán með breytilegum vöxtum, sem nú eru 3,2%. Breytilegir vextir eru ákvarðaðir 15. hvers mánaðar og eru 0,75% hærri en meðalávöxtun í síðasta mánuði á nýjasta flokki íbúðabréfa (HFF 150434) skráð í kauphöll Nasdaq OMX. Óverðtryggð lán bera fasta vexti sem eru endurskoðaðir eftir þrjú ár. Þeir eru nú 6,97%.
  2. Hækkun veðhlutfalls upp í 75% af virði íbúðar auðveldar fjármögnun íbúðakaupa venjulegrar fjölskyldu með hagkvæmara lífeyrissjóðsláni.
  3.  Þá er lántökuferlið einfaldað með því að einungis þarf að heimsækja skrifstofu sjóðsins til að ganga frá lántöku. Greiðslumat er gert á staðnum og önnur nauðsynleg gögn sótt, þannig að sjóðfélaginn þarf ekki að fara á fleiri staði til að ljúka við umsóknina.


Eftir þessar breytingar eru lífeyrissjóðslán frá Lífeyrissjóði verzlunarmanna hagkvæmur fjármögnunarkostur fyrir heimilin í landinu.

Áratuga reynsla – frá 1956

Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur frá stofnun árið 1956 tekið þátt í fjármögnun íbúðarhúsnæðis sjóðfélaga sinna, með beinum og óbeinum hætti. Fyrst með hagstæðum lánum til sjóðfélaga, sem strax á öðru starfsári sjóðsins voru afgreidd til fyrstu lántakendanna. Síðar einnig með því að fjármagna Íbúðalánasjóð og forvera hans, sem svo aftur hefur endurlánað almenningi til íbúðakaupa.

Ítarlegar upplýsingar um lánareglur Lífeyrissjóðs verzlunarmanna er að finna hér.