Tímamót í starfi LV

Góðum árangri skilað til sjóðfélaga

30. mar. 2022

Ársfundur Lífeyrissjóðs verzlunarmanna 2022 markar mikil og margþætt tímamót í starfi sjóðsins, nú þegar 66 ár eru frá stofnun hans.

Áfangar hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna árið 2021

 • Heildareignir í lok árs voru 1.201 milljarður kr., 188 milljarða vöxtur á árinu, þar af 174 milljarða tekjur af fjárfestingum
 • Hrein raunávöxtun sameignardeildar var 11,5%
 • Lífeyrisréttindi og -greiðslur hækkuð um 10%
 • Ný heildarstefna sett um ábyrgar fjárfestingar
 • 48 þúsund sjóðfélagar greiddu iðgjöld til sjóðsins
 • 21 þúsund sjóðfélagar fengu greiddan lífeyri, alls 22,2 milljarða kr.

Góðum árangri skilað til sjóðfélaga

 • Góð afkoma til margra ára hefur gert sjóðnum kleift að hækka lífeyrisréttindi sjóðfélaga og um leið lífeyri þeirra sem þegar hafa hafið töku lífeyris. Þetta gerðist á liðnu hausti þegar réttindi og lífeyrir hækkuðu um 10%.
 • 2022 verður fyrsta heila árið sem LV starfar eftir nýsamþykktri stefnu um ábyrgar fjárfestingar.
 • Innleiddar hafa verið forsendur um lengri ævi og verða réttindi sjóðfélaga löguð að þeim á þann hátt að sjóðfélagar verði sem minnst varir við breytingar.
 • Gert er ráð fyrir að lífeyrisgreiðslur hækki aftur í haust.
 • Aukinn sveigjanleiki við upphaf lífeyristöku, nú frá 60 ára aldri í stað 65.
 • Aukin makalífeyrisréttindi.

Allt eru þetta miklar og víðtækar breytingar sem útskýrðar eru ítarlega í árs- og sjálfbærniskýrslu sjóðsins sem finna má á vefnum arsskyrsla.live.is

Um leið eru þessi tímamót í fullu samræmi við gildi sjóðsins

Ábyrgð – umhyggja – árangur

Ábyrgð í allri starfsemi sjóðsins hefur í síauknum mæli verið leiðarljós Lífeyrissjóðs verzlunarmanna undanfarin ár. Á þann hátt hefur verið mögulegt að sýna umhverfi okkar sem og sjóðfélögum öllum þá umhyggju sem nútímasamfélag krefst. Góður árangur sjóðsins undanfarna áratugi skilar sér til sjóðfélaga.

Nýr veruleiki

Á íslenskum verðbréfamarkaði er Lífeyrissjóður verzlunarmanna einn af brautryðjendum til þess nýja veruleika sem blasir nú við fjárfestum af sífellt meiri þunga. Almennt er orðin ráðandi krafa við fjárfestingar í verðbréfum að fjárfestingin uppfylli kröfur um sjálfbærni og samfélagsábyrgð meðal annars vegna þeirra áskorana sem blasa við vegna loftslagsbreytinga. Sem liður í því setja fjárfestar eins og LV sér stefnu um útilokun fjárfestinga sem ekki geta fallið að slíkum kröfum og hefur LV samþykkt útilokun fyrirtækja sem meðal annars framleiða tóbak, umdeild vopn og mjög mengandi jarðefnaeldsneyti.

Jafnframt er í engu slegið af kröfum um áreiðanleika og arðsemi fjárfestinga, þótt sett séu skilyrði um að þær uppfylli sjálfbærnikröfur enda eru fyrirtæki sem ekki huga að sjálfbærni mögulega í verri stöðu til að takast á við áskoranir samtímans


Afhverju er verið að breyta samþykktum sjóðsins ?

Breytingarnar eru annarsvegar tilkomnar vegna almennrar þróunar á vörum og þjónustu sjóðsins og hinsvegar vegna vegna innleiðingar á breyttum forsendum við mat á lífeyrisskuldbindingum sjóðsins.

Hvenær tekur breytingin gildi ? 

Tillögurnar hafa verið samþykktar á Ársfundi sjóðsins sem haldinn var 29.mars. Þær bíða annarsvegar staðfestingar hjá aðildarsamtökum LV, sem eru VR og SA, sem og hjá fjármála- og efnahagsráðherra. Þetta ferli getur tekið nokkra mánuði og því má búast við því að innleiðing á þessum breytingum komi ekki til framkvæmda fyrr en í september 2022.

Munu lífeyrisgreiðslur hækka og hvenær mun hækkunin koma til framkvæmda ?

Lífeyrisgreiðslur munu hækka líkt og þær gerðu í nóvember 2021 þegar þær hækkuðu um 10%. Ástæðan er góð ávöxtun undanfarin ár, sem styrkt hefur tryggingafræðilega stöðu sjóðsins. Gildistaka samþykktabreytinganna er áætluð í september. Hafi ráðherra ekki staðfest breytingarnar fyrir þann tíma taka breytingarnar gildi fyrsta virka dag næsta mánaðar eftir staðfestingu ráðherra.

Í hverju felst breyting samþykkta sjóðsins ?

Verið er að auka áfallatryggingavernd sjóðsins og auka sveigjanleika til töku lífeyris.
Sveigjanleiki varðandi upphaf lífeyristöku er aukinn. Mögulegur upphafsaldur lífeyris er færður til 60 ára aldurs úr 65 ára. Endurreikningur lífeyris verður tíðari hjá þeim hafa hafið töku lífeyris en halda áfram að ávinna sér réttindi vegna launatekna. Örorkutrygging sjóðfélaga er einnig bætt þar sem framreikningsréttur stofnast á nýjan leik eftir hlé á greiðslum til sjóðsins eftir sex mánuði sem áður var 36 mánuðir. Þá mun lágmarksréttur til makalífeyris einnig taka breytingum þar sem hálfur makalífeyrir í 24 mánuði bætist við þá 36 mánuði sem fullur makalífeyrir er greiddur.
Samþykktabreytingarnar fela einnig í sér breytingu á réttindaávinnslu sameignardeildar sem tekur mið af breyttum forsendum við mat á lífeyrisskuldbindingum sjóðsins. Forsendubreytingin byggir á nýjum dánar- og eftirlifendatöflum sem staðfestar voru af ráðherra í desember 2021, er í samræmi við ráðgjöf tryggingastærðfræðings sjóðsins og til þess fallin að styrkja mat á skuldbindingum sameignardeildar og draga úr líkum á að lækka þurfi réttindi í framtíðinni vegna hækkandi lífaldurs sjóðfélaga.

Munu lífeyrisgreiðslur hækka ?

Lífeyrisgreiðslur munu hækka líkt og þær gerðu í nóvember 2021 þegar þær hækkuðu um 10% Ástæðan er góð ávöxtun LV undanfarin ár, sem styrkt hefur tryggingafræðilega stöðu sjóðsins.

Hversu mikil er hækkunin ?

Lífeyrisgreiðslur hækka um um það bil 8%, með fyrirvara um afkomu sjóðsins á árinu. Áunnin lífeyrisréttindi í sameignardeild sjóðsins hækka hins vegar um 12% að frátöldum barnalífeyri. Hækkunin leiðir ekki af sér samsvarandi hækkun lífeyris þar sem áhrif nýrra dánar- og eftirlifanditaflna hefur áhrif á áunnin lífeyrisréttindi til lækkunar, minnst hjá sjóðfélögum sem eru 65 ára og eldri en sá hópur er kominn með rétt til töku ellilífeyris. Ástæðan fyrir þessum mun liggur í því mati að lífaldur yngri sjóðfélaga sé að hækka meir en þeirra sem eldri eru.

 AldurHækkun áunnina réttinda 2021  Jöfnun áunnina
réttinda vegna réttindabreytinga
Hækkun áunnina réttinda
 2022 
Alls 
Lífeyrisþegar og 65 ára og eldri 10,0% -4,3%12,0%  17,9%
 60 10,0% -6,6% 12,0%15,1% 
 50 10,0% -9,2% 12,0%11,9% 
 40 10,0% -11,0% 12,0% 9,6%
 30 10,0% -12,3% 12,0%8,0% 
 20 10,0% -13,4% 12,0% 6,7%

Verður eingreiðsla til lífeyrisþega líkt og í nóvember 2021 ?

Nei, hækkun lífeyris mun koma til framkvæmda um leið og hún tekur gildi og þess vegna verður ekki um eingreiðslu að ræða.

Hvenær kemur hækkun lífeyrisgreiðslna til framkvæmda ?

Gildistaka samþykktabreytinganna er áætluð í september. Hafi ráðherra ekki staðfest breytingarnar fyrir þann tíma taka breytingarnar gildi fyrsta virka dag næsta mánaðar eftir staðfestingu ráðherra.

Af hverju stendur sjóðurinn svona vel ?

Sterk staða sjóðsins er afrakstur farsæls rekstrar. Sterkur og samhentur hópur hefur undanfarin ár náð afar góðri ávöxtun eigna sjóðsins og má nefna að meðalraunávöxtun eigna á ári síðustu 10 ár er 7,6%, síðustu 20 ár 5,2% og síðustu 30 ár 5,5%.