Sjóðfélagalán í 60 ár

12. jan. 2017

60 ár eru liðin, nú í janúar 2017, frá því Lífeyrissjóður verzlunarmanna auglýsti fyrstu lánveitingarnar til sjóðfélaga. Þá hafði sjóðurinn starfað rétt tæplega eitt ár, en hann var stofnaður þann 1. febrúar 1956. Auglýsing um fyrstu lánin var birt í Morgunblaðinu þann 29. janúar.

Fyrstu sjóðfélagalán Lífeyrissjóðs verzlunarmanna auglýst í Morgunblaðinu 29. janúar 1957.

60 ár eru liðin, nú í janúar 2017, frá því Lífeyrissjóður verzlunarmanna auglýsti fyrstu lánveitingarnar til sjóðfélaga. Þá hafði sjóðurinn starfað rétt tæplega eitt ár, en hann var stofnaður þann 1. febrúar 1956. Auglýsing um fyrstu lánin var birt í Morgunblaðinu þann 29. janúar.

„Stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna hefur ákveðið að lána 1 milljón króna til aðila að lífeyrissjóðnum. Lánin veitast aðeins gegn 1. veðrétti í fasteign. Umsóknir með upplýsingum um veð sendist stjórn sjóðsins í pósthólf nr. 93, fyrir 15. febrúar.“

Þannig hljóðaði texti auglýsingarinnar, ekki er þess getið að lánareglurnar hafi verið flóknari en þetta og ekki er getið um vexti. Í 30 ára afmælisriti sjóðsins frá 1986 segir: „Fimmtíu og sex umsóknir bárust um rúmlega þriggja milljóna króna lán. Stjórnin samþykkti að veita 20 sjóðfélögum lán til 10 ára á bilinu 30-75 þúsund hvert, eða alls um eina milljón króna.“

Óbundin ráðstöfun

Öll þau 60 ár sem liðin eru frá upphafi lánveitinga til sjóðfélaga hafa þessi lán verið snar þáttur í starfsemi Lífeyrissjóðs verzlunarmanna. Þó að lánin hafi frá upphafi verið tryggð með veði í fasteign, hefur ráðstöfun fjárins ekki verið bundin, en að líkindum hafa þau frá fyrstu tíð einkum verið notuð til að fjármagna íbúðir sjóðfélaganna, hvort sem var til byggingar eða kaupa. Fyrstu árin var ekki um marga aðra möguleika að ræða til fjármögnunar íbúða.

Í 30 ára afmælisritinu segir á bls. 53: „Starfsmenn sjóðsins hafa hin síðari ár gert leynilega, nafnlausa könnun á því hvernig sjóðfélagar hafa ráðstafað lánveitingum sjóðsins og hefur niðurstaðan jafnan verið sú, að meginþungi lánanna fari til kaupa eða nýbygginga á íbúðarhúsnæði. Til að koma til móts við unga húsbyggjendur ákvað stjórn sjóðsins 15. marz 1985 að taka upp nýjan lánaflokk hjá sjóðnum fyrir þá sem eru að eignast sína fyrstu fasteign. Í þeim flokki er lánsupphæðin nú 590.000 krónur og hækkar væntanlega eins og önnur lán sjóðsins í samræmi við verðlagsþróun. Lánstíminn er 37 ár og er lánið afborgunarlaust fyrstu tvö árin.“

Ólíkir tímar

Eins og nærri má geta hefur margt breyst á 60 árum og þá ekki síst þær fjárhæðir sem um ræðir. Heildarfjárhæð fyrstu lánveitingarinnar var um ein milljón króna. Uppfært til verðlags í dag lætur nærri að það séu um 32 milljónir króna. Á sama hátt eru fjárhæðir einstakra lána, á bilinu 30 til 75 þúsund krónur uppreiknaðar til einnar milljónar til tveggja og hálfrar milljónar í dag.

Þetta dugði fjölskyldum all vel til að fjármagna íbúð. Rétt er að minna á að verðforsendur voru að miklu leyti aðrar fyrir 60 árum en í dag. Nú er algengast að nýjar íbúðir séu seldar fullbyggðar og jafnvel fullbúnar öllum innréttingum og tækjum. Fyrir 60 árum var algengast að hver og ein fjölskylda tæki mikinn þátt í að byggja húsið með eigin vinnuframlagi og flutt var inn í íbúðirnar ókláraðar, jafnvel aðeins með máluð gólf og veggi og tjöld fyrir dyrum. Næstu ár síðan notuð til að ljúka við bygginguna „eftir efnum og ástæðum.“ Lóðaverð var líka mun minni hluti kostnaðar við nýbyggingar en nú á tímum.

Árið 1985 voru sjóðfélagalán Lífeyrissjóðs verzlunarmanna 1.260 að upphæð um 267,5 milljónir króna, eða rétt rúmlega tveir milljarðar króna á verðlagi í dag. Nýi lánaflokkurinn, sem getið er um hér að ofan, til fyrstu íbúðakaupa var með 590 þúsund króna lán, sem jafngildir um 4,5 milljónum króna nú.

Í fyrra, árið 2016, tóku lánveitingar verulega við sér eftir nokkra lægð næstu tvö árin áður.