Tryggingafræðileg staða hefur hækkað um 11 prósentustig á fimm árum

16. jún. 2016

Tryggingafræðileg staða Lífeyrissjóðs verzlunarmanna batnaði á árinu 2015, fimmta árið í röð. Heildareignir eru nú 8,7% umfram heildarskuldbindingar samanborið við 5,1% árið 2014. Bætt tryggingafræðileg staða er einkum tilkomin vegna góðrar ávöxtunar eigna sjóðsins en lág verðbólga hefur einnig áhrif.

Tryggingafræðileg staða Lífeyrissjóðs verzlunarmanna batnaði á árinu 2015, fimmta árið í röð. Heildareignir eru nú 8,7% umfram heildarskuldbindingar samanborið við 5,1% árið 2014. Bætt tryggingafræðileg staða er einkum tilkomin vegna góðrar ávöxtunar eigna sjóðsins en lág verðbólga hefur einnig áhrif.

Á myndinni má glöggt sjá að tryggingafræðileg staða sjóðsins hefur styrkst ár frá ári undanfarin fimm ár, sýnu mest þó árin 2014 og 2015. Styrkingin nemur samtals 11 prósentustigum. Tryggingafræðileg staða sýnir getu sjóðsins til að standa undir skuldbindingum sínum um greiðslu lífeyris. Sé meira en 10% munur á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga er sjóðnum skylt samkvæmt lögum að gera breytingar eftir atvikum til hækkunar eða lækkunar á skuldbindingum sínum, einnig ef munurinn hefur haldist meiri en 5% samfellt í fimm ár.

Sterk tryggingafræðileg staða sjóðsins er til þess fallin að renna styrkum stoðum undir lífeyrisréttindi sjóðfélaga. Eins og fram kemur í lögum og samþykktum sjóðsins byggja réttindin á réttindaákvæðum samþykkta sjóðsins, núverandi eignasafni, framtíðariðgjöldum og væntri framtíðarávöxtun. Sjóðfélagar bera því áhættu af ávöxtun eigna sjóðsins. Sá lífeyrir sem þeir vænta getur orðið lægri eða hærri eftir því hvernig til tekst að ávaxta eignir sjóðsins til framtíðar. Þá hafa ýmsir lýðfræðilegir þættir áhrif á getu sjóðsins til að greiða lífeyri þar sem sjóðurinn er samtryggingarsjóður sem veitir rétt til ævilangs lífeyris, örorkulífeyris, makalífeyris og barnalífeyris. Þróun ævilengdar sjóðfélaga og tíðni örorku eru meðal helstu lýðfræðilegu áhættuþátta sem geta haft áhrif á lífeyri til sjóðfélaga. Einnig hafa þættir eins og hjúskaparstaða og barneignatíðni áhrif.

Þróun tryggingafræðilegrar stöðu 2011 - 2015