Sjóðurinn gerist aðili að FESTU – Samfélagsábyrgð fyrirtækja

12. nóv. 2018

Lífeyrissjóður verzlunarmanna (LV) hefur, fyrstur lífeyrissjóða, gerst aðili að FESTU-Samfélagsábyrgð fyrirtækja. Tilgangur FESTU er að auka þekkingu á samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja og efla getu fyrirtækja til að tileinka sér slíka starfshætti. Með aðildinni vill sjóðurinn fylgja eftir áherslum sínum um samfélagslega ábyrgð og ábyrgar fjárfestingar.

LV ávaxtar fjármuni fyrir hönd sjóðfélaga sína í þeim tilgangi að greiða þeim lífeyri. Sjóðurinn hefur starfað fyrir sjóðfélaga frá árinu 1956. Í þeim efnum ber honum að gæta að reglum laga og samþykkta sjóðsins í þeim tilgangi að efla getu lífeyrissjóðsins til að greiða sjóðfélögum traustan lífeyri.

Eignir í vörslu sjóðsins eru nú um sjö hundruð milljarðar króna. Nærri lætur að sjóðurinn ráðstafi til fjárfestinga rúmum 40 milljörðum á ári. Slíkri starfsemi fylgir ábyrgð. Fjárfestingarstarfsemi LV og geta hans til að greiða traustan lífeyri marka stærstan hluta af samfélagslegu spori sjóðsins.

LV hefur undanfarin misseri og ár lagt aukna áherslu á samfélagslega ábyrgð sjóðsins við fjárfestingar. Sjóðurinn hefur um árabil átt aðild að UN-PRI, samtökum á vegum Sameinuðu þjóðanna, sem vinna að ábyrgum fjárfestingum í samstarfi við fjárfesta og aðra aðila á fjármálamörkuðum. Þá hefur lífeyrissjóðurinn lagt aukna áherslu á ábyrgar fjárfestingar í starfsemi sinni. Þess sést m.a. stað í áherslum í hluthafastefnu sjóðsins og fjárfestingarstefnu.

Orðum þurfa að fylgja athafnir. LV hefur þegar stigið ákveðin skref í framkvæmd stefnu sjóðsins um ábyrgar fjárfestingar og mun gera áfram á komandi mánuðum og árum. Til marks um það er meðal annars nálgun sjóðsins á einstök fjárfestingarverkefni. Áhersla er lögð á að flétta saman ábyrgar fjárfestingar og það hlutverk sjóðsins að ná góðri langtímaávöxtun á þær eignir sem sjóðurinn hefur í umsjá sinni. Sjóðurinn mun leitast við að sýna frumkvæði í þeim efnum á sama tíma og hann lítur til þess sem vel er gert af öðrum aðilum á fjármálamarkaði.

Sjá nánar um Festu Samfélagsábyrgð fyrirtækja hér