Um eignarhlut í 365 miðlum

10. feb. 2015

Lífeyrissjóður verzlunarmanna varð óbeinn hluthafi í 365 miðlum á dögunum. Þessi tæplega tveggja prósenta eignarhlutur í fjölmiðlafyrirtækinu, sem ætlunin er að verði einnig fjarskiptafyrirtæki, hefur vakið nokkra athygli og þeirri fyrirspurn var beint til sjóðsins hvort þessi eign endurspeglaði stefnu sjóðsins í fjárfestingum.

Lífeyrissjóður verzlunarmanna varð óbeinn hluthafi í 365 miðlum á dögunum. Þessi tæplega tveggja prósenta eignarhlutur í fjölmiðlafyrirtækinu, sem ætlunin er að verði einnig fjarskiptafyrirtæki, hefur vakið nokkra athygli og þeirri fyrirspurn var beint til sjóðsins hvort þessi eign endurspeglaði stefnu sjóðsins í fjárfestingum.

Fríblaðið Reykjavík vikublað birti laugardaginn 7. febrúar frétt um eignarhald 365, þar sem meðal annars kom fram að hlutur í félaginu væri kominn í eigu Lífeyrissjóðs verzlunarmanna. Þeirri spurningu var beint til sjóðsins hvort það væri stefna sjóðsins að fjárfesta í þessu fyrirtæki. Þá var þetta svar sjóðsins birt: „Fjárfesting í Auði (og aðrar sambærilegar fjárfestingar) eru gerðar með skuldbindingu í tiltekinn tíma. LV hefur engin bein afskipti af fjárfestingum Auðar, þannig að það sem Auður gerir endurspeglar ekki stefnu LV.“

Af þessu tilefni er rétt að gera grein fyrir hvernig þessi eignarhlutur er kominn til Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, án þess þó að hér sé á nokkurn hátt lagt mat á gæði fjárfestingarinnar.

Fyrir nokkrum árum fjárfesti Lífeyrissjóður verzlunarmanna, ásamt fleiri lífeyrissjóðum og fagfjárfestum, í fagfjárfestingasjóði sem í daglegu tali kallast Auður 1. Sá sjóður var þá rekinn af Auði Capital, en er nú rekinn af Virðingu hf. Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur ekki afskipti af fjárfestingum Auðar 1, en ákvarðanir um hvar sá sjóður fjárfestir eru teknar af stjórn Auðar 1.

Með hæfilegri einföldun má segja að þeir sem fjárfesta í sjóðum á borð við Auði 1 gangi að því sem forsendum fjárfestingarinnar, að hún sé gerð í ávöxtunarskyni og til tiltekins tíma. Að þeim tíma liðnum verði eigur sjóðsins seldar og eigendum (fjárfestum í sjóðnum) greiddur út eignarhlutur þeirra. Fyrirtækinu, sem rekur viðkomandi fagfjárfestasjóð, er þannig falið að annast ákvarðanir um fjárfestingar og sölu eigna sjóðsins á grundvelli kynntrar stefnu.

Auður 1 fjárfesti fyrir nokkrum árum í fjarskiptafyrirtækinu Tali hf. Á árinu 2014 var síðan ákveðið að Tal og 365 miðlar sameinuðust. Við þá sameiningu eignaðist Auður 1 hlut í 365 sem endurgjald fyrir hlut sinn í Tali. Þetta þýðir að hluthafar í Auði 1 hafa með því eignast hlut í 365 miðlum. Þannig hefur Lífeyrissjóður verzlunarmanna eignast óbeint 1,9% hlut í 365 miðlum.

Gera má ráð fyrir að eignarhluti Auðar 1 í 365 miðlum taki breytingum á næstu árum, þótt ekki sé fyrirséð með hvaða hætti það verður. Að óbreyttum forsendum sýnist ljóst að með þessum viðskiptum undanfarna mánuði með hlut Auðar 1 í Tali, sameiningu Tals við 365 og síðan við hugsanlega sölu þess hlutar hefur hagsmuna sjóðfélaga lífeyrissjóðsins verið gætt.