Tilgreind séreign

15. jún. 2017

Mótframlag launagreiðenda í lífeyrissjóð hækkar frá og með júlílaunum næstkomandi. Mótframlagið verður þá 10%, en iðgjald launþega verður óbreytt áfram, 4%. Sjóðfélagar hafa val um hvort viðbótarframlaginu, 2%, verður ráðstafað í samtryggingu eða tilgreinda séreign.

Mótframlag launagreiðenda í lífeyrissjóð hækkar frá og með júlílaunum næstkomandi. Mótframlagið verður þá 10%, en iðgjald launþega verður óbreytt áfram, 4%. Sjóðfélagar hafa val um hvort viðbótarframlaginu, 2%, verður ráðstafað í samtryggingu eða tilgreinda séreign.

Með samkomulagi Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins í janúar 2016 var ákveðið að mótframlag launagreiðenda á almennum vinnumarkaði skyldi hækka í áföngum úr 8% í 11,5%. Fyrsti áfanginn gekk í gildi 1. Júlí 2016 þegar mótframlagið hækkaði í 8,5%. Annar áfangi gengur í gildi 1. Júlí næstkomandi þegar mótframlagið verður 10%. Síðasti áfanginn tekur gildi á næsta ári, 1. Júlí 2018 þegar mótframlagið verður 11,5%. Þá verður heildariðgjaldið orðið 15,5% af launum.

Í þessu samkomulagi ASÍ og SA er ennfremur innleidd sú nýjung að sjóðfélaginn hefur val um ráðstöfun hækkunarinnar í tilgreinda séreign. Ef ekkert er valið fer viðbótariðgjaldið allt í samtryggingu.

Tilgreind séreign verður eign sjóðfélagans, en útgreiðsla háð öðrum reglum en hinnar almennu frjálsu séreignar. Tilgreind séreign er laus til útgreiðslu frá og með 67 ára aldri sjóðfélaga, en þó er hægt að hefja útgreiðslu allt að fimm árum fyrr með því að dreifa greiðslum til 67 ára aldurs. Tilgreind séreign er erfanleg eins og aðrar einkaeignir samkvæmt ákvæðum erfðalaga. Tilgreinda séreign má hins vegar ekki nýta til greiðslu inn á fasteignalán samkvæmt sérstökum ráðstöfunum stjórnvalda, ólíkt frjálsu séreigninni, og tilgreindri séreign má ekki heldur á þann hátt nýta til íbúðakaupa.

Stjórn sjóðsins hefur þegar samþykkt tillögu um breytingar á samþykktum sjóðsins. Sú tillaga verður kynnt á aukaársfundi sjóðsins, sem haldinn verður þann 21. júní næstkomandi á Grand Hótel Reykjavík klukkan 09:00.

Ítarlegar upplýsingar um ráðstöfun hækkunar mótframlagsins, þar á meðal tilgreinda séreign, verða birtar á vef sjóðsins nálægt mánaðamótum. Þar verður einnig reiknivél sem sýnir fjárhæðir miðað við mismunandi hlutfall hækkunarinnar í samtryggingu eða tilgreinda séreign.