Þannig vinna fjármunirnir okkar í okkar þágu og samfélagsins

29. maí 2019

„Á dögunum bárust fréttir af því að nokkrir lífeyrissjóðir hefðu keypt helming hlutafjár í HS Orku og hugmyndir eru uppi um að lífeyrissjóðir taki þátt í innviðauppbyggingu á vegum sveitarfélaga. Ég er sannfærð um að við eigum eftir að heyra fleiri fréttir í þessum dúr og vona það satt að segja. Ég hvet meira að segja lífeyrissjóðina til að nýta líka styrk sinn til innviðauppbyggingar. Það má gera án þess að slegið sé af arðsemiskröfum. Þannig vinna fjármunirnir okkar, í sjóðunum fyrir sér, í okkar þágu og samfélagsins,“ sagði Guðrún Hafsteinsdóttir varaformaður LV og formaður Landssamtaka lífeyrissjóða á hátíðarfundi Landssamtakanna í tilefni af að 50 ár eru liðin frá því íslenska lífeyriskerfið í núverandi mynd var stofnað með kjarasamningum á vordögum 1969. Við birtum hér ræðu Guðrúnar í heild:

Forsætisráðherra - Ágætu samkomugestir! Til hamingju með daginn og tímamótin sem við erum hér saman komin til að minnast.

Á forsíðu Morgunblaðsins 20. maí 1969 voru tvær risafyrirsagnir. Annars vegar var greint frá bandarísku geimfari sem geystist með ógnarhraða til tunglsins. Hins vegar að á Íslandi væri nú tryggður vinnufriður í eitt ár.

Í báðum tilvikum var fjallað um stóra og mikla áfanga þótt ólíkir væru, fyrir íslenskt samfélag og sjálft mannkynið.

Í annarri fréttinni var fjallað um för Apollo 10. undanfara Apollos 11. sem skotið var á loft síðar á árinu og flutti fyrstu mennina sem stigu fæti á tunglið í júlí 1969.

Í hinni fréttinni var fjallað um kjarasamninga sem náðust eftir þriggja mánaða samningalotu, þá lengstu og erfiðustu sem dæmi voru um til þess tíma. Það hafði komið til verkfalla og verkbanna í deilunni en átökin urðu ekki eins víðtæk og alvarleg og hefði geta orðið.

Þegar rýnt er í dagblöðin frá þessum tíma er greinilegt að þjóðin varpaði öndinni léttar þegar samningar tókust. Nóg mæddi á henni samt: efnahagskreppa, fjöldaatvinnuleysi og stórfelldur landflótti fólks sem vildi leita annað eftir atvinnu og betri lífsskilyrðum.

Ummæli manna sem stóðu að kjarasamningunum sýna að þeir gerðu sér grein fyrir því að samningsákvæðið um skylduaðild að lífeyrissjóðum markaði tímamót.

Bjarni Björnsson frá Félagi íslenskra iðnrekenda talaði um að lífeyrissjóðaákvæðið væri mjög merkilegt.

Hannibal Valdimarsson, forseti Alþýðusambands Íslands, sagði að stofnun lífeyrissjóða myndi óefað þykja merkasti þáttur þessara kjarasamninga.

Sverrir Hermannsson, formaður Landssambands verslunarmanna, sagði að stofnun lífeyrissjóða væri miklu stærra og mikilvægara atriði en menn við fyrstu sýn gætu gert sér í hugarlund.

Þetta mat fulltrúa atvinnurekenda og launafólks fyrir hálfri öld var hárrétt og síður en svo að þeir hafi kveðið of fast að orði. Það sést best á því að við sjáum ástæðu til að boða nú til samkomuhalds á vegum lífeyrissjóða landsins til að minnast kjarasamningsákvæðisins um skylduaðildina og þakka forystumönnum hagsmunasamtaka á almennum vinnumarkaði í leiðinni fyrir framtakið, áræðnina og framsýnina.

Alltaf er gott og hollt að líta um öxl og rifja upp söguna, þegar tækifæri gefast til. Margt sem okkur þykir sjálfsagður hluti tilverunnar, er það auðvitað ekki. Þannig er það engan veginn sjálfsagður hlutur að Íslendingar búi við lífeyriskerfi sem bæði Alþjóðabankinn og Efnahags- og framfarastofnunin OECD vísa til og benda á sem fyrirmynd.

Þá skal því um leið haldið til haga að lífeyrissjóðakerfið okkar er ungt og hefur ekki tekið út fullan þroska en það gerist innan fárra ára. Leyfum því að taka út þroskann, fjöllum um það á gagnrýninn en uppbyggilegan og sanngjarnan hátt. Styrkjum kerfið, bætum það en veikjum það hvorki í orði né verki.

Samtryggingin sem fólgin er í hugsun og starfsemi lífeyrissjóðs er ein af meginstoðum velferðarsamfélags. Sú hugsun er falleg en raunveruleg. Við berum ábyrgð hvert á öðru, einn fyrir alla, allir fyrir einn.

Því miður er það svo að til eru hópar í samfélaginu sem búa við kröpp kjör, eiga lítil eða engin réttindi í lífeyrissjóðakerfinu af ýmsum ástæðum og lenda þar nánast milli báts og bryggju. Við slíkt er ekki hægt að una og þá er horft til lífeyriskerfisins í heild sinni til að bregðast við og bæta úr svo sem flestir megi una þokkalega við sinn hag.

Góðir gestir.

Oft kemur fyrir að menn grípi til þess að nota hugtakið bákn um lífeyrissjóðakerfið okkar. Vissulega má til sanns vegar færa að miklar eignir verða til í kerfi sem byggist á því að hver kynslóð leggi sjálf fyrir fjármuni á atvinnuskeiði sínu til að ganga að á efri árum. Það liggur bara í hlutarins eðli.

Því verður aldrei haldið nógsamlega á lofti að lífeyrissjóðakerfið stóð af sér storma efnahagshrunsins og stuðlaði mjög að því að reisa við fyrirtæki sem hölluðust eða fóru á hliðina í gegnum Framtakssjóð Íslands. Þannig var flýtt fyrir og beinlínis stuðlað að því að koma samfélaginu á fullan skrið á nýjan leik.

Á dögunum bárust fréttir af því að nokkrir lífeyrissjóðir hefðu keypt helming hlutafjárs í HS Orku og hugmyndir eru uppi um að lífeyrissjóðir taki þátt í innviðauppbyggingu á vegum sveitarfélaga. Ég er sannfærð um að við eigum eftir að heyra fleiri fréttir í þessum dúr og vona það satt að segja. Ég hvet meira að segja lífeyrissjóðina til að nýta líka styrk sinn til innviðauppbyggingar. Það má gera án þess að slegið sé af arðsemiskröfum. Þannig vinna fjármunirnir okkar, í sjóðunum fyrir sér, í okkar þágu og samfélagsins. Þar er af nógu að taka. Flutningsnet raforku er ófullnægjandi, reyndar svo að loðnubræðslur í tilteknum landshlutum þurfa að nota olíu til að framleiða raforku þegar notkunin er umfram það sem kerfið getur fært þeim. Þetta gerist í landi grænu orkunnar með tilheyrandi áhrifum á umhverfið.

Ég nefni líka frárennsliskerfi, samgöngukerfið og umfangsmiklar og dýrar framkvæmdir sem eru mörgum sveitarfélögum sem og ríki um megn að ráða við.

Metin viðhaldsþörf innviða á næstu árum er margfalt fjárfrekari en það kostar að reisa nýtt háskólasjúkrahús, svo enn eitt dæmi sé tekið. Ég sé jafnvel fyrir mér að lífeyrissjóðir geti eignast Landsvirkjun að hluta.

Og svo má nefna, í tilefni af því, að við erum hingað komin, bæði til að líta um öxl og horfa fram á veginn ... Höldum þá endilega til haga þætti lífeyrissjóða í því, að Hvalfjarðargöngin, urðu til á sínum tíma. Göngin voru fyrsta fjárfesting íslenskra lífeyrissjóða í einkaframkvæmd og það í skuldabréfum sem hvorki voru með ríkisábyrgð né tryggð með veði í fasteignum!

Hrafn Magnússon, þáverandi framkvæmdastjóri Sambands almennra lífeyrissjóða og Þorgeir Eyjólfsson formaður Landssambands lífeyrissjóða, beittu sér mjög fyrir því að lífeyrissjóðir keyptu skuldabréf af Speli, félaginu sem stofnað var um framkvæmdina, og tækju þátt í að fjármagna göngin til langs tíma. Það gekk eftir og aðstandendur Spalar sögðu síðar að ákvörðun lífeyrissjóðanna hefði í raun skipt sköpum og haft mjög jákvæð áhrif á erlenda fjárfesta sem höfðu verið tvístígandi. En svo tókst að lokum að púsla saman fjármögnunarpakkanum og framkvæmdir við þetta mikla samgöngumannvirki hófust.

Vegagerðin tók við göngunum á síðasta ári og svo vill til að á morgun liggur fyrir loka aðalfundi Spalar tillaga um, að Vegagerðin yfirtaki félagið. Þar með lýkur merkilegri sögu sem lífeyrissjóðir eiga hlut í og eiga að vera stoltir af.

Margt er sagt og skrifað um lífeyrissjóðina og um lífeyrissjóðakerfið í heild sinni. Ég held, að ekki sé með neinni sanngirni hægt að halda öðru fram en að Íslendingar hafi verið skynsamir og sýnt fyrirhyggju í því, að standa að málum eins og raun ber vitni.

Hver er sinnar gæfu smiður. Þeir sem sömdu um skylduaðild að lífeyrissjóðum fyrir hálfri öld eiga þakkir skildar. Þeir voru okkar gæfu smiðir.

Ég vil bjóða háttvirtan forsætisráðherra Katrínu Jakobsdóttur að ávarpa samkomuna.