Um starfskjör framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs verzlunarmanna

13. jún. 2016

Starfskjör framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs verzlunarmanna hafa verið tekin til umræðu í nokkrum fjölmiðlum undanfarið. Af því tilefni telur lífeyrissjóðurinn rétt að eftirfarandi komi fram: 

Starfskjör framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs verzlunarmanna hafa verið tekin til umræðu í nokkrum fjölmiðlum undanfarið. Af því tilefni telur lífeyrissjóðurinn rétt að eftirfarandi komi fram: 

Stjórn sjóðsins ræður framkvæmdastjóra og semur við hann um starfskjör. Í gildi er starfskjarastefna samþykkt af stjórn sjóðsins og er stuðst við hana við ákvörðun starfskjara framkvæmdastjóra og annarra starfsmanna. 

Opinber starfskjör

Starfskjör framkvæmdastjóra eru opinber og gerð grein fyrir þeim að fullu í ársskýrslu sjóðsins, sem er aðgengileg á vef sjóðsins. Þar með eru talin öll hugsanleg hlunnindi sem kunna að vera hluti af umsömdum launum. Laun framkvæmdastjóra, sem og allra annarra starfsmanna Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, eru föst, þ.e. ekki eru greiddir kaupaukar né bónusar af nokkru tagi.

Sérstök áhersla hefur í þessari fjölmiðlaumfjöllun verið lögð á launahækkanir framkvæmdastjóra frá árinu 2009. Í þá umfjöllun hefur þó vantað veigamikil atriði.

Núverandi framkvæmdastjóri, Guðmundur Þ. Þórhallsson, gegndi starfi forstöðumanns eignastýringar hjá sjóðnum fyrri hluta ársins 2009. Hann tók við starfi framkvæmdastjóra 1. júlí það ár. Þá höfðu laun hans verið lækkuð, frá áramótum, um 10%. 

Rétt er að benda á að árið 2010 er fyrsta heila árið sem framkvæmdastjóri sjóðsins gegnir sínu starfi. Árið 2009 er ekki marktækt í launasamanburði þar sem framkvæmdastjóri gegndi því starfi einungis hálft það ár auk þess sem laun höfðu verið lækkuð frá og með byrjun þess árs. Í ársskýrslu 2009 kemur ekki fram hver launin voru í hvoru starfinu fyrir sig, aðeins fyrir árið í heild. 

Nr. 32

Laun framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs verzlunarmanna hafa verið borin saman við laun framkvæmdastjóra tveggja annarra lífeyrissjóða. Ekki er að sjá að annar samanburður hafi verið gerður. Eðlilegt væri þó að leita einnig út fyrir lífeyrissjóðina í samanburðinum. Þar er helst að nefna fólk sem t.d. í Tekjublaði Frjálsrar verzlunar er flokkað sem „Starfsmenn fjármálafyrirtækja.“ Úr því mengi mannauðs í landinu kæmi framkvæmdastjóri og viðræður og samningar við hann mundu óhjákvæmilega mótast af því sem tíðkast á þeim markaði, eins og gert er ráð fyrir í Starfskjarastefnu sjóðsins. Við athugun á Tekjublaði FV sem kom út 2015 kemur í ljós að framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verzlunarmanna er nr. 32 á lista yfir starfsmenn fjármálafyrirtækja sem þar er birtur. Sá samanburður gefur réttari og raunsærri mynd en sá sem eingöngu miðar við aðra lífeyrissjóði. 

Miklar kröfur

Þegar stjórn hefur ráðið framkvæmdastjóra og samið við hann um starfskjör hefur hún að sjálfsögðu væntingar um frammistöðu framkvæmdastjórans og gerir ákveðnar kröfur til hans. Stjórn hefur m.a. það hlutverk að sjá til þess að framkvæmdastjóri vinni fyrir launum sínum og er afdráttarlaus afstaða stjórnar sú, að núverandi framkvæmdastjóri geri það eins og glöggt má sjá á kennitölum sjóðsins.

Árangurinn má sjá af kennitölum úr rekstri sjóðsins undanfarin ár og áratugi.

Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur skilað betri afkomu sem er með því besta meðal íslenskra lífeyrissjóða. Sjá. Bls. 4 og bls. 78 í ársskýrslu 2015. Sama er hvort skoðuð er raunávöxtun sjóðsins á liðnu ári, undanfarin fimm ár, tíu ár eða 20, Lífeyrissjóður verzlunarmanna skarar þar framúr. 

Tryggingafræðileg staða sjóðsins (mælikvarði á getu til að standa við lífeyrisskuldbindingar) hefur batnað sem nemur 11 prósentustigum undanfarin fimm ár, sjá bls. 11 í ársskýrslu 2015, og er nú ein sú besta meðal íslenskra lífeyrissjóða.

Rekstrarkostnaður hefur farið lækkandi undanfarin ár sem hlutfall af eignum sbr. Bls. 78 í ársskýrslu. 

Hrein eign til greiðslu lífeyris hefur rúmlega tvöfaldast frá 2009, var 283,1 milljarður í lok árs 2009, en 583,7 milljarðar í árslok 2015, vöxtur er 106% á því tímabili. Það er í raun og veru mikið ábyrgðarstarf að stýra svo stóru eignasafni og góður árangur að auka það að vöxtum ár frá ári. 

Hvað flestar kennitölur varðar í rekstri sjóðsins hafa undanfarin ár verið betri hjá LV en hjá velflestum öðrum lífeyrissjóðum í landinu.