Umframávöxtun 60 milljarðar á 15 árum

14. nóv. 2017

Samanburður ávöxtunar samtryggingardeildar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna við ávöxtun samtryggingardeilda annarra íslenskra lífeyrissjóða er sjóðnum hagstæður.

15 ára raunávöxtun umfram meðaltal

Samanburður ávöxtunar samtryggingardeildar LV við ávöxtun samtryggingardeilda annarra íslenskra lífeyrissjóða er sjóðnum hagstæður. Þannig er ávöxtun eigna LV, s.l. 15 ár, að jafnaði tæpu 1% hærri en íslenska lífeyrissjóðakerfisins án LV, eða sem nemur 4,0% raunávöxtun LV, samanborið við 3,1% raunávöxtun samanburðarsjóðanna í heild. 

Um 60 milljarða ávinningur

Reiknaður uppsafnaður ávinningur af þessari umframávöxtun nemur um 60 milljörðum undanfarin 15 ár, en eignir samtryggingardeildar eru nú rúmir 630 milljarðar (áætlun í lok 3. ársfjórðungs). Þessi ávöxtun á ríkan þátt í því að tryggingafræðileg staða sjóðsins er nú mun sterkari en ef ávöxtun eigna hefði verið í takt við meðalávöxtun lífeyrissjóðakerfisins. 

Sú vísa er aldrei of oft kveðin að ávöxtun í fortíð gefur ekki fyrirheit um ávöxtun í framtíð. Það er hins vegar von starfsfólks og stjórnar LV að eignasamsetning samtryggingardeildar og fjárfestingarstefna hennar geri sjóðnum fært að ávaxta eignir sjóðsins áfram vel og tryggja þar með sjóðfélögum áframhaldandi traust lífeyrisréttindi. 

Meðfylgjandi mynd sýnir þróun raunávöxtunar LV annars vegar og lífeyrissjóðakerfisins án LV hins vegar s.l. 15 ár. Þar sést að ávöxtun LV er hærri en kerfisins í 13 ár af 15.  

Dreift eignasafn styrkir grunninn undir lífeyrisréttindum sjóðfélaga

 

Lífeyrissjóður verzlunarmanna leggur áherslu á að dreifa fjárfestingum á ólíka eignaflokka. Markmiðið er að ná sem bestri ávöxtun að teknu tilliti til áhættu. 

Eins og fram kemur á meðfylgjandi mynd er liðlega helmingur eigna samtryggingardeildar sjóðsins ávaxtaður í skuldabréfum. Þar af er rétt um fjórðungur af eignasafninu í  ríkisskuldabréfum en einnig er verulegur hluti í skuldabréfum sveitarfélaga, sjóðfélagalánum og fyrirtækjaskuldabréfum sem eru að hluta til fasteignatryggð. 

Tæplega helmingur eignasafnsins er ávaxtaður í vel dreifðu safni hlutabréfa. Erlend hlutabréf, sem eru um fjórðungur eignasafnsins eru að uppistöðu vísitölusjóðir og önnur hlutabréfasöfn í þúsundum fyrirtækja. Innlend hlutabréf eru liðlega fimmtungur af safninu og samanstanda að mestu af kauphallarskráðum félögum. 

Nær öllum innlendum eignum samtryggingardeildar sjóðsins, eða um 75% af um 630 milljörðum (áætlun í lok 3. ársfjórðungs) er stýrt beint af stjórnendum og starfsmönnum lífeyrissjóðsins.  

Nýaukið frelsi til fjárfestinga erlendis gerir Lífeyrissjóði verzlunarmanna fært að halda áfram að byggja upp dreift erlent eignasafns og bæta þannig áhættudreifingu eigna.